"Ég lýsi því hér með yfir að stefna beri að framboði Reykjavíkurlista á ný í næstu kosningum."

Á MÁNUDAG gengur nýr maður í Ráðhúsið sem borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún hefur kvatt. Það er til staðfestingar um hve stjórnmálin geta verið sviptingasöm að sú staða er nú komin upp sem fáa óraði fyrir síðasta haust. Og það er einnig til staðfestingar um hve stjórnmálin geta verið óútreiknanleg að nú virðist allt mögulegt í landsmálakosningunum í vor. Almenningi er það fagnaðarefni að Sólrún skuli nú bjóða sig fram til að taka við stjórn landsins en hennar er líka saknað.

En hvað með borgina?

Við sem notið höfum forystu Ingibjargar í borginni þurfum nú að axla aukna ábyrð. Stærð hennar sem stjórnmálamanns er slík að skarðið sem hún skilur eftir verður vandfyllt. Verkefni okkar sem stýrum borginni má skilgreina í nokkrum liðum:

Samheldni: Allt frá upphafi Reykjavíkurlistans hafa andstæðingarnarnir alið á glundroðakenningunni. Fyrst voru þeir sannfærðir um að við héldum aldrei út. ('94-98) Svo reyndu þeir að sannfæra okkur um að öllum væri fyrir bestu að slíta samstarfinu. ('98-2002). Nú segja þeir að ,,grundvöllurinn" sé brostinn. (2003). Við þessu segi ég: Veldur hver á heldur. Sjálfstæðismenn ráða engu um samheldni og ábyrgðartilfinningu okkar sem skipum Reykjavíkurlistann. Bandalag okkar heldur. Við eigum ekkert undir öðrum, allt undir vilja okkar sjálfra.

Forysta: Engum blandast hugur um að Ingibjörg Sólrún hefur verið foringi Reykavíkurlistans. Verður hann nú höfuðlaus her? Vissulega er hætta á því. Sú hætta er þó þeim mun minni sem við erum meðvitaðri um hana. Í fyrsta lagi er einhugur um að bjóða Þórólf Árnason velkominn og að hann verði ,,alvöru" borgarstjóri. Hann veit hvað er að vinna sem framkvæmdastjóri undir stjórn. Við vitum hve mikilvægt er að borgarbúar skynji sterka nærveru borgarstjóra sem vit hefur á málum, hæfni til að leiða verkefni til lykta og útsjónarsemi við erfiðar aðstæður. Þórólfur hefur allt til að bera. Ég hef þá trú að hann verði góður borgarstjóri og Reykjavíkurlistamaður. Ég var sjálfur Reykjavíkurlistamaður í sex ár áður en ég gekk í stjórnmálaflokk. Margir fleiri upplifa sig á sama hátt gagnvart Reykjavíkurlistanum. Hann hefur alltaf verið stærra afl en þversumman af þeim hlutum sem hann er samsettur úr. Við vitum að góður árangur Þórólfs í starfi er ávinningur okkar allra og þess vegna mun hann fá stuðning til forystu.

Styrk stjórn borgarinnar: Samheldni og styrk forysta eru ekki verkefni í sjálfu sér, heldur forsenda þess að við stýrum borginni áfram farsællega. Þeir erfiðleikar sem við gengum í gegnum undir lok síðasta árs komu ekki til vegna málefnaágreinings. Reykjvíkurlistinn hefur farið í þrennar kosningar og er af reynslu ríkur. Málefnavinnan fyrir síðasta vor var traust. Við byggjum á reynslu og stefnu og erum samstíga um þau málefni sem einkennt hafa stjórn borgarinnar. Samstarf okkar innan listans, sem skipaður er bæði gamalreyndum og nýjum borgarfulltrúm, hefur verið gott. Þess vegna trúi ég því að við getum skilað árangri á þessu kjörtímabili.

Framtíðarsýn: áfram Reykjavíkurlisti

Ég tel mikilvægt fyrir Reykjavíkurlistann á þessum tímamótum að horfa til framtíðar. Ég lýsi því hér með yfir að stefna beri að framboði Reykjavíkurlista á ný í næstu kosningum. Það framboð verður að byggjast á starfi okkar á næstunni. Að þessu vil ég vinna. Að við getum boðið fram á ný, stolt, vegna árangurs sem við höfum náð. Ekki vegna hræðslu við andstæðinginn eða ótta við tap. Heldur vegna þess að nærfellt níu ára valdaferill Reykjavíkurlistans sýnir að erindi okkar er brýnt og því verður ekki lokið frekar en stjórnmál taki enda.

Að endurskapa Reykjavíkurlistann

Þegar Ingibjörg Sólrún heldur á nýjan vettvang skapast tækifæri í borginni til að endurskapa Reykjavíkurlistann, hleypa í hann nýjum krafti og sanna það sem við höfum alltaf sagt: Ingibjörg Sólrún er góður borgarstjóri, en hún er ekki Reykjavíkurlistinn. Sönnun þess með góðum verkum á næstu árum og sigri í kosningum 2006 er það sem við eigum að stefna ótrauð að. Við alla Reykjavíkurlistamenn vil ég segja í dag: Þetta er undir okkur sjálfum komið.

Eftir Stefán Jón Hafstein

Höfundur er borgarfulltrúi R-listans.