Ingimar Waage við verk sín í Galleríi Skugga.
Ingimar Waage við verk sín í Galleríi Skugga.
INGIMAR Waage opnar sýningu á málverkum í Galleríi Skugga, Hverfisgötu 39, í dag, laugardag, kl. 16. Viðfangsefni Ingimars er landslagsmálverkið og sú hefð sem ríkir á því sviði. Hann sækir efnivið sinn í fjallaferðir um öræfi og hálendi Íslands.

INGIMAR Waage opnar sýningu á málverkum í Galleríi Skugga, Hverfisgötu 39, í dag, laugardag, kl. 16.

Viðfangsefni Ingimars er landslagsmálverkið og sú hefð sem ríkir á því sviði. Hann sækir efnivið sinn í fjallaferðir um öræfi og hálendi Íslands. Birtan er honum sérlega hugleikin og teflir hann saman hinni tæru og léttu birtu og þunga og formstyrk fjallanna. Ingimar skoðar hið íslenska landslag og setur það í samhengi við rómantískt landslagsmálverk í Evrópu á fyrri hluta 19. aldar og við upphaf 20. aldarinnar á Íslandi.

Á vefsíðu Ingimars, www.simnet.is/iwam, má lesa m.a.: Frá örófi alda hefur líf Íslendinga verið samtvinnað harðneskjulegri náttúru landsins. Verkin mín draga dám af áhuga mínum á því og ekki síst þeirri auðn sem ræður ríkjum á hálendinu. Ég hef áhuga á því hvernig hálendið kom mönnum fyrir sjónir fyrr á tímum þegar útilegumenn bjuggu í afdölum, vötnin voru dýpri og full af skrímslum, fjöllin voru hærri og brattari og Hekla sjálf inngangur vítis.

Á hverju sumri þvælist ég, nútímamaðurinn, um þessa afdali uppfræddur af visku dagsins í dag og kemst að því að í vötnunum þrífast hvorki loðsilungar né öfuguggar og Hekla er bara venjulegt, virðulegt eldfjall. Samt býr þetta landslag yfir töframætti og dulúð þó vísindin hafi kennt okkur sitthvað um eðli náttúrunnar. Eftir stendur glíma einstaklingsins við náttúruöflin þar sem maðurinn einn má sín lítils."

Sýningin er opin alla daga nema mánudaga kl. 13-17 og lýkur sunnudaginn 16. febrúar.