Bandaríkin 2001. Skífan. VHS (100 mín.) Bönnuð innan 16 ára. Leikstjóri: Leon Ichaso. Aðalleikendur: Benjamin Bratt, Giancarlo Deposito, Talisa Soto, Mandy Patinkin, Rita Moreno.

HRUNADANS ljóðskáldsins og leikritahöfundarins Miguels Pinero (Benjamin Bratt), fær mishæðótta meðhöndlun hjá leikstjóranum og handritshöfundinum Leon Ichaso. Piñero er, líkt og hin mun betri Basquiat, sjálfsævisöguleg mynd um lánlausan listamann og New York-búa sem siglir hraðbyri úr frægðarljóma á vit sjálfstortímingar.

Ichaso fylgir bæði listsköpun og ákafri og markvissri sjálfseyðileggingu Piñero frá því hann flytur ungur til New York, gerist ótíndur glæpamaður en síðan eftirsóttur listamaður, dægurstjarna, uns líf hans fjarar út í undirheimum borgarinnar, umlukinn eiturlyfjum og ræfildóm.

Ekkert er dregið undan, Piñero er full af mannfyrirlitningu, ljótleika, ofbeldi, dópneyslu, öfuguggahætti og öðrum viðbjóði sem markar mann sem er skítsama um allt og alla - ekki síst sjálfan sig. Sekkur sífellt dýpra og dýpra niður í sorann og dregur með sér í leiðinni alla sem þykir vænt um hann. Ichaso áreitir áhorfandann með skrykkjóttri, handheldri myndatöku, sífelldu flökti milli lita- og s/h myndatöku og þeytingi fram og aftur í tíma.

Ógeðfellt en áhrifaríkt verk um árásargjarnan snilling sem á sér ekki viðreisnar von. Pinero er það meistaralega leikinn af Bratt að túlkunin ein er þess virði að leigja myndina. Soto, Deposito og Moreno (West Side Story), auðga einnig athyglisverða mynd um hæfileika og tortímingu.***

Sæbjörn Valdimarsson