"Það er von mín að þessi vinna verði til þess að auka þekkingu almennings á hálendi Íslands..."

SÚ ákvörðun samvinnunefndar miðhálendis að endurskoða svæðisskipulagið hefur vakið nokkra athygli. Vegna harkalegra ummæla á Alþingi um aðalskipulagstillögur Rangárþings ytra og fullyrðingar fréttastofu útvarps um að samvinnunefndin sé eingöngu að endurskoða skipulagið til þess að virkja í friðlandinu að fjallabaki, þá vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Samvinnunefnd miðhálendis er skipulagsnefnd fyrir miðhálendi Íslands, skipuð til fjögurra ára í senn. Það er hlutverk nefndarinnar, samkvæmt lögum, að meta það eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar hvort nauðsynlegt sé að endurskoða svæðisskipulagið. Það sem nefndin lagði til grundvallar ákvörðun sinni um endurskoðun á skipulaginu er m.a. ný vegaáætlun, rammaáætlun um nýtingu orku, aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaga sem ekki samrýmast stefnumörkun í núverandi skipulagi og nauðsyn þess að stýra umferð með skipulagðari hætti heldur en gert hefur verið. Við endurskoðun á svæðisskipulagi eins og þessu er haft samráð við fjölda aðila eins og þeir þekkja sem komið hafa að skipulagsmálum. Það er von mín að þessi vinna verði til þess að auka þekkingu almennings á hálendi Íslands og skapa meiri sátt um nýtingu þess en verið hefur fram að þessu.

Eftir Óskar Bergsson

Höfundur er formaður samvinnunefndar miðhálendis.

Höf.: Óskar Bergsson