NAFNÁVÖXTUN Sameinaða lífeyrissjóðsins var í fyrra neikvæð um 8,1% og raunávöxtunin var neikvæð um 9,9%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. fimm ár er 1,9%.

NAFNÁVÖXTUN Sameinaða lífeyrissjóðsins var í fyrra neikvæð um 8,1% og raunávöxtunin var neikvæð um 9,9%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. fimm ár er 1,9%.

Í fréttatilkynningu frá sjóðnum segir að þrátt fyrir slaka ávöxtun sjóðsins síðustu þrjú ár og aukningu lífeyrisskuldbindinga vegna hækkunar lífaldurs komi ekki til breytinga á réttindum sjóðsfélaga.

Fjöldi virkra sjóðsfélaga er 10.856, sem er 2% fjölgun frá fyrra ári, og fjöldi lífeyrisþega er 3.832, sem er 12% fjölgun. Þá segir að slök ávöxtun sjóðsins skýrist af mikilli lækkun á verði erlendra verðbréfa hans. Bréfin hafi lækkað í erlendri mynt og íslenska krónan hafi hækkað á móti erlendum myntum. Af þessum sökum hafi ávöxtun erlendra verðbréfa sjóðsins verið neikvæð um 38% í íslenskum krónum. Erlend hlutabréf sjóðsins í Bandaríkjadölum hafi lækkað um 21% og lækkun Bandaríkjadals gagnvart krónunni hafi numið um 22%. Hlutfall eigna sjóðsins í erlendum gjaldmiðlum var 21% um síðustu áramót en var 35% ári áður.

Skuldir vegna skuldabréfakaupa

Skuldir stigadeildar sjóðsins námu tæpum 4 milljörðum króna í árslok, en ári fyrr voru skuldirnar 818 milljónir króna. Jóhannes Siggeirsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir að skýringarnar á þessum skuldum séu þríþættar. Í fyrsta lagi sé skuld við aldurstengdu deildina að fjárhæð um 550 milljónir króna. Í öðru lagi sé ámóta há skuld við séreignadeild sjóðsins. Í þriðja lagi sé skýringin skammtímalán sem tekin hafi verið vegna skuldabréfakaupa. Stjórnendur sjóðsins hafi í desember ákveðið að nýta tækifæri sem þeir töldu sig sjá á skuldabréfamarkaði, því líklegt væri að ávöxtunarkrafan færi lækkandi. Hluti skýringarinnar á því að þetta hafi verið gert hafi verið að flýta kaupum á skuldabréfunum á meðan verðið væri hagstætt.