Bandaríkin 2001. Skífan VHS. (96 mín.) Bönnuð innan 16 ára. Leikstjórn John Mackenzie. Aðalhlutverk Michael Keaton, Michael Caine.

STÍFUR og strangheiðarlegur bankamaður frá New York (Keaton) er sendur til Mónakó til þess að rannsaka grunsamleg viðskipti vafasamra kaupsýslumanna sem bankinn hefur átt í tygjum við. Það tekur hann ekki langan tíma að komast á snoðir um að eitthvað gruggugt sé í gangi. En eftir að hann hafnar ríflegri múturgreiðslu lendir hann sjálfur í laglegri beyglu og veit ekki fyrr en hann er grunaður um að hafa myrt hátt settan stjórnmálamann og hafa staðið í stórfeldum skattsvikum. Eina ráðið fyrir hann er því að sanna sakleysi sitt, sem hann gerir með hjálp úr óvæntri átt frá úrillri uppgjafa kvikmyndastjörnu (Caine).

Á góðum degi getað þeir allir verið meðal þeirra bestu, leikstjórinn Mackenzie (The Long Good Friday) og Mikjálarnir tveir. Hér eiga þeir hinsvegar aðeins þokkalegan dag, skila sínu af fagmennsku, en virðast þó innblásnir fremur af gömlum vana en áhuga. **

Skarphéðinn Guðmundsson