"Rannsóknir hafa sýnt að vaxtarhraði, nýting ætis og kynþroskaaldur eru afgerandi atriði varðandi viðgang fiska og þau erfast."

FISKIFRÆÐINGARNIR Björn Ævar Steinarsson (BÆ) og Ólafur Karvel Pálsson (ÓK) skrifuðu greinar í Mbl. 19. og 28. des. sl.: "Um fiskifræði alþingismanns" í kjölfar gagnrýni Einars Odds Kristjánssonar (EO) í Mbl. 11.12. sl.: "Erum við að úrkynja þorskstofninn?". EO gagnrýndi aðallega tvö atriði í stefnu Hafró. Í fyrsta lagi að árlegur náttúrulegur dauði geti verið miklu meiri en 18% varðandi ungfisk. Í öðru lagi að tölfræðilega sönnun vanti um að stór hrygningarstofn sé líklegur til að gefa góða nýliðun. Hann kvað vísbendingar vera um að sambandið sé öfugt; stór stofn gefi af sér litla nýliðun. Sú stefna að friða smáfisk og beina sókn í eldri fisk beri í sér feigðina; verið sé að skemma stofninn eða "kryppla" hann. Þeir BÆ og ÓK gáfu sínar skýringar á því af hverju þorskstofninn sé nú svo ungur, aðallega 5 ára og yngri, og sögðu EO misskilja niðurstöður Jóns Jónssonar fiskifr. um meðalfjölda hrygninga hverrar hrygnu, en þær sýni að þorskur hafi hrygnt allt að 8-9 sinnum "þegar sókn var lítil".

Rangvæningar og svaraskortur

Höfundur (höf.) skrifaði athugasemdir í Mbl. 17.1. við skrif BÆ og ÓK: "Með staðreyndir að vopni." Í henni fór höf. lauslega yfir fyrri hluta síðustu aldar þar sem svo virðist á köflum sem samband á milli stofnstærða og nýliðunar sé öfugt; á seinni hluta aldarinnar er sambandið óljóst; þó má sjá einar 4-5 lotur í vaxtarhraða árganga, en þær hafa ekki verið skýrðar. Einnig vitnaði höf. í niðurstöður rannsókna á 20 þorskstofnum í Norður Atlantshafi og sagði að umrætt samband hefði verið lítið sem ekkert. Þeir BÆ og ÓK rita síðan aftur í Mbl. 23.1. ("Að veifa röngu tré?") til að svara höf. og eru enn við sama heygarðshornið. Þeir væna höf. um þann hroka í skrifum sínum 17.1. að ætla sér sjálfum sannleikann og að leiða þjóðina í réttan sannleika. Nóg er um fræðileg álitaefni í málefnum þorsksins og með öllu er óþarft, til tjóns og leiðinda, að reyna að setja mál í búning hanaslags fyrir augum fólks. Af nógu er að taka enda málið mikilvægt; til vandræða er að vera með stráksskap. Höf. vitnaði í grein eftir R.A. Myers, J.A. Hutchings & N.J. Barrowman frá 1996: "Hypothesis (kenning) for the decline of cod in the North Atlantic." Mar. Ec. Progr. Ser., Vol.138: 293-308. Fjallað er um hrun þorsks í Norður Atlantshafi. Í yfirliti stendur m.a. (þýðing höf.): "Við rannsökuðum mismunandi tilgátur um hrun 20 þorskstofna í Norður Atlantshafi. Ár minnstu lífmassa hrygningarstofna samsvöruðu ekki lítilli nýliðun viðk. árganga" - og ennfremur: "Hruni þorskstofnanna (collapse) olli ekki skortur á sveigjanleika (resilience) þegar hrygningarstofnar voru litlir, því þeir náðu þá að koma frá sér mörgum nýliðaefnum." Hugtakið sveigjanleiki um þorsk er merkilegt og krefst ítarlegrar umfjöllunar síðar.

Þeir BÆ og ÓK vitna síðan í greinina: "Er nýliðun tengd stærð hrygningarstofns?" eftir 2 af ofangreindum 3ur höfundum (R.A.M & N.J.B.) í tilvitnun höf. að framan, en sú yfirlitsgrein er frá sama tíma (1996. Fish. Bull. 94: 707-724), en þar er fjallað um 364 fiskstofna af öllu tagi, en höfundarnir segja: "að ekki megi virða að vettugi (ignore) stærð hrygningarstofna." Auðvitað þarf hrygningarstofn til að nýliðun verði, en það er til skaða að flækja málin með því að toga umræðuna yfir í 364 stofna þegar öllu skiptir að ræða um þorsk við Ísland. Það er augljóst að þeir BÆ og ÓK hafa ekki lesið þá skýrslu sem höf. vitnaði í, en þeim er eindregið ráðlagt að skoða þar myndir um nýliðun íslenska þorsksins. Orðið tilhneiging, sem þeir nota í fleirtölu um samband á milli hrygningarstofna og nýliðunar í grein sinni, er allt of veikur grunnur til að byggja nýtingarstefnu og rannsóknir á. Þeir hafa kosið að ganga fram hjá tíu mikilvægum álitaefnum í greinum höf. og EO og velja þess í stað að vera með rangar væningar.

Út úr skápnum

Í tilv. grein þeirra félaga kemur fram að þeir telja "vísbendingar um að óhóflegar veiðar á hrygningarfiski geti leitt til neikvæðra áhrifa ("erfðafræðilegra") á líffræðilega þætti stofnsins. Bragð er að þá barnið finnur! Það virðist loksins runnið upp fyrir BÆ og ÓK að erfðaeiginleikar þorsks eru mjög mikilvægir og eru sennilega aðalvaldur þess, að stofninn hefur verið á niðurleið undanfarna áratugi. Rannsóknir hafa sýnt að vaxtarhraði, nýting ætis og kynþroskaaldur eru afgerandi atriði varðandi viðgang fiska og þau erfast. Þótt óráðlegt sé að taka áhættu með "hrygningarstofn", þá er nauðsynlegt að vernda hvern þeirra sérstaklega. Á meðan "framlag" hvers undirstofns (ca.15-20 eru við landið) er ekki þekkt og að eiginleikar þeirra eru heldur ekki þekktir, felst mótsögn í því að rembast við að halda "einum stofni" í 300-400 þ.t. til að minnka áhættu. Þess vegna verður að tryggja hvern stofn fyrir sig með veiðistjórnun, sem hefur áhrif á eiginleika hrygningarfisks og nýliða á hverju svæði með réttu vali á veiðarfærum, friðaraðgerðum og tímasetningum veiða. Minni áhætta getur falist í þeirri leið með verndun 100 þ.t. samtals og beitingu "vísindaveiða".

Eftir Jónas Bjarnason

Höfundur er efnaverkfræðingur.

Höf.: Jónas Bjarnason