Ólafur Stefánsson var ekki tekinn neinum vettlingatökum þegar Íslendingar léku síðast gegn Rússum - á heimsbikarmótinu í Borlänge í Svíþjóð, þar sem Rússar unnu 39:28. Það eru þeir Viatcheslav Gorpichine og Igor Lavrov sem taka hann föstum tökum.
Ólafur Stefánsson var ekki tekinn neinum vettlingatökum þegar Íslendingar léku síðast gegn Rússum - á heimsbikarmótinu í Borlänge í Svíþjóð, þar sem Rússar unnu 39:28. Það eru þeir Viatcheslav Gorpichine og Igor Lavrov sem taka hann föstum tökum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞEGAR Rússar steinlágu fyrir Frökkum, 31:15, í síðustu umferð undanriðlanna á HM í Portúgal, voru ekki margir sem spáðu þeim frekari frama í þessari heimsmeistarakeppni. Áður höfðu þeir naumlega náð jafntefli gegn Argentínu og voru ekki taldir líklegir til að ógna Króötum og Dönum í milliriðlinum. Talað var um að rússneski björninn væri orðinn gamall og illa tenntur.

Danir virtust trúa því að þeir ættu auðveldan leik fyrir höndum í fyrri umferð milliriðlanna á miðvikudaginn. Þeir töluðu digurbarkalega um hvernig nútíminn myndi ryðja gömlu mönnunum úr vegi sínum. En hástemmdar yfirlýsingar komu þeim í koll, særður björn er ávallt hættulegur eins og þeir fengu að kynnast. Rússar tóku þá í kennslustund í síðari hálfleik og unnu sjö marka sigur, 35:28. Þar með var fótunum kippt undan danska "gullæðinu". Rússar fylgdu þessu eftir með öruggum sigri á Egyptum, 29:22, og eru eins og venjulega í hópi átta efstu þjóðanna.

Frá árinu 1993, þegar Rússar kepptu fyrst undir sínu nafni, hafa þeir aldrei hafnað neðar en í sjötta sæti á stórmóti. Takist íslenska liðinu að sigra þá í dag, leika þeir um 7.-8. sætið á morgun og útkoman verður þá sú slakasta í þeirra sögu. Sjötta sætið á HM í Frakklandi 2001 er það neðsta sem þeir hafa farið. Rússar urðu heimsmeistarar 1993 og 1997, Evrópumeistarar 1996 og Ólympíumeistarar 2000. Í þeirra liði eru menn sem hafa kynnst þessu öllu, engir þó þekktari en markvörðurinn fertugi, Andrei Lavrov, og örvhenta skyttan Alexandre Touchkin, 38 ára, sem vaknaði af værum blundi í milliriðlinum. Touchkin, sem nú leikur í Grikklandi, skoraði aðeins 6 mörk í fimm leikjum Rússa í undanriðlinum og virtist útbrunninn. Danir fengu hins vegar að kynnast skothörku hans, Touchkin skoraði 10 mörk gegn þeim, öll utan af velli, og hann bætti við 5 mörkum gegn Egyptum.

Annars hafa þeir Alexei Rastvortsev og Eduard Kokcharov verið atkvæðamestu leikmenn Rússa á HM. Þeir eru tveir af yngri leikmönnunum í hópnum. Rastvortsev, tveggja metra skytta sem leikur með Energia í Rússlandi, er 24 ára og hornamaðurinn Kokcharov, sem leikur með Celje Lasko í Slóveníu, er 27 ára. Hornamaðurinn Denis Krivoshlykov, sem leikur með Ademar Leon á Spáni, er einnig drjúgur, sem og línumaðurinn Dmitri Torgovanov sem leikur með þeim Patreki Jóhannessyni og Guðjóni Val Sigurðssyni með Essen í Þýskalandi. Íslendingar kannast vel við hinn línumanninn, Eduard Moskalenko frá Chambéry í Frakklandi en hann lék um tíma með Stjörnunni. Þá er Igor Lavrov, félagi Einars Arnar Jónssonar hjá Wallau-Massenheim, í liði Rússa en hann hefur ekki komið mikið við sögu vegna meiðsla. Yngstu leikmennirnir í liðinu koma flestir frá Chekhovski í Moskvu og af þeim hefur Vitaly Ivanov komið mest við sögu.

Þjálfari Rússa er hinn reyndi og skapmikli Vladimir Maximov.