Spurning: Hvað er sjúkdómurinn prurigo nodularis? Ég er með þennan sjúkdóm sem mér er sagt að sé sjaldgæfur og leggist frekar á eldra fólk.

Spurning: Hvað er sjúkdómurinn prurigo nodularis? Ég er með þennan sjúkdóm sem mér er sagt að sé sjaldgæfur og leggist frekar á eldra fólk.

Svar: Prurigo nodularis þýðir eiginlega samkvæmt orðanna hljóðan kláðahnúðar en hefur verið kallað hnúðaskæningur á íslensku. Þessi sjúkdómur flokkast undir exem og nánar til tekið undir taugaskinnþrota (neurodermatitis)!

Ég hef ekki fundið tölur um algengi sjúkdómsins en hann er ekki svo sjaldgæfur og leggst einkum á fólk á aldrinum 20-60 ára, jafnt á bæði kynin. Hnúðaskæningi var fyrst lýst fyrir tæplega 100 árum sem hnúðum framan á fótleggjum og lærum og aftanvert á handleggjum, en þeir geta einnig verið á búk, í andliti og jafnvel lófum. Þetta eru venjulega klasar af upphleyptum, hörðum hnúðum, 1-3 cm í þvermál, og þeim fylgir ákafur kláði sem kemur í hviðum. Þessar kláðahviður koma daglega, geta verið mjög erfiðar og standa mislengi yfir, frá nokkrum mínútum upp í klukkustund eða meira. Við það að sjúklingurinn klórar sér verður ofvöxtur á taugum í þessum hnúðum og ástandið versnar stöðugt. Oft er hrúður og hreistur yfir hnúðunum og með tímanum getur húðin yfir þeim dökknað. Ef mikið er klórað er hætta á sýkingum. Hnúðarnir eru oftast í klösum og geta verið mismargir, oftast á bilinu 2-200. Nýir hnúðar myndast endrum og eins og gamlir geta horfið og skilja þá venjulega eftir sig ör. Oft er gangur þessa sjúkdóms langdreginn. Hnúðaskæningur getur verið mislæmur, frá því að vera óþægilegur og pirrandi yfir í alvarlegan sjúkdóm sem veldur fötlun. Orsakir hnúðaskænings eru óþekktar en mikil streita er talin skipta máli í sumum tilvikum. Stór hluti sjúklinganna er með ofnæmi eða fjölskyldusögu um ofnæmissjúkdóma. Talið er að um fimmta hvert tilfelli byrji eftir skordýrabit. Í sumum tilfellum er talið að orsökina megi rekja til illkynja sjúkdóms eða nýrnabilunar. Í sjaldgæfum tilfellum orsakast sjúkdómurinn af óþoli fyrir næringarefninu glúteni en þeir sem hafa glútenóþol eru jafnframt með ýmis önnur sjúkdómseinkenni. Því miður er hnúðaskæningur einn af erfiðustu húðsjúkdómum sem sjúklingar og læknar þurfa að glíma við. Mjög mikilvægt er að fá sjúklingana til að hætta að klóra sér og stundum hjálpa þunglyndislyf í þeirri viðleitni. Aðaluppistaðan í meðferðinni er gjarnan að bera sterk sterasmyrsli á hnúðana en ýmislegt annað er reynt í staðinn eða jafnframt. Stundum þarf að gefa sýklalyf við húðsýkingum og í erfiðum tilfellum er gripið til inntöku stera eða meðferðar með útfjólubláu ljósi og ýmislegt annað er reynt. Nýlega hefur komið í ljós að lyfið talidómíð læknar stundum þennan sjúkdóm. Talidómíð er aðallega þekkt fyrir að hafa valdið miklum fjölda vanskapnaða hjá börnum fyrir rúmlega 40 árum. Á undanförnum 10-20 árum hefur lyfið verið notað við ýmsum alvarlegum sjúkdómum með allnokkrum árangri og má þar nefna mergæxli og holdsveiki.