GERT er ráð fyrir að allt að 5 milljónum króna verði varið til að taka á í atvinnumálum Sandgerðis á árinu, samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins. Fjárhagsáætlun Sandgerðisbæjar var samþykkt samhljóða á síðasta fundi bæjarstjórnar.

GERT er ráð fyrir að allt að 5 milljónum króna verði varið til að taka á í atvinnumálum Sandgerðis á árinu, samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins.

Fjárhagsáætlun Sandgerðisbæjar var samþykkt samhljóða á síðasta fundi bæjarstjórnar. Við síðari umræðu um áætlunina kom fram tillaga frá meirihluta Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um umrætt fjárframlag til atvinnumála. Ákveðið var að fela atvinnumálaráði að leita leiða til að laða að ný fyrirtæki og kanna stöðu þeirra sem fyrir eru, einnig að kanna möguleika á nýsköpun og nýtingu þeirra húsa sem standa illa notuð. Þá var í samþykkt bæjarstjórnar ákveðið að efla útgerð og fiskvinnslu með beinum hætti og minnt í því efni á átak sem unnið er að í þeim tilgangi að auka kvóta í bæjarfélaginu.

Samhljóða tillögu minnihlutans

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sandgerðislistans, sem eru í minnihluta, fögnuðu tillögum meirihlutans og samþykktu fjárhagsáætlunina. Þeir létu þó bóka að það vekti furðu að tillaga meirihlutans um fjárframlagið skyldi ekki hafa komið fram í breytingum á fjárhagsáætlun sem sendar voru bæjarfulltrúum rétt fyrir fundinn. Þá vekja þeir athygli á þeirri tilviljun að tillaga meirihlutans hafi verið nær samhljóða tillögu fulltrúa minnihlutaflokkanna sem átti að leggja fram á þessum sama fundi.