BÆJARSTJÓRN Árborgar átelur harðlega þá ætlan ríkisvaldsins að reikna ekki með neinum fjármunum til tvöföldunar og endurbóta á þjóðveginum yfir Hellisheiði í þeirri samgönguáætlun fyrir tímabilið 2003-2006 sem nú liggur fyrir Alþingi til samþykktar.

BÆJARSTJÓRN Árborgar átelur harðlega þá ætlan ríkisvaldsins að reikna ekki með neinum fjármunum til tvöföldunar og endurbóta á þjóðveginum yfir Hellisheiði í þeirri samgönguáætlun fyrir tímabilið 2003-2006 sem nú liggur fyrir Alþingi til samþykktar. Í ályktun sem samþykkt var 27. janúar skorar bæjarstjórn Árborgar á alþingismenn að breyta þessari áætlun og gera endurbætur á veginum um Hellisheiði að forgangsverkefni.

Í greinargerð bæjarstjórnar Árborgar með ályktuninni segir:

Annar ekki umferðinni

"Það er ljóst að þjóðvegurinn um Hellisheiði annar engan veginn þeirri umferð sem um hann fer á álagstímum. Þessi vegur er talinn einhver fjölfarnasti og jafnframt hættulegasti kafli hringvegarins. Frá því vegurinn var lagður bundnu slitlagi fyrir um þrjátíu árum hafa nánast engar endurbætur verið gerðar á honum umfram venjulegt viðhald. Það fer í vöxt að fólk austan heiðar sæki vinnu til höfuðborgarsvæðisins og öfugt, einnig fer samvinna fyrirtækja og stofnana á þessum svæðum vaxandi þannig að hér er um eitt stórt atvinnusvæði að ræða. Mikilvægi góðra vegasamgangna á þessari leið vex stöðugt m.a. vegna aukinnar ferðaþjónustu og fjölda orlofshúsa á svæðinu. Einnig er hlutur landflutninga í flutningakerfi landsmanna að aukast.

Það er brýnt hagsmunamál Sunnlendinga að vegurinn um Hellisheiði verði endurbættur með það að markmiði að hann anni þeirri umferð sem um hann fer og að slysatíðni lækki."