Ingibjörg Sólrún lauk ferlinum sem borgarstjóri með að ræsa orkuverið.
Ingibjörg Sólrún lauk ferlinum sem borgarstjóri með að ræsa orkuverið.
ORKUVER sem knúið er metangasi var tekið í notkun í Álfsnesi í gær en Orkuveita Reykjavíkur og Metan hf. stóðu fyrir uppsetningu þess. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir opnaði verið og var það síðasta verk hennar í embætti borgarstjóra Reykvíkinga.

ORKUVER sem knúið er metangasi var tekið í notkun í Álfsnesi í gær en Orkuveita Reykjavíkur og Metan hf. stóðu fyrir uppsetningu þess. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir opnaði verið og var það síðasta verk hennar í embætti borgarstjóra Reykvíkinga.

Uppsett afl í stöðinni er um 840 kílóvött og áætluð orkuframleiðsla á þessu ári eru 4,3 gígavattsstundir. Raforkan er framleidd með því að knýja gasvél með hauggasi sem fengið er úr sorphaugunum í Álfsnesi. Gasið, sem inniheldur að jafnaði 50-55% metan, myndast við niðurbrot á úrgangi og er safnað saman í lögnum, sem liggja um sorphaugana í Álfsnesi.

Við opnun orkuversins í gær kom fram að fram til þessa hafi gasinu verið brennt í brennara og síðan sleppt út í andrúmsloftið en með því að brenna því í gasvélinni fáist mun hreinna afgas og hreinni orka.

Að sögn Guðmundar Þóroddssonar, forstjóra Orkuveitunnar, er þátttaka fyrirtækisins í verkefninu liður í umhverfisstefnu fyrirtækisins. "Með þessu erum við að rétta hjálparhönd í því að gera hauggasið að alvöru orkulind," segir hann og bætir því við að nýta megi verið á fleiri vegu. Vélin sjálf sé breytt dísilvél sem einnig geti brennt olíu og þannig megi nýta hana sem varaaflsstöð þegar eftirspurnin eftir metangasinu verði orðin það mikil að það fari allt til annarrar notkunar. Framtíðarhugmyndin sé einmitt að nýta gasið af haugunum í annað en raforkuframleiðslu eins og t.d. til að knýja bíla.

Dýrara en hefðbundin orkuframleiðsla

Hann segir rafmagnið koma nú til viðbótar við það rafmagn sem nýtt er í húsunum í borginni. "Það er bara keyrt beint inn á borgarkerfið. Þannig er einhver hluti af rafmagninu í perunni hjá þér er úr þessari vél."

Fram kom við opnunina að nokkuð dýrara er að framleiða rafmagn með metangasi en með hefðbundnum hætti. "Ætli það sé ekki tvöfalt dýrara en í hefðbundnum virkjunum," segir Guðmundur. "Á hinn bóginn notum við þetta sem toppafl, sem við keyrum ekki allt árið heldur notum þegar mesta eftirspurnin er eftir rafmagni. Það er verðmeira rafmagn. Svo er stofnkostnaðurinn við svona stöð lægri en við hefðbundna virkjun þannig að þetta hentar vel fyrir toppafl."

Sem fyrr segir var opnun stöðvarinnar síðasta verk Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í embætti borgarstjóra. Sagði hún mikið framfaraspor að geta nýtt urðaðan úrgang til raforkuframleiðslu með þessum hætti. Af þessu tilefni benti hún á að að það væri mikil tilviljun að eitt af hennar fyrstu embættisverkum í starfi borgarstjóra hefði verið að ræsa nýju aðveitustöðina inni í Elliðaárdal fyrir Orkuveituna.