Lagt er til að vinnuhópur ríkis og borgar skoði m.a. þá tillögu að ríkið annist alfarið þann þátt sem lýtur að viðhaldsverkefnum á lóð Menntaskólans í Reykjavík en gert verði samkomulag milli ríkis, borgarinnar og Seltjarnarnesbæjar um stofnkostnað vegna n
Lagt er til að vinnuhópur ríkis og borgar skoði m.a. þá tillögu að ríkið annist alfarið þann þátt sem lýtur að viðhaldsverkefnum á lóð Menntaskólans í Reykjavík en gert verði samkomulag milli ríkis, borgarinnar og Seltjarnarnesbæjar um stofnkostnað vegna n
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri, lagði til á fundi borgarráðs í vikunni að teknar yrðu upp viðræður við menntamálaráðuneytið og Kópavogsbæ um byggingu nýs framhaldsskóla í Suður-Mjódd.

FRAM kemur í greinargerð með tillögunni að nýr framhaldsskóli kosti líklega ekki undir 1,5 milljörðum króna. Þá lagði hún til að óskað yrði eftir því við menntamálaráðherra að skipaður yrði vinnuhópur fulltrúa ríkis og borgar um húsnæðismál framhaldsskóla sem starfræktir eru í Reykjavík. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi borgarráðs á þriðjudag en málið var til umfjöllunar í borgarstjórn í fyrradag.

Að undanförnu hafa farið fram viðræður milli borgarstjóra og menntamálaráðherra um húsnæðismál framhaldsskólanna í Reykjavík og fékk borgarstjóri ráðagjafarfyrirtækið Nýsi til að vinna tillögur um stefnumörkun borgarinnar í húsnæðismálum framhaldsskólanna sem þegar hafa verið kynntar í borgarráði. Lagt er til að hlutverk vinnuhópsins verði m.a. að yfirfara tillögur sem settar eru fram í skýrslu Nýsis og gera tillögur um forgangsröðun framkvæmda og útfærslu þeirra og áætli kostnað við hvert verkefni. Þá er m.a. lagt til að vinnuhópurinn skoði sérstaklega tillögur að stækkun Menntaskólans við Sund og Vogaskóla og beri saman við tillögur um flutning MS á lóð í Laugardal.

Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn skoði tillögur að uppbyggingu á lóð Menntaskólans í Reykjavík og miðað verði við að ríkið annist alfarið þann þátt sem lýtur að viðhaldsverkefnum en gert verði samkomulag milli ríkis, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um stofnkostnað vegna nýframkvæmda. Þá beri vinnuhópnum að kanna m.a. hvort hagkvæmt sé að nýta húsnæði Iðnskólans í Reykjavík undir aðra framhaldsskólastarfsemi og að nýr iðnskóli verði byggður í staðinn. Lausnir miðiðst við að borgin taki aftur við Vörðuskóla og hann verði nýttur af Austurbæjarskóla. Lagt er til að vinnuhópurinn skoði einnig hvort hagkvæmt sé að stækka Fjölbrautaskólann við Ármúla og Breiðholti og Menntaskólann við Hamrahlíð með það fyrir augum að fjölga þar nemendum. Jafnframt verði húsnæðismál Kvennaskólans tekin til sérstakrar skoðunar og fjallað um staðsetningu nýs framhaldsskóla í Reykjavík sem byggður verði eftir að byggingu framhaldsskólans í Suður-Mjódd er lokið.

Landið eitt framhalds- skólasvæði

Ingibjörg Sólrún sagði á fundi borgarstjórnar á fimmtudag að það væri alveg ljóst að borgin hefði dregist aftur úr með uppbyggingu skóla og sömuleiðis viðhald. Tillaga um að taka upp viðræður við ráðuneytið miðuðu m.a. að því að fara yfir málefni skóla sem búa við þröngan kost. Hún sagði að ekki skorti framhaldsskólarými ef miðað væri við ungmennafjölda í Reykjavík. Mikil aðsókn væri hins vegar í skólana frá nærliggjandi sveitarfélögum og öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu lagt fram stofnframlög í menntaskólana að undanskildum Seltjarnarnesbæ en margir nemendur skólans koma þaðan.

Björn Bjarnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, sagði ekki rétt að tíunda málin með þessum hætti enda mættu menn ekki gleyma að landið væri allt eitt framhaldsskólasvæði.

Ingibjörg sagði að einmitt þess vegna væri löngu tímabært að ríkið fjármagnaði framkvæmdir við framhaldsskóla að fullu. Mikilvægt væri að saman færi ábyrgð á rekstri og fjármögnun.

"Við verðum að horfa á höfuðborgarsvæðið allt sem heild. Það er ekki sjálfgefið að Reykjavíkurborg reiði fram það 40% framlag sem menntamálaráðuneytið hefur gert kröfu til."

Björn Bjarnason sagðist aldrei hafa skilið þessa þvermóðsku sem fram hafi komið þegar rætt væri um uppbyggingu framhaldsskóla né heldur hvernig ætti að leysa málefni skólanna því borgin tæki ekki ákvörðun um hvernig skólarnir ættu að standa í framtíðinni. Í mörg horn væri að líta.

"Nú snýst málið um hvernig borgin getur samið við önnur sveitarfélög um að semja um þessi 40%," sagði Björn.

Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nýsis segir að fjölga þurfi rýmum í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2012 um 1.500. Í Reykjavík eru um 7.500 nemendur í framhaldsskólum en fjöldi íbúa á aldrinum 16-20 ára er 7.434. Í nágrannasveitarfélögunum eru um 2.500 nemendur en fjöldi íbúa á aldrinum 16-20 ára eru 4.985. Um 1.100 nemendur af landsbyggðinni stunda nám í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kemur í skýrslu Nýsis. Þá sækir fjöldi nemenda úr nágrannasveitarfélögunum framhaldsskóla í Reykjavík.

Framkvæmdir gætu hafist á næsta ári

Í greinargerð með tillögu Ingibjargar Sólrúnar segir að við þessar aðstæður sé ekki eðlilegt að borgin beri 40% af stofnkostnaði skóla. Í skýrslu Nýsis er bent á að aðeins 65% nemenda MR séu úr Reykjavík.

"Er lögð áhersla á það í skýrslunni að líta þurfi heildstætt á höfuðborgarsvæðið allt og stefna að auknu samstarfi sveitarfélaga á svæðinu og uppbyggingu framhaldsskóla. Er það í samræmi við þá staðreynd að allir framhaldsskólar standa nú opnir nemendum óháð búsetu og teljast því ekki hverfatengd þjónusta," segir í greinargerðinni.

Aðspurð um byggingu nýs framhaldsskóla í Suður-Mjódd sagði Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið að fyrst lægi fyrir að fara þyrfti í forsagnagerð og hönnun og að það ferli gæti tekið allt þetta ár.

"Það þyrfti að gera samninga milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar, en það gæti þá þess vegna orðið fljótlega á næsta ári sem við gætum kannski farið að hefja framkvæmdir," segir Ingibjörg Sólrún.

Hún undirstrikar að ekki sé enn búið að leysa einstök mál og útfærslur sem séu flóknar og samofnar. Til dæmis þurfi meira rými undir Vogaskóla en þar sé Menntaskólinn við Sund fyrir. Spurningin sé hvort hægt sé að finna viðunandi lausn sem rúmist á þeirri lóð eða hvort þurfi að gera það annars staðar.

"Við þyrftum í raun að fá Vörðuskóla fyrir Austurbæjarskóla til þess að þurfa ekki að reka færanlegar kennslustofur þar í einhverju magni," bætir hún við.

Þá sé aftur spurning hvort Iðnskólinn þurfi að flytjast í nýtt húsnæði og Kvennaskólinn færist í húsnæði Iðnskólans, svo dæmi séu nefnd.. "Þetta er flókið púsluspil og það er ekki búið að kortleggja hvernig við ætlum að gera þetta. Það er náttúrlega ljóst að það er ódýrast ef það er hægt að byggja við en ekki fara í nýjan framhaldsskóla.

Ingibjörg telur að lokum að mikilvægt sé að menn gefi sér ekki of langnan tíma í að finna lausnir á málefnum framhaldsskólanna.