Dr. Hassan Moustafa, forseti IHF.
Dr. Hassan Moustafa, forseti IHF.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HASSAN Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, hefur setið undir harðri gagnrýni frá Þjóðverjum, eftir að Túnis hafði betur í kapphlaupi við þá um að halda heimsmeistaramótið í handknattleik árið 2005 á þingi IHF í Sankti Pétursborg í...

HASSAN Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, hefur setið undir harðri gagnrýni frá Þjóðverjum, eftir að Túnis hafði betur í kapphlaupi við þá um að halda heimsmeistaramótið í handknattleik árið 2005 á þingi IHF í Sankti Pétursborg í nóvember. Í viðtali við Jyllands-Posten á dögunum vísar Moustafa gagnrýni á sig á bug og segir að Evrópuþjóðirnar geti sjálfum sér um kennt. Fyrst og fremst hafi skort á samstöðu Evrópuþjóðanna sjálfra um umsókn Þjóðverja. Það sé ekkert upp á sig að klaga í því máli, hann hafi ekki haft atkvæðisrétt.

Moustafa segir ennfremur að hann hafi reynt að miðla málum áður en að uppgjöri Túnis og Þýskalands kom og m.a. boðið Túnis að hann skyldi vinna fylgi þeirri tillögu að þeir héldu HM 2007 ef Þjóðverjar yrðu einir í kjöri vegna HM 2005. Það hafi Túnisbúar ekki verið reiðubúnir að samþykkja og því hafi ekki verið um annað að ræða en láta þingfulltrúa ganga til atkvæða um hvor þjóðin skyldi halda HM 2005. "Túnis hafði betur í leynilegri atkvæðagreiðslu, 46:44. Það má öllum vera ljóst að hefði ég haft horn í síðu Þjóðverja þá hefði ég aldrei borið þessa tillögu upp við Túnisbúa," segir Moustafa, sem er 58 ára gamall Egypti og þrautreyndur handknattleiksmaður og þjálfari á árum áður. Hann var m.a. í tíu ár í landsliði Egypta og landsliðsþjálfari í annan eins tíma, alþjóðlegur handknattleiksdómari og í ofanálag með doktorsgráðu í handknattleik frá egypskum íþróttaháskóla auk þess að hafa ritað bækur um þjálfun markvarða.

Moustafa var kjörnn forseti IHF fyrir tæpum þremur árum eftir að hafa áður setið í stjórn í átta ár. "Ég er fyrst og síðast handknattleiksmaður og mitt hlutverk er að breiða út handknattleikinn, tryggja honum fótfestu í fleiri löndum og gera hann að vinsælli íþrótt sem víðast heiminum. Í þeim efnum eigum við hjá IHF mikið verk fyrir höndum," segir Moustafa.

Á fyrrgreindu þingi IHF í nóvember lagði Moustafa fram tillögu þess efnis að stað þess að þingfulltrúar greiði atkvæði á milli þeirra þjóða sem sækja um HM hverju sinni þá yrði það í höndum fimm manna nefndar IHF að fara yfir umsóknirnar og ákveða leikstað. Nefndin verði skipuð forsetum álfusambandanna og hún skyldi heimsækja umsóknarþjóðir og skoðar allar aðstæður ofan í kjölinn. Nefndin færi af stað með ákveðinn lista yfir atriði sem umsónarþjóðir yrðu að uppfylla. Með þessu væri hægt að koma í veg fyrir að þjóðir sem ekki hafi burði til þess að halda HM hrepptu hnossið. Að athugun lokinni tæki nefndin ákvörðun um hvaða land héldi mótið hverju sinni. "Þessi tillaga fékk ekki hljómgrunn og var það fyrst og fremst Evrópuþjóðirnar sem voru andsnúnar þessari breytingu," segir Moustafa.

Eftir tapið á þingi IHF í nóvember hefur formaður þýska handknattleikssambandsins, Ulrich Strombach, hótað að bjóða sig fram gegn Moustafa næst þegar forsetakjör verður hjá IHF, á þinginu 2004.

Moustafa segist engar athugasemdir gera við það þótt einhverjir vilji bjóða sig fram til forseta gegn honum. "IHF eru lýðræðisleg samtök þar sem fulltrúar allra aðildarríkja velja forseta í leynilegri kosningu. Vilji menn bjóða sig fram gegn sitjandi forseta þá er það án athugasemda af minni hálfu," segir Moustafa og bætir við: "Menn verða að gera sér grein fyrir að IHF eru alþjóðasamtök handknattleiksmanna og forseti IHF er ekki aðeins formaður evrópskra handknattleiksmanna heldur allra handknattleiksmanna í heiminum. Handknattleikssamband Evrópu er allt annað mál og nærri stjórnun þess kem ég ekki og því geta menn ekki litið á mig sem sérstakan formann fyrir Evrópu. Okkar hlutverk hjá IHF er að færa út kvíar handknattleiksins í öllum heiminum, ekki bara í Evrópu," segir Moustafa en þess má geta að Þjóðverjar stóðu fast við bakið á honum í forsetakjörinu árið 2000. Nú hafa þeir snúið við honum bakinu og hafa allt á hornum sér. "Því miður þá kunna Þjóðverjar ekki að tapa og í stað þess að athuga af hverju þeir töpuðu þá hafa þeir kosið að skella skuldinni á mig og þar með að hengja bakara fyrir smið. Ég ber mikla virðingu fyrir þýsku þjóðinni og þeim föstu rótum sem handknattleikur á í landinu, en víst er að framkoma þeirra í minn garð frá því á þinginu er ekki sanngjörn," segir Hassan Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins.