ÍSLENSK erfðagreining og Vertex Pharmaceuticals hafa undirritað samning um rannsóknir í lyfjaerfðafræði samhliða klínískum lyfjaprófunum.

ÍSLENSK erfðagreining og Vertex Pharmaceuticals hafa undirritað samning um rannsóknir í lyfjaerfðafræði samhliða klínískum lyfjaprófunum. Dótturfyrirtæki ÍE, Íslenskar lyfjarannsóknir, mun gera klínískar prófanir á lyfjum sem eru í þróun hjá Vertex og ÍE mun safna og greina lyfjaerfðafræðilegar upplýsingar. Í sameiginlegri tilkynningu frá fyrirtækjunum segir að fyrsta verkefnið verði rannsóknir á öðrum fasa klínískra lyfjarannsókna á lyfinu VX-148 gegn psóríasis og að skráning þátttakenda sé þegar hafin.

Vertex Pharmaceuticals, sem var stofnað árið 1989, er bandarískt fyrirtæki á sviði líftækni, sem leitast við að uppgötva, þróa og markaðssetja lyf, sjálft eða í samstarfi við aðra, að því er fram kemur í nýlegri fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.Vertex beitir genatækni við rannsóknir sínar og er með yfir 12 lyf í þróun. Fyrsta samþykkta lyf fyrirtækisins er vegna HIV-veirunnar og er sett á markað í samstarfi við lyfjarisann GlaxoSmithKline. Líkt og deCODE, móðurfyrirtæki ÍE, er Vertex skráð á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn. Markaðsverð þess er rúmir áttatíu milljarðar króna, en markaðsverð deCODE er um níu milljarðar króna.

Vertex vonast eftir víðtækara samstarfi

Í hinni sameiginlegu tilkynningu Vertex og ÍE segir að möguleikar ÍE í lyfjaerfðafræði muni gera Vertex kleift að greina niðurstöður lyfjaprófana í tengslum við erfðaþætti sem hafi áhrif á svörun sjúklinga við lyfjameðferð. Niðurstöður slíkra rannsókna geti verið mikilvægar, bæði fyrir skipulagningu frekari lyfjaprófana og við þróun lyfjaerfðafræðilegra greiningarprófa. Ef rannsóknirnar sem samningurinn nái til skili markverðum niðurstöðum sé mögulegt að fyrirtækin muni auka við samstarfið og vinna saman að þróun og markaðssetningu slíkra lyfjaerfðafræðilegra greiningarprófa.

Í tilkynningunni er haft eftir John J. Alam, framkvæmdastjóra lyfjaprófana hjá Vertex, að fyrirtækið voni að þessi rannsókn marki upphafið að víðtæku samstarfi við ÍE.

Ekki verður greint frá fjárhagshlið samningsins milli ÍE og Vertex.