Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Þóra Ellen Þórhallsdóttir
ÞÓRA Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands, segir að Jón Kristjánsson, settur umhverfisráðherra, hafi með úrskurði sínum um Norðlingaölduveitu mótað afdráttarlausa stefnu um að virða mörk friðlandsins í Þjórsárverum.

ÞÓRA Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands, segir að Jón Kristjánsson, settur umhverfisráðherra, hafi með úrskurði sínum um Norðlingaölduveitu mótað afdráttarlausa stefnu um að virða mörk friðlandsins í Þjórsárverum. Líklegt sé að þar sé um stefnumörkun til framtíðar að ræða.

Þóra Ellen hefur unnið að vistfræðirannsóknum í Þjórsárverum um 20 ára skeið og hefur verið í broddi fylkingar þeirra, sem andvígir hafa verið fyrri áformum um Norðlingaölduveitu. Hún segir í samtali við Morgunblaðið að úrskurður ráðherra sé vel unninn og að mörgu leyti athyglisverður. Hann feli hins vegar í sér svo miklar breytingar á Norðlingaölduveitu að velta megi fyrir sér hvort framkvæmdin sé sú sama og áður.

Þóra Ellen segir mörgum spurningum ósvarað vegna úrskurðar ráðherra. Þó sé ekki vafi á að framkvæmdin muni hafa mun minni umhverfisáhrif til langframa en áður. "En mér finnst þessi afdráttarlausa áhersla sem ráðherrann leggur á að það beri að virða friðlandsmörkin líka mjög mikilvæg og sömuleiðis að það eigi að virða okkar alþjóðlegu skuldbindingar sem eru tengdar Þjórsárverum. Mér finnst mjög jákvætt að ráðherra skuli hafa mótað svona afdráttarlausa stefnu hvað þetta varðar því manni finnst líklegt að það sé stefnumörkun til framtíðar."