Björn Haukur Pálsson, Aubrey Derry, Arthur Scott Davidson, Ágúst Magnússon og Ásgrímur Ásgrímsson ásamt Veronique Jegat.
Björn Haukur Pálsson, Aubrey Derry, Arthur Scott Davidson, Ágúst Magnússon og Ásgrímur Ásgrímsson ásamt Veronique Jegat.
LANDHELGISGÆSLAN hefur til þessa eingöngu haft eingeislamæli til sjómælinga en í sumar sem leið fékk hún lánaðan fjölgeislamæli hjá bandaríska sjóhernum og hafði hann til umráða þar til í byrjun október.

LANDHELGISGÆSLAN hefur til þessa eingöngu haft eingeislamæli til sjómælinga en í sumar sem leið fékk hún lánaðan fjölgeislamæli hjá bandaríska sjóhernum og hafði hann til umráða þar til í byrjun október.

Dagmar Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að notkun fjölgeislamælis feli í sér byltingu hvað varðar öflun upplýsinga um hafsbotninn og framsetningu þeirra.

Munurinn á eingeislamæli og fjölgeislamæli er sá að eingeislamælirinn mælir einn punkt á hafsbotni í einu en fjölgeislamælirinn sýnir heildstæða botnmynd. Kostir við notkun fjölgeislamælis eru miklir á grunnsævi þar sem hætta er á skipströndum ef mönnum sést yfir eina mishæð á botninum.

Sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar og tveir starfsmenn hafrannsóknarstofnunar bandaríska sjóhersins hafa að undanförnu verið á námskeiði í úrvinnslu dýptarmælingagagna, en úrvinnsla mælingagagna úr fjölgeislamælinum er frábrugðin úrvinnslu slíkra gagna úr eingeislamæli og reyndist nauðsynlegt, bæði fyrir sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar og hafrannsóknarstofnunar bandaríska sjóhersins, að fá kennslu í notkun sérhæfðs hugbúnaðar til úrvinnslu gagnanna. Til að draga úr kostnaði sameinuðust þessir tveir aðilar um að halda námskeið hér á landi og kom leiðbeinandi frá alþjóða hugbúnaðarfyrirtækinu CARIS sem sérhæfir sig í framleiðslu hugbúnaðar til mælinga og kortagerðar.

Æfingaverkefni námskeiðsins var úrvinnsla mælingagagna sem safnað var síðastliðið sumar með fjölgeislamælinum yfir og umhverfis Klettinn í Húllinu, suðvestur af Reykjanestá, en við úrvinnsluna kom í ljós að Kletturinn er einungis efsti hlutinn af umfangsmiklu neðansjávarklettabelti.