Ýmis mismunandi sígild söngleikja- og kaffihúsalög. 4Klassískar (söngkonurnar Björk Jónsdóttir, Jóhanna V. Þórhallsdóttir og Signý Sæmundsdóttir og píanóleikarinn Aðalheiður Þorsteinsdóttir). Gestur: Tómas R. Einarsson kontrabassi. Fimmtudaginn 30. janúar kl. 20.

YFIRSKRIFT tónleikanna á fimmtudagskvöld var "Kvöldskemmtun á þorra". Kabarettsleg viðfangsefni 4Klassískra voru fjölbreytt og sköruðust á milli aðgengilegra ljóðasöngva, Vínarléttmetis, Broadway- og innlendra söngleikja, líkt og fyrir e.k. þyngri útgáfu af Borgardætrum. Aðsóknin var þó ekki nema tæp 40 manns.

Langflest var sungið í terzettskipan, oftast með Signýju Sæmundsdóttur í sópran, Björk Jónsdóttur í mezzo og Jóhönnu V. Þórhallsdóttur í alt. Þó átti hver um sig sitt einsöngstækifæri í seinni hluta; Jóhanna í tangó Árna Björnssonar, Að ganga í dans, Signý í Ljúflingshól (Jón Múli Árnason) og Björk í Maður hefur nú... (Gunnar Reynir Sveinsson). Byrjað var á tveim lögum eftir Franz P. Schubert, Lachen und Weinen og Silungnum, en síðan tekið hið rómantískt líðandi Beau Soir eftir Claude Debussy. Signý og Jóhanna fluttu þá Dôme Épais, blómadúettinn kunna úr "Lakme" Delibesar. Kvennatríóið söng að því loknu hið seiðandi The water is Wide; sagt amerískt en hér kunnast undir nafninu Þvílík er ástin við texta Jónasar Árnasonar er telur það írskt þjóðlag (Til söngs, 1987). Næst var Till there was you úr söngleik Meredith Willsons The Music Man (1957) sem varð endanlega ófeigt á öndverðum ferli Bítlanna.

Eftir tvö hálfdauf Vínaróperettulög var Domino ("ertu frönsk eða frónsk eða bæði?" eins og gárungar syngja) Ferraris kyrjað af krafti. Can Can Offenbachs úr "Orfeus í undirheimum" er frumhugsað til spils og í raun ósönghæft, og breytti útsetning Ophovens engu um það. Hins vegar var gaman að Three little Maids from Scool úr Mikado Gilberts & Sullivans er henti hópnum bráðvel með tilheyrandi taktföstu nipponskulegu sviðstipli.

Í seinni hluta mætti gesturinn Tómas R. Einarsson til samleiks, enda viðfangsefnin nær djassinum og hefði að skaðlausu einnig mátt bæta trommuburstara við, því oft vantaði sárlega eftirslag til að lyfta sveiflu. Fjögurra laga syrpa úr sennilega einum af fimm beztu Broadwaysöngleikjum allra tíma, Fiðlaranum á þakinu eftir Jerry Bock, tókst með ágætum og einnig áðurnefnd einsöngslög þar næst á eftir. Einskis var getið um aldur lags Atla Heimis Sveinssonar við Maístjörnu Halldórs Laxness, né heldur hafði undirr. áður eyrum barið þetta snotra léttpoppaða lag í nærri djassvalskenndum 6/8 takti (hér sagt í útsetningu 4Klassískra) sem kvartettinn flutti - ef ekki frumflutti - að tónhöfundi nærstöddum við góðar undirtektir.

Epískur hápunktur Vesalinga Claude-Michels Schönbergs, Einn dag enn, átti sín augnablik með þeim stöllum en náði samt ekki fullu flugi, trúlega einkum sakir of hægs tempós. "Offbítið" vantaði áberandi í Ain't no mountain high enough (Ashford/Simpson) og kisulórulegu fettur Marilyn Monroe úr Some like it hot (1959) voru fullóskammfeilið stældar í I Wanna Be Loved By You (Stothart/Ruby/
Kalmar). Hins vegar var mikill kraftur yfir lokalaginu, The Impossible Dream (Leigh/Darion) úr Don Quixote-söngleiknum "Man of la Mancha". Hér sem víðar var píanóleikurinn á hinn bóginn óþarflega hógvær, og það, ásamt ekki nægilega kabarettslegum aðstæðum þar sem sitja mætti við borð, dró sennilega mest úr notagildi annars vel þegins framlags til aukinnar fjölbreytni í reykvísku tónlistarlífi.

Ríkarður Ö. Pálsson