Bjarni Már Valdimarsson
Bjarni Már Valdimarsson
ÍÞRÓTTA- og æskulýðsnefnd sveitarfélagsins Ölfuss veitti íþróttafólki, sem skarað hefur fram úr, viðurkenningar.

ÍÞRÓTTA- og æskulýðsnefnd sveitarfélagsins Ölfuss veitti íþróttafólki, sem skarað hefur fram úr, viðurkenningar. Athöfnin var haldin í Versölum, í Ráðhúsi sveitarfélagsins, og hlaut Bjarni Már Valdimarsson knattspyrnumaður viðurkenninguna íþróttamaður Ölfuss 2002.

Hólmar Sigþórsson, formaður íþrótta- og æskulýðsnefndar, sagði um Bjarna Má þegar hann veitti honum viðurkenninguna: "Bjarni Már er gæddur miklum hæfileikum sem knattspyrnumaður. Hann hefur verið lykilmaður í sínum flokki undanfarin ár hjá knattspyrnufélaginu Ægi. Framfarir hans hafa verið miklar á síðustu árum og hefur hann verið valinn í unglingalandslið Íslands 17 ára og yngri sem sýnir að hann er einn af betri knattspyrnumönnum landsins í sínum aldursflokki. Bjarni er drengur góður og hefur verið yngri knattspyrnumönnum góð fyrirmynd."

Aðrir sem hlutu viðurkenningu voru: Elísabet Ásta Bjarkadóttir fyrir frjálsíþróttir, Finnur Andrésson fyrir körfuknattleik, Júlíana Ármannsdóttir fyrir fimleika, Karen Ýr Sæmundsdóttir fyrir badminton, Gunnar Halldórsson fyrir golf, Þráinn Sigurðsson fyrir hestamennsku og Haraldur Pétursson fyrir akstursíþróttir.