"Af hverju þurfti þetta að gerast? Allt það góða og fallega sem hefði geta orðið, en aldrei verður."
"Af hverju þurfti þetta að gerast? Allt það góða og fallega sem hefði geta orðið, en aldrei verður."
Leikstjórn og handrit: Gaspar Noé. Kvikmyndataka: Benoit Debie og Gaspar Noé. Aðalhlutverk: Monica Bellucci, Vincent Cassel og Albert Dupontel. 95 mín. Frakkland. Le Studio Canal + 2002.

IRRÉVERSIBLE eða Óafturkallanlegt er fersk, öðruvísi, krefjandi, óhugnanleg, áhugaverð og umdeild kvikmynd. Þar sem sagan er stærri og skiptir miklu meira máli en kvikmyndin sjálf.

Eins og segir í kynningu myndarinnar hefst hún á morði þar sem er verið að hefna fyrir nauðgun sem við síðar verðum vitni að. Og í raun er í lagi að vita hvað gerist. Það sem skiptir meira máli í þessari mynd er hvernig maður sér atburðina, hvað manni finnst um þá og hvernig manni líður með þá. Enda segist leikstjórinn hafa gert þessa mynd í þeim tilgangi að koma við fólk. Og eitt er víst að það hefur tekist. Við fréttum frá Cannes að liðið hefði yfir fólk á sýningu myndarinnar og sumir þurft læknishjálp. Ég minntist þessa þegar ég sá myndina... og hjálp! Myndin hefst á að titillinn, nöfn leikaranna og aðstandenda hamrast á skerminum með tilheyrandi óhugnanlegum hljóðum og strax er myndin orðin agressíf... áður en hún byrjar. Ég sat í stólnum, hélt mér í og hugsaði: "Nei, nei, ég vil ekki sjá þessa mynd." Síðan kom ég mér á óvart með því að horfa á hana án tiltakanlega mikils hryllings, eflaust af því að ég hafði búist við hinu versta. Það var helst að valtað hefði verið yfir réttlætiskennd mína og bjartsýni. Samt gat ég ekki annað en velt fyrir mér hversu ónæm ég væri orðin fyrir hryllingi. Ég horfði á hrottafengnasta og grófasta morð sem ég hef séð og níu mínútna nauðgun þar sem ekkert er dregið undan og maður er neyddur til að horfa á allt til enda. Það er óhugnanlegt hverju áhorfendur í dag eru orðnir vanir. En ein rök Gaspars Noé fyrir yfirgengilegu ofbeldi myndarinnar er að sýna fram á hversu tilgangslaust það er og eru misjafnar skoðanir á því hvort leikstjóranum hafi tekist það ætlunarverk sitt. Fyrir mitt leyti já, og finnst mér tilraunin mun áhugaverðari og áhrifaríkari en aðrar undangengnar. Og þar hefur kvikmyndagerðin sitt að segja en ekki bara sagan sjálf.

Eitt það sérstæðasta við myndina er að hún er sýnd aftur á bak, þannig að seinasta atriði myndarinnar kemur fyrst og síðan koll af kolli. Venjulega er áhorfendum gefið tækifæri til að tengjast persónunum, mynda sér álit á þeim og byggja upp samúð með þeim áður en til átaka og uppgjara frásagnarinnar kemur. Hér er farið beint í ódæðin og áhorfendur vita í raun ekki hvað þeim á að finnast tilfinningalega um verknaðinn. Þá bara hryllir óneitanlega við. Myndavélinni er þó beitt þannig að áhorfendur verða jafnringlaðir og aðalpersónan er og geta þannig að örlitlu leyti sett sig í fótspor hennar. Þegar að nauðguninni kemur þekkjum við persónurnar örlítið og höfum samúð. Þar kemur mjög sterkt inn að áhorfendur vita hver örlög persónanna verða, sem gerir þær svo óendanlega varnarlausar og áhorfendur mun meyrari. Ég heyrði sjálfa mig reyna að vara nauðgunarfórnarlambið við: "Ekki fara þarna, ekki!" Vonleysið færist enn frekar yfir mann þegar við sjáum að rétti náunginn var ekki drepinn í upphafi. Að lokum kynnist maður persónunum og í fallegu lokaatriði þar sem myndavélin svífur upp í himininn verður maður svo reiður og sorgmæddur. Af hverju þurfti þetta að gerast? Allt það góða og fallega sem hefði getað orðið en aldrei verður. Allt það ljóta sem hefur gerst og er svo hryllilega óafturkallanlegt. Vincent Cassel og Monica Bellucci eru frábærlega sannfærandi í aðalhlutverkunum sem ástfangna parið sem lendir í öllum hryllingnum og maður finnur auðveldlega til með þeim. Myndin hefur sært siðferðiskennd margra en það er satt hjá leikstjóranum að ef á annað borð er verið að sýna nauðgun og morð, af hverju þá að sýna þessa viðbjóðslegu atburði í yfirborðskenndri útgáfu? Fórnarlömb raunveruleikans eiga ekki kost á því. Ætli siðferðiskennd þeirra sé særð?

En af hverju að segja svona sorglega og vonlausa sögu? Maður er algerlega miður sín eftir að hafa séð myndina. Hvað hefur maður upp úr því? Yfirleitt eru sorglegu bíómyndirnar um sanna atburði. En þessi mynd er sannari en þær allar til samans því hér er ekki um einstakan atburð að ræða, heldur gerist einmitt þetta þúsund sinnum á dag um allan heim, aftur og aftur og aftur.

Mér þykir það miður að þótt mér finnist þessi einfalda saga af hefnd ástfangna mannsins stórmerkileg kvikmynd, áhrifarík, sönn og gerð af miklu næmi og innsæi, þá treysti ég mér varla til að mæla með henni við nokkurn mann. Hvorki viðkvæma né þá sem uppfullir eru af réttlætiskennd. Hins vegar get ég ekki annað en skorað á mikla kvikmyndaáhugamenn og aðrar nýjungagjarnar og hraustar sálir að láta hana ekki fram hjá sér fara.

Hildur Loftsdóttir