SAUTJÁN ára piltur var í gær sýknaður af ákæru um skjalafals með því að hafa sett skráningarmerki á bíl og ekið honum frá Reykjavík til Sandgerðis, þrátt fyrir að bíllinn hefði verið afskráður sem ónýtur.

SAUTJÁN ára piltur var í gær sýknaður af ákæru um skjalafals með því að hafa sett skráningarmerki á bíl og ekið honum frá Reykjavík til Sandgerðis, þrátt fyrir að bíllinn hefði verið afskráður sem ónýtur. Taldi Héraðsdómur Reykjaness að ekki væri sannað að pilturinn hefði vitað að bíllinn, sem hann keypti sama dag, hefði verið afskráður.

Málið kom til kasta lögreglu þegar faðir piltsins lenti í árekstri í Keflavík stuttu síðar. Kom þá í ljós að bíllinn hafði verið afskráður og var því ótryggður og átti alls ekki að vera í umferð. Sonurinn kvaðst hafa keypt bílinn af vinkonu sinni en móðir hennar var skráður eigandi bílsins. Ekki hefði hún minnst á að bíllinn hefði verið afskráður en bæði skráningarnúmerin hefðu verið í bílnum.

Þegar skýrsla var tekin af móðurinni sagðist hún hafa hent númerunum og kunni hún engar skýringar á því hvers vegna þau voru í bílnum þegar hann var seldur. Aðspurð sagðist hún hafa selt piltinum bílinn til niðurrifs og tekið skýrt fram að bíllinn væri afskráður. Þessum framburði breytti hún fyrir dómi og sagðist ekki hafa orðið vitni að kaupunum. Dóttir hennar sagðist hins vegar hafa sagt feðgunum frá því að bíllinn væri afskráður en faðirinn, sem var viðstaddur, tók ekki undir það. Héraðsdómi þótti því ekki sannað að pilturinn hefði brotið af sér og sýknaði hann. Það mætti þó fallast á að hann hefði við kaupin átt að tilkynna eigendaskipti og ganga frá því að bíllinn væri tryggður. Fyrir það hefði hann hins vegar ekki verið ákærður. Málskostnaður féll á ríkissjóð.

Guðmundur L. Jóhannesson kvað upp dóminn. Ásgeir Eiríksson, fulltrúi sýslumannsins í Keflavík, sótti málið en Ásbjörn Jónsson hdl. var til varnar.