ÁKVEÐNAR hafa verið skipulagsbreytingar hjá Eimskipi ehf. einkum á sölu- og markaðssviði og rekstrarsviði.

ÁKVEÐNAR hafa verið skipulagsbreytingar hjá Eimskipi ehf. einkum á sölu- og markaðssviði og rekstrarsviði. Í tengslum við þessar breytingar hefur verið ákveðið að fækka starfsmönnum félagsins í almennum skrifstofustörfum um 17 á næstu mánuðum og hefur viðkomandi aðilum verið greint frá því, samkvæmt upplýsingum frá Eimskipi.

Á sölu- og markaðssviði verða tvær deildir, verslunarþjónusta og bíla- og tækjaþjónusta, sameinaðar í eina deild, sölu flutningaþjónustu. Á rekstrarsviði verða nokkrar deildir sameinaðar og verður talsverð tilfærsla starfsmanna í tengslum við það og fækkun forstöðumanna. Þessar breytingar verða kynntar nánar fljótlega.

Eimskip hefur fengið fyrirtækið Mannafl til að aðstoða þá starfsmenn sem láta af störfum hjá félaginu vegna þessa. Ekki er gert ráð fyrir að grípa til frekari fækkunar starfsmanna umfram venjubundnar breytingar á einstaka störfum eins og gengur og gerist í rekstri félagsins, samkvæmt upplýsingum frá Eimskipi.

Í tilkynningu kemur fram að megintilgangur þessara breytinga og fækkunar starfsmanna er að auka hagkvæmni í rekstri félagsins og bæta þannig afkomu félagsins og þar með arðsemi flutningastarfseminnar ekki síst í ljósi þess að afkoma flutningastarfseminnar hefur verið óviðunandi undanfarin misseri, að því er segir í tilkynningu frá Eimskipi.