Þrír þátttakenda á sýningunni Then...hluti 5 - nýleg kynni. F.v. Birgir Snæbjörn Birgisson, Miles Henderson Smith og Gísli Bergmann.
Þrír þátttakenda á sýningunni Then...hluti 5 - nýleg kynni. F.v. Birgir Snæbjörn Birgisson, Miles Henderson Smith og Gísli Bergmann.
ALÞJÓÐLEGA samsýningin Then...hluti 5 verður opnuð í Listasafni ASÍ, Ásmundarsal, Freyjugötu 41, í dag, laugardag, kl. 15.

ALÞJÓÐLEGA samsýningin Then...hluti 5 verður opnuð í Listasafni ASÍ, Ásmundarsal, Freyjugötu 41, í dag, laugardag, kl. 15. Verk á sýningunni eiga Birgir Snæbjörn Birgisson, Miles Henderson Smith, Andrew Child, Gísli Bergmann, Tom Merry og Stefan Bottenberg en sami hópur er einnig með sýningu á Kjarvalsstöðum um þessar mundir.

Þessi sýning heitir "Nýleg kynni" og á henni sýna listamennirnir nýjustu verk sín en það sem tengir þau er sameiginlegur áhugi listamannanna á rými og því andartaki er listaverkið hittir áhorfandann fyrir. Tilfinningarík og hljóðlát efnisnotkun, jafnt í hlutlægum sem og óhlutlægum verkum sýningarinnar kallar á bein samskipti við áhorfandann. Fígúrur eru gefnar í skyn í mörgum verkanna en aldrei alveg afhjúpaðar. Áherslan er lögð á sambandið milli áhorfandans og listaverksins til að áhorfandinn nái að skynja sjálfan sig í sýningarrýminu og spyrji sig spurninga sem ekkert eitt svar er við.

Sýningin er opin til 16. febrúar, alla daga nema mánudaga kl. 13-17 og er aðgangur ókeypis.

Á morgun, sunnudag, kl. 14 verður leiðsögn um sýninguna.

Í tengslum við sýningarnar tvær hefur verið gefin út sýningarskrá með grein eftir heimspekinginn Jonathan Dronsfield.