Ein myndanna á sýningunni Lýsi í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi.
Ein myndanna á sýningunni Lýsi í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi.
Í LISTASAFNI Reykjavíkur - Hafnarhúsi verður opnuð sýning kl. 16 í dag á verkum myndskreyta í íslenskum handritum frá siðaskiptum fram á miðja 19. öld. Sýningin er í verkefninu Lýsi og er sýningar- og verkefnastjóri Ásrún Kristjánsdóttir.

Í LISTASAFNI Reykjavíkur - Hafnarhúsi verður opnuð sýning kl. 16 í dag á verkum myndskreyta í íslenskum handritum frá siðaskiptum fram á miðja 19. öld. Sýningin er í verkefninu Lýsi og er sýningar- og verkefnastjóri Ásrún Kristjánsdóttir. Viðfangsefni hennar á þessari sýningu er að sýna fram á að myndlistarsaga er jafngömul þjóðinni og eru myndlýsingar í miðaldahandritum einn hluti af þeim arfi sem sýnir fram á þetta.

Á sýningunni getur að líta myndir Jóns bónda Bjarnasonar og ýmissa annarra myndskreyta, og skiptast verkin í nokkra efnisflokka, sem gerð er grein fyrir í sýningarsölunum. Myndir Jóns bónda eru "bernskar", og í samræmi við það gæti mörgum þótt þær hafa meira skemmtana- og upplýsingagildi um tíðaranda en listrænt gildi.

Á sýningunni verður einnig flutt hljóðlistaverkið Hvísl skrifarans eftir Sjón og Hilmar Örn Hilmarsson.

Gagnagrunnur um myndlist

Lýsir er heitið á verkefni sem sett var á stofn með það að markmiði að búa til gagnagrunn um myndlist í íslenskum handritum. Samstarfsaðilar Lýsis eru Listasafn Reykjavíkur og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Markmið er að rannsaka og ljósmynda íslensk handrit í þeim tilgangi að auðvelda aðgengi myndlistarfólks, fræðimanna, nemenda og almennings að þeim lítt þekkta þætti myndlistarsögu þjóðarinnar sem þar er að finna. Lýsir hefur frá upphafi haft hug á að efna til sýninga á völdu myndefni í tengslum við rannsóknir á handritum og er sýningin í Listasafni Reykjavíkur fyrsta skrefið á þeirri leið. Ætlunin er að sá gagnagrunnur sem myndast út frá þessum rannsóknum verði opnaður almenningi næsta haust og síðan uppfærður eftir því sem verkinu vindur fram.

Sýningin stendur til 9. mars og er opið alla daga kl. 10-17.