TÆPLEGA þrítugur danskur maður var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 12 mánaða fangelsi fyrir að flytja fimm kíló af hassi til landsins 18. desember sl.

TÆPLEGA þrítugur danskur maður var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 12 mánaða fangelsi fyrir að flytja fimm kíló af hassi til landsins 18. desember sl. Hassið var falið í fóðri ferðatösku en maðurinn kvaðst hafa haldið að aðeins væru 1-2 kíló af hassi í töskunni. Dómarinn skoðaði töskuna og taldi að maðurinn hefði mátt gera sér grein fyrir að í henni væri meira af hassi. Yrði hann að bera hallann af því að láta "sér magnið í léttu rúmi liggja" eins og segir í dómnum.

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli stöðvaði manninn við komuna til landsins frá Kaupmannahöfn. Veittu tollverðir athygli að þegar búið var að tæma ferðatösku hans vó taskan rúmlega 11 kíló en full vó hún 20 kíló. Þegar klæðning var fjarlægð úr botni og loki töskunnar kom hassið í ljós. Maðurinn, sem ekki hefur áður verið dæmdur vegna fíkniefnabrota, sagði svo frá að hann hefði tveimur mánuðum áður hitt danskan mann í Kaupmannahöfn sem hefði spurt hann hvort hann vildi flytja inn efni til Íslands. Hann hefði fallist á þetta enda fjárþurfi. Hann hefði síðan fengið töskuna afhenta og samið um að hann fengi 10.000 danskar krónur fyrir flutninginn sem áttu að greiðast við afhendingu efnisins. Einhver myndi síðan hafa samband við sig á Íslandi. Maðurinn gaf ekki frekari upplýsingar um þann sem fékk hann til fararinnar og bar fyrir sig ótta við hefndaraðgerðir. Maðurinn sagði að taskan hefði verið tóm þegar hann fékk hana afhenta, utan við það að hann hefði gert sér grein fyrir að hún innihélt kannabisefni. Í niðurstöðu dómsins segir að maðurinn hefði enga ástæðu séð til að kanna hversu mikið magn taskan innihélt né hvort um hass væri að ræða. Dómarinn hefði skoðað umrædda tösku og vegið hana og metið, með og án þyngdar sem svarar til hassins. Var það mat hans að maðurinn hefði mátt gera sér grein fyrir að hún innihélt meira en 1-2 kíló af hassi. Var hann því sakfelldur fyrir innflutning á fimm kílóum.

Hjörtur O. Aðalsteinsson kvað upp dóminn. Brynjar Níelsson hrl. var skipaður verjandi en Sigurður Gísli Gíslason sótti málið f.h. lögreglustjórans í Reykjavík.