Leikföng í súkkulaðieggjum hafa valdið alvarlegum slysum. Nú vilja Norðmenn beita sér fyrir sölubanni á Kindereggjum.
Leikföng í súkkulaðieggjum hafa valdið alvarlegum slysum. Nú vilja Norðmenn beita sér fyrir sölubanni á Kindereggjum.
HÆTTAN af fylltum súkkulaðieggjum með smádóti innan í, svokölluðum Kindereggjum, er í brennidepli af og til.

HÆTTAN af fylltum súkkulaðieggjum með smádóti innan í, svokölluðum Kindereggjum, er í brennidepli af og til. Norska dagblaðið Aftenposten greindi frá því í vikunni að Norðmenn vilji beita sér fyrir banni á sölu Kindereggja, en þeir eiga sæti í norrænum vöruöryggishópi. Næsti fundur hópsins er fyrirhugaður í mars og munu Norðmenn taka málið upp þar, að sögn blaðsins.

Fram kemur að dauðsföll hafi orðið í nokkrum löndum af völdum Kindereggja því ungum börnum sé hætt við köfnun af völdum smádótsins sem fylgir eggjunum.

"Samkvæmt þýskri rannsókn sem gerð var opinber árið 1998 höfðu 35 börn þá látið lífið af völdum Kindereggja. Færri dauðsföll hafa orðið af þeirra völdum í öðrum Evrópulöndum en fjöldi tilkynninga hefur hins vegar borist um börn sem legið hefur við köfnun. Fjölmörgum sænskum börnum hefur til að mynda verið bjargað á síðustu stundu á undanförnum árum.

Fyrirtækið sem dreifir Kindereggjum í Noregi hefur sagt sér til varnar að þau séu ekki ætluð ungum börnum og að á umbúðum standi að eggin henti ekki yngri en þriggja ára," segir Aftenposten.

Leikföngin í lokuðu plasthylki

Sala Kindereggja er bönnuð í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu.

Ísland á sæti í vöruöryggishópnum sem fyrr er getið og gegnir formennsku. Formaður er Fjóla Guðjónsdóttir deildarstjóri markaðsgæsludeildar Löggildingarstofu og segir hún að fjöldi þjóða innan ESB hafi viljað banna eggin. Samkomulag um það hafi hins vegar ekki enn náðst.

"Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið hægt að banna vöruna er sú að leikföngin eru í plasthylki inni í egginu sem er þannig hannað að börn, sérstaklega ung börn, geta ekki opnað það án aðstoðar fullorðinna.

Öllum formkröfum um öryggi er því fullnægt. Ennfremur eru merkingar í lagi, þótt þær séu reyndar ekki á íslensku á okkar markaði. Samt sem áður er ekki hægt að líta framhjá því að þegar búið er að opna plasthylkið eru eftir smáhlutir sem börn geta gleypt. Markaðsgæsludeild hefur áður bent á nauðsyn þess að settar verði skýrar reglur um leikföng og smáhluti sem fylgja matvælum. Sú umræða einskorðast ekki við Kindereggin heldur öll leikföng (eða smáhluti) sem fylgja matvælum, svo sem morgunkorni, sælgæti eða ís," segir Fjóla.

Á árunum 1998-99 komu 28 börn á Slysadeild Landspítalans í Fossvogi vegna aðskotahlutar í hálsi, en vitað er að mun fleiri börn hafa orðið fyrir samskonar slysum hér á landi. Herdís Storgaard, framkvæmdastjóri Árvekni, segir ekkert barn hafa látist hérlendis vegna köfnunar af völdum aðskotahlutar í hálsi frá því árið 1990.

"Hins vegar finnast of mörg tilvik hér á landi þar sem börnum hefur legið við köfnun. Mörgum matvælum fylgir alls kyns smádót. Einni tegund íss á markaði hér fylgir til að mynda tyggjó sem harðnar þegar ísinn er frystur og getur auðveldlega staðið í hálsi barns. Annað vandamál er bland í poka sem engin leið er fyrir foreldra að átta sig á hvað er gamalt, þar sem engar dagsetningar eru á svokölluðum nammibörum. Margar tegundir sælgætis harðna við geymslu og geta auðveldlega fest í hálsinum. Sumar nammifígúrur sem verið er að selja eru allt að 30 sentímetra langar. Foreldrar eru oft ekki á varðbergi gagnvart þessu."

Herdís segir 10-15 tilvik verða á ári þar sem aðskotahlutur festist í hálsi barns 0-14 ára og að alvarleg tilvik séu 5-6. Eru þessar tölur byggðar á skráningum Slysadeildar og ná því ekki yfir allt landið.

Þess má geta að markaðsgæsludeild Löggildingarstofu, Umhverfisstofnun, Árvekni, Rauði kross Íslands og Heilbrigðis- og umhverfisstofa Reykjavíkur gáfu út bækling árið 2001 sem heitir Sælgæti og smáhlutir geta valdið köfnun. Var honum dreift meðal annars á alla leikskóla landsins og á heilsugæslustöðvar.

Hægt er að nálgast bæklinginn á heimasíðu Löggildingarstofu, www.ls.is og heimasíðu Hollustuverndar (Umhverfisstofnunar), www.hollver.is.