KVENFÉLAGIÐ Sif á Patreksfirði hélt á dögunum sitt 54. þorrablót. Það voru um 310 manns sem sóttu blótið að þessu sinni. Um kl. 12 deginum áður var fólk farið að bíða eftir að miðasalan yrði opnuð, en hún var ekki opnuð fyrr en kl 20.

KVENFÉLAGIÐ Sif á Patreksfirði hélt á dögunum sitt 54. þorrablót. Það voru um 310 manns sem sóttu blótið að þessu sinni. Um kl. 12 deginum áður var fólk farið að bíða eftir að miðasalan yrði opnuð, en hún var ekki opnuð fyrr en kl 20. Einhver hafði á orði að þetta hefði verið eins og bomsubiðröð á stríðsárunum, eða eins og stórútsala er í dag. Maturinn var mjög góður hjá þeim kvenfélagskonum og ekki voru skemmtiatriðin af verri endanum. Þær hreinlega fóru á kostum. Þema kvöldsins var sala á þorpinu, sem endaði að sjálfsögðu í höndum kvenfélagskvenna, enda yrði þorpinu trúleg vel stjórnað af þeim, eins og öðru því sem þær taka sér fyrir hendur. Mest allt skemmtiefnið var sungið við undirleik tveggja manna, þeirra Eggerts Björnssonar og Gests Rafnssonar, og stóðu þeir sig með prýði. Textann höfðu þær samið sjálfar. Þarna mættu nokkrar konur í upphlut og nokkrir karlmenn í íslenska þjóðbúningnum. Þarna mátti líka sjá færeyska þjóðbúninginn ásamt tveim herrum í skoskum búningi. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu glæsilegir þeir voru og hve mikla lukku þeir gerðu. Og að sjálfsögðu vöknuðu upp spurningar um innri klæðnað. Að loknum skemmtiatriðum og borðhaldi var dansað fram eftir nóttu. Það var svo hljómsveitin Baldur og Margrét sem sáu um að halda fjörinu uppi. Að allra áliti voru þau mögnuð, þau spiluðu hreinlega allan tímann og sáu um að músíkin hæfði öllum.