Oda Hildur Árnason fæddist í Maribo í Danmörku 25. maí 1913. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi 23. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Vigfús Guðmann Einarsson, f. 12.2. 1878 á Miðhúsum í Eiðaþinghá, d. 2.2. 1972, kaupmaður í Maribo og Bramminge og herragarðseigandi á eyjunni Endelave í Danmörku, og Valborg Einarsson, f. 16.8. 1882, d. 28.4. 1985, húsmóðir og ljósmyndari að mennt. Systkini Hildar eru: Irene, f. 22.12. 1904, d. 31.1. 1981, húsmóðir í Danmörku, var gift Jens Bundgaard dr. phil., d. 1976; Edel, f. 13.6. 1907, hjúkrunarkona og húsmóðir, gift Ágústi Einarssyni kaupfélagsstjóra, d. 1988, hún býr nú í Danmörku; Ingrid, f. 8.8. 1909, ljósmyndari að mennt og verslunareigandi, var gift Brynjúlfi Sigfússyni, orgelleikara og söngstjóra í Vestmannaeyjum, d. 1951, hún býr nú í Reykjavík; Bjarni Erik, f. 5.4. 1911, verslunarmaður, kvæntur Sædísi Konráðsdóttur, d. 2002, hann býr í Kópavogi; Ingibjörg, f. 16.3. 1917, húsmóðir og myndlistarmaður, býr í Danmörku, gift Elvin Erud listmálara.

Hildur giftist Sigurði Árnasyni f. 14.7. 1900, d. 10.9. 2000, bónda á Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð. Börn þeirra eru: 1) Unnur, f. 1.4. 1936, býr í Þýskalandi, gift Alfred Rohloff og eiga þau fjögur börn, Björn Geir, Sigurð Alfreð, Björgu Ástrúnu og Steingrím Arthur. 2) Valborg, f. 2.7. 1937, býr í Reykjavík, sonur hennar er Sigurður Freyr M. Hafstein. 3) Sara Hjördís, f. 16.10. 1939, býr í Reykjavík, gift Gunnari Ólafssyni og eiga þau þrjú börn, Hildi Jónu, Hjördísi Elísabetu og Gunnar Árna. 4) Árni Þorsteinn, f. 26.7. 1941, býr á Vestur-Sámsstöðum, sonur hans er Grétar Þórarinn, en sambýliskona Árna er Aagot Emilsdóttir. 5) Þórunn Björg, f. 1.7. 1943, býr í Garðabæ, gift Árna Magnúsi Emilssyni og eiga þau þrjú börn, Orra, Örnu og Ágústu Rós. 6) Hrafnhildur Inga, f. 19.3. 1946, býr í Garðabæ, gift Óskari Magnússyni og eiga þau einn son, Magnús, en auk þess á Hrafnhildur þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Söru, Magnús og Andreu Magdalenu; Þórdís Alda, f. 25.2. 1950, býr í Mosfellsbæ, gift Gunnari B. Dungal. Barnabarnabörn Hildar og Sigurðar eru orðin 20 talsins. Hildur bjó í Danmörku til nítján ára aldurs og stundaði nám þar til hún fluttist til Íslands, giftist eiginmanni sínum og bjó með honum á Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð til ársins 1989 en þá fluttu þau á Kirkjuhvol á Hvolsvelli.

Hildur verður jarðsungin frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Þá er hún elsku mamma horfin úr þessum heimi. Æviferill hennar var á margan hátt sérstakur. Hún fæddist í Danmörku og bjó þar sín bernsku- og unglingsár við gott atlæti foreldra sinna og systkina. Minntist hún ætíð æskuáranna með hlýhug og ánægju. Að skyldunámi loknu hóf hún nám við menntaskólann í Ribe. Ekki lauk hún þó alveg því námi en fékk sér vinnu við að gæta barna yfirverkfræðingsins sem sá um að byggja brúna yfir Litlabelti, og konu hans. Þegar hún var 19 ára kom hún til Íslands ásamt Edel systur sinni til að kynnast ættlandi föður síns, en hann hafði flust þaðan 14 ára og sest að í Danmörku. Fylgdu þær fordæmi systkina sinna, Irene, Ingrid og Bjarna sem öll höfðu heimsótt landið. Mamma dvaldi einn vetur í Reykjavík og vann við barnagæslu. Sumarið 1933 tóku mamma og Edel að sér að annast matseld fyrir smiði sem voru að byggja Arnarhvol, kaupfélagshús á Hvolsvelli. Þarna fyrir austan kynntust foreldrar mínir. Þau giftust 1934 og varð hún þá húsmóðir á íslensku sveitaheimili. Má segja að þá hafi orðið kaflaskil í lífi hennar. Viðbrigðin hljóta að hafa verið mikil fyrir kaupmannsdótturina ungu. Heimilisstörf og lífshættir í íslenskri sveit voru henni framandi og allt var gjörólíkt því sem hún átti að venjast. Þó húsakynni væru nokkuð góð á þeirra tíma mælikvarða voru öll þægindi af skornum skammti. Matvara að mestu unnin heima, allur bakstur fór fram í kolaeldavélinni og þvotturinn þveginn á bretti í bala og skolaður úti í læk. Börnin fæddust svo eitt af öðru og urðu alls sjö á 14 árum. Hún hafði þó stundum hjálparstúlkur inni við og svo voru vetrarmenn og kaupafólk á sumrum. Sara mágkona hennar var líka á heimilinu og hjálpaði henni mikið meðan börnin voru að komast á legg. Oft voru 10-12 manns í heimili svo nærri má geta að starfsdagarnir hafa verið langir og strangir en með ótrúlegum dugnaði og þrautseigju tókst henni að læra á lífið í sveitinni og verða fyrirmyndar húsmóðir. Árið 1950 fluttu foreldrar mínir í nýtt og myndarlegt íbúðarhús sem þau höfðu byggt sér og rýmkaðist þá um fjölskylduna. Þá var líka komið rafmagn og heimilistæki sem léttu henni störfin. Svo kom að því að börnin fóru að tínast að heiman og að lokum urðu hún og pabbi bara tvö eftir heima og höfðu þá oft unglingspilta sér til aðstoðar. Árni sonur þeirra flutti síðan aftur til þeirra og aðstoðaði þau þar til þau fluttu í litla íbúð á Kirkjuhvoli, dvalarheimili aldraðra á Hvolsvelli.

Þegar mesta stritið var að baki hafði mamma meiri tíma til að sinna hugðarefnum sínum. Hún saumaði mikið út, m.a. margar fallegar myndir og púða sem hún gaf okkur systkinunum. Sérstaklega var gaman að sjá árangurinn þegar hún nýtti garn- og efnisafganga og bjó til sín eigin mynstur. Einnig las hún mikið og eftir að hún fór að kaupa Familie Journalen þá réð hún krossgáturnar af mikilli snilld og var undravert hve mikið hún mundi úr landafræði, sögu Danmerkur og goðafræði en í þessum krossgátum er spurt um allt milli himins og jarðar. Mamma hafði yndi af blómum og gróðri og á Sámsstöðum kom hún sér upp stórum og fallegum garði. Það var alltaf til hljóðfæri á heimilinu og man ég eftir mörgum góðum stundum þegar mamma sat við píanóið og spilaði og þá kom pabbi oft inn í stofu og söng með. Þá var líka til siðs ef gestir komu að taka lagið saman og mamma spilaði þá undir. Hún hafði sjálf fallega rödd og söng með kirkjukórnum um árabil.

Þegar hún yfirgaf föðurhúsin 1932 gerði hún sér eflaust ekki grein fyrir hve sjaldan hún myndi sjá foreldra sína eftir það. Móðir hennar kom reyndar sumarið 1937 og var hjá henni þegar ég fæddist. Síðan kom seinni heimsstyrjöldin og þá var lítið um samband. Það var ekki fyrr en 1947 að hún fór aftur á heimaslóðir og ég fékk að fara með. Hún hitti þá margt af skyldfólki sínu og vinum, m.a. rektor Willumsen, sinn gamla rektor við skólann í Ribe, en þau skrifuðust á meðan hann lifði. Það þætti nú líklega heldur óvenjulegt í dag. Foreldrar hennar komu síðan einu sinni saman til Íslands og amma einu sinni ein. Mamma fór nokkrum sinnum síðar á ævinni til Danmerkur og pabbi tvisvar með henni og heimsóttu þau þá líka Unni dóttur sína sem býr í Þýskalandi. Mamma hefði sjálfsagt gjarnan viljað ferðast meira meðan heilsa hennar var góð. Hún fór í ferð til Ítalíu árið sem hún varð sjötug sem hún hafði mikla ánægju af. Einnig ferðaðist hún talsvert innanlands.

Mamma var lítil, fíngerð og falleg kona, ævinlega smekkleg til fara þó nægjusöm væri. Öll sú vinna sem hún hafði innt af hendi um dagana virtist ekki hafa sett mark sitt að ráði á útlit hennar. Hún hélt sér mjög vel fram eftir öllum aldri, andlitið svo til hrukkulaust þó hún notaði sjaldnast annað en vatn og sápu og þótt dætur hennar væru að gefa henni góð krem bar hún þau heldur á sína þreyttu, aumu fætur. Mamma var ákafleg hjálpsöm kona og trygglynd. Hún fylgdist vel með öllum í fjölskyldunni og bar hag okkar allra fyrir brjósti. Litlu barnabarnabörnin voru henni afar kær. Þá var hún einnig sérstaklega hreinlynd í allri hugsun og framkomu. Hún hugsaði áreiðanlega aldrei illt til nokkurrar manneskju. Hún vildi að vel væri farið með menn og málleysingja og margar ferðir fór hún út að litlu tjörninni við Kirkjuhvol að gefa öndunum sem þar eru.

Heilsufar mömmu var yfirleitt gott fram eftir ævinni en á síðustu árum tók heilsu hennar að hraka mjög ört. Henni varð þó að þeirri ósk sinni að geta dvalið í íbúðinni sinni á Kirkjuhvoli þar til hún veiktist skyndilega, fékk blóðtappa í heilann og var flutt á Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi. Þar fékk hún mjög góða umönnun síðustu tíu daga ævi sinnar hjá því góða fólki sem þar starfar. Fyrir það viljum við þakka og sömuleiðis þökkum við þá umhyggju sem okkur aðstandendum hennar var sýnd þessa erfiðu daga. Einnig þökkum við starfsfólki og heimilisfólki á Kirkjuhvoli og öllum þeim sem sýndu henni hlýju og nærgætni.

Kveðjustundin er erfið og söknuðurinn sár. Að leiðarlokum vil ég þakka elsku mömmu minni samfylgdina í gegnum lífið og bið góðan Guð að gæta hennar og vernda.

Blessuð sé minning hennar.

Valborg.

Þrír bræður, miklir merkismenn íslenskir, hittust árið 1960 heima hjá einum þeirra, Guðmanni Einarssyni og konu hans Valborgu, sem áttu þá heima á Jótlandi þar sem heitir í Aagaard.

Voru þeir mjög aldraðir orðnir, Ingimundur Einarsson 78 ára, Karl Einarsson 88 ára en Guðmann 82 ára. Af þessu tilefni birtist grein um þá bræður í Jyllandsposten þar sem varpað er nokkru ljósi á lífshlaup þessara merku manna.

Nærri má geta að það hefur verið fagnaðarfundur, þegar þeir settust að tafli og rifjuðu upp æskuárin frá Íslandi, enda höfðu þeir ekki sést í hálfa öld.

Ingimundur fluttist til Kanada og varð umsvifamikill kaupsýslumaður og seldi þar bíla í stórum stíl og var persónulegur vinur bílakóngsins Kaiser Phraizer.

Vettvangur Karls var á Íslandi þar sem hann lét muna um sig svo eftir verður munað. Hann var sýslumaður í Vestmannaeyjum, þingmaður og bæjarstjóri þeirra um árabil og beitti sér fyrir slysavörnum, enda sjóslys tíð á þessum árum.

Guðmann flutti til Danmerkur til að nema verslunarfræði og leið ekki á löngu þar til hann gerðist mikill athafnamaður, byggingaverktaki, kaupmaður og stórbóndi svo eitthvað sé nefnt.

Það leið heldur ekki langur tími þar til hann fann sér "den södeste kone" og bræður hans eru á því að mestu verðmæti hans séu fólgin í fallegu heimili, konu og sex börnum og þar af hafi fjögur þeirra kosið að búa á Íslandi, "det dejligeste sted i hele verden" eins og danski blaðamaðurinn kýs að orða það.

Eitt barna þeirra hjóna var Hildur Árnason tengdamóðir mín, sem lést fimmtudaginn 23. þessa mánaðar eftir að hafa háð snarpa orustu við manninn með ljáinn, sem eins og fyrr mátti sín meir og varð hún að lúta í lægra haldi eins og hlutskipti okkar allra verður að lokum. Fyrir rúmum tveimur árum stóð hún keik yfir moldum bónda síns og gekk fram fyrir skjöldu og réð fram úr öllu, sem til þurfti við slíkar aðstæður.

Hildur fetaði ekki troðnar slóðir í lífinu frekar en faðir hennar og bræður hans. Mér hefur hún einlægt þótt ögn til hliðar við aðra menn og hefur án efa þegið að kynfylgju þá miklu mannkosti, sem foreldrar hennar voru búnir.

Hildur átti heima í Danmörku til nítján ára aldurs og naut þar ágætrar skólagöngu, uppeldis og vinnuaga, sem ég hygg að væri framandi okkur venjulegum Íslendingum.

Hildur sá fyrirheitna landið í vestri og fór út til Íslands og hitti þar fyrir þrjú systkini sín og réðst þar í vist þar sem Ingrid systir hennar hafði áður starfað.

Svo kom að því að Hildur dreif sig austur fyrir fjall að heimsækja Edel systur sína, þar sem hún hitti mannsefnið sitt Sigurð Árnason á Sámsstöðum, rauðbirkinn víking, sem var með allra stærstu mönnum og rómsterkur vel. Með þeim tókust ástir og þau giftu sig og hófu búskap á Sámsstöðum sumarið 1934 í sambýli við Jón bróður Sigurðar og konu hans.

Ekki fer hjá því að það hefur verið erfitt hlutskipti fyrir ungu konuna að halda sínum hlut á jafnrótgrónu menningarheimili og Sámsstaðir voru. Hildur var kona nettvaxin og stakk mjög í stúf við annað heimilsfólk og þar að auki var hún útlendingur og kunni ekki ástkæra ylhýra málið og var dönsk í þokkabót, en landar hennar áttu ekki upp á pallborðið hjá mörlandanum á þessum árum mitt í sjálfri sjálfstæðisbaráttunni.

Sigurður og Hildur eignuðust sjö mannvænleg börn, sex dætur og einn son, sem fæddust hvert af öðru það elsta 1936 og það yngsta 1950. Öll komust þau vel til manns og ekki hefur það orðið þeim til sálutjóns, þótt ekki væri mulið undir þau eins og nú tíðkast í góðærinu. Það hefur þurft að taka til hendinni á þessu heimili svo allt færi að sköpuðu og þá hefur komið sér vel að njóta hjálpar Söru systur Sigurðar, sem þá bjó heima á Sámsstöðum, annáluð hannyrðakona og dugnaðarforkur. Síðar á ævinni launuðu börnin fyrir sig, þegar Sara var gömul orðin og lasin og þurfti hjálpar við. Meiri ræktar- og hugulsemi hefi ég ekki áður kynnst.

Sigurður á Sámsstöðum var hugumstór maður og hann hafði oft orð á því að honum þótti gott um Hildi sína og "enginn gat verið hún nema hún". Því hefur hann viljað sýna henni þakklæti og virðingu sína með því að reisa stærra og meira hús en önnur, sem þá höfðu verið reist í Fljótshlíðinni og það gekk eftir. Þau fluttu í nýja húsið árið 1950 og var yngsta dóttirin Þórdís þá nýfædd.

Hildi og Sigurði var mikið í mun að mennta börnin sín og liður í því var að senda þau öll í héraðsskólann á Skógum, en fyrsta bekk lærðu þau heima og virtist sá undirbúningur síst lakari en aðrir fengu, sem voru alla þrjá veturna í skólanum.

Þau hjón voru menningarlega sinnuð en í raun eins ólík og hugsast getur. Sigurður leitaði fanga í bókmenntum og þó einkum ljóðum, sem hann kunni ógrynni af og ekki bara ljóð eldri skálda, heldur nutu og formbyltingarmenn vinsælda hjá honum. Hildur las hins vegar að sjálfsögðu dönsku blöðin og hverskonar bækur og tímarit, sem hún kom höndum yfir og var þess vegna hafsjór af fróðleik um alls konar efni, sem ekki var beint á dagskrá hvunndags á venjulegum sveitaheimilum. Hildur vissi flest, ef ekki allt um dönsku drottninguna og alla hennar fjölskyldu í marga ættliði og lét sér svo annt um þetta fólk að maður fékk það stundum á tilfinninguna að um nánustu skyldmenni væri að ræða. Þetta fór hins vegar allt fyrir ofan garð og neðan hjá Sigurði og lét hann sér fátt um finnast. En tónlistina áttu þau sameiginlega og léðu kirkjukórnum í Fljótshlíð raddir sínar í mörg ár. Hildur settist gjarnan við píanóið og spilaði undir söng, þegar fjölskyldan hittist á góðri stund og var sérstakur bragur yfir þessu, sem ekki verður lýst með orðum, heldur verður hver og einn að varðveita í huga sínum.

Ég á skemmtilegar minningar af kynnum mínum við það Sámsstaðafólk í gegnum tíðina, enda himinn og haf á milli uppeldis Snæfellinga og þeirra fyrir austan fjall eins og kunnugt er sæmilega lesnum Íslendingum. Áður hafði ég ekki kynnst svo fáguðu orðfæri, því allt var þetta öðru vísi fyrir vestan þar sem efsta stig lýsingarorðanna var aldrei skorið við nögl.

Í Sjálfstæðu fólki segir Hallbera tengdamóðir Bjarts í Sumarhúsum að hún hafi búið með honum Þórarinum sínum í Urðarseli í féritígi ár og aldrei kom neitt fyrir. Sá sem hér heldur á penna hefur þekkt Hildi álíka lengi og get ég tekið undir með Beru gömlu að aldrei hefur neitt komið fyrir.

Hildur á Sámsstöðum var einstök kona, sívakin yfir velferð fjölskyldunnar og samferðamanna sinna, alvarlega hugsandi og glettin í senn. Og sennilega hefur varla uppi verið miklu óeigingjarnari manneskja en hún, eða verr til þess fallin að gera góðan starfslokasamning fyrir sig eins og nú tíðkast meðal meiriháttar manna.

Nú eru kaflaskil, Hildur og Sigurður eru horfin sjónum okkar og hafa haft vistaskipti og dvelja sennilega þar sem jökulinn ber við loft og Hlíðin fegurri en nokkru sinni.

Þau munu um síðir fagna vinum í varpa, ef allt gengur eftir staðfastri trúarvissu þeirra.

Mér kemur í hug setningin góða úr Njálu: "Ek var ung gefin Njáli." Í þeim anda lifði Hildur og er hennar sárt saknað.

Blessuð sé minning Hildar og Sigurðar á Sámsstöðum.

Árni M. Emilsson.

Hildur tengdamóðir mín er látin 89 ára að aldri. Það þykir nú ekki tiltakanlega hár aldur í hennar fjölskyldu. Móðir Hildar varð 103 ára og dansaði við bæjarstjórann sinn í veislunni sem var haldin þegar hún varð 100 ára. Hildur var ágætlega hress lengst af og var síðast heima hjá okkur í stúdentsfagnaði Magnúsar sonar okkar rétt fyrir jólin.

Hildur var merkiskona, öllum ólík. Hálfdönsk af efnuðu foreldri kom hún ung frá Danmörku og settist að hér í Fljótshlíðinni. Þar átti hún eftir að búa nær alla sína tíð, stóru búi með mörgum börnum og kjarnmiklum eiginmanni. Ekki hefur það allt verið mótlætislaust.

Þessi netta og glæsilega kona fór gjarnan sínu fram án þess að því fylgdi mikill fyrirgangur. Hún var alla tíð einkar áhugasöm um umhverfi sitt og þjóðmál hér heima en reyndar enn meira erlendis. Stundum átti hún það til að hefja við mann samræður um einhvern erfiðan ágreining í heimsmálum og mátti maður þá hafa sig allan við því jafnan kunni hún á slíkum umræðuefnum góð skil. Hildur var tónelsk og leyfði þeim áhuga sínum jafnvel að ganga svo langt að hvetja tengdason sinn til gítarleiks og söngs þegar hún kom í heimsókn á Sámsstaðabakka. Af einhverjum ástæðum þurfti hún þó stundum að bregða sér frá þegar hæst bar en lét það þó ekki aftra sér frá því að hvetja til endurtekningar í næstu heimsókn. Svona eftir á að hyggja má vera að rétt hefði verið að sleppa söngnum.

Fyrir nokkrum árum þegar ég tók upp á því að setjast í dönskunám fékk ég mikið lof Hildar. Og eitt kvöldið þegar hún var í höfuðstaðnum hafði hún samband og vildi koma í heimsókn gagngert þeirra erinda að tala dönsku við tengdasoninn. Svo sátum við tvö inni í alsparistofu og töluðum dönsku. Eitthvað trúi ég að mætti skemmta sér ef það samtal væri til á spólu.

Að leiðarlokum kveð ég Hildi. Hún hefur staðið fyrir sínu hér hjá mönnum og mun nú gera það fyrir guði. Blessuð sé minning Hildar Árnason.

Óskar Magnússon.

Mér fannst ég vera í órafjarlægð frá minni góðu fjölskyldu þegar fregnin um að amma mín og nafna hefði kvatt þennan heim. Þó að fólk sé orðið aldrað þegar kallið kemur, verður maður alltaf hryggur og hugsar um liðnar stundir. Ég á svo góðar minningar um þessa fínlegu, duglegu og góðu konu. Sem barn dvaldi ég oft hjá afa Sigga og ömmu Hildi á Sámsstöðum, en afi lést í fyrra þá einnar aldar gamall.

Amma Hildur sá um sitt heimili með miklum myndarbrag. Reyndi hún af fremsta mætti að virkja mig við uppvask og önnur innistörf. Ég verð að viðurkenna það, að ég sé enn eftir þeim skiptum sem ég hljóp út í sólskinið vitandi það að uppvaskið var eftir. (Það var allaf svo sólríkt þegar ég var lítil!)

Ein af fyrstu minningum mínum er að ég hleyp í ofboði undan reiðum frænda mínum sem er ögn yngri en ég og í fangið á ömmu og ég er svo lítil að ég grúfi andlitið í svuntunni hennar sem angar af baksturslykt og mér finnst ég örugg.

Ég man eftir svo notalegum stundum í herberginu hennar eftir hádegismatinn, hún sat við gluggann og saumaði út mikil listaverk eða las í Familie Journal og ég lá á beddanum og las í bók eða hún sagði mér frá því nýjasta í lífshlaupi Margrétar Danadrottningar, en ég hélt lengi vel að við hlytum að vera skyld því fólki því amma var jú dönsk og hún vissi hvert Margrét og þau fóru í sumarfrí.

Oft var amma mín þreytt, því heimilið var stundum erfitt og erilsamt. En þegar vel lá á henni og henni fannst eitthvað hlægilegt gat hún tárast af hlátri og allir hlógu með. Einhvern veginn man ég svo vel eftir mjög gáskafullu kvöldi í eldhúsinu á Sámsstöðum. Þetta var stuttu eftir að Neil Armstrong steig fyrstur manna á tunglið og við höfðum séð í sjónvarpinu hvernig hann gekk um á tunglinu. Hún tók sig til og var annað slagið að líkja eftir því um leið og hún sinnti störfum sínum. Hún hló svo mikið og allir þeir sem í eldhúsinu voru, veltust um af hlátri.

Svo líða árin og ég kynnist mannsefni mínu. Amma fylgdist vel með því. Hún var eitt sinn hjá okkur er ég bjó enn í foreldrahúsum og ungi maðurinn kom í heimsókn um kvöld. Klukkan var ekki orðin margt og var opið inn í herbergið þegar við heyrum ömmu segja mjög ákveðið við föður minn: "Gunnar, mér finnst altso að þú getir vel sagt drengen að fara hjem."

Eftir að við eignuðumst börnin fylgdist amma vel með okkur og reyndi að heimsækja okkur þegar hún var í bænum og heilsan leyfði og hún hafði gaman af að sjá barnabarnabörnin vaxa og dafna. Fyrir um tveimur árum fórum við fjölskyldan í frí til Danmerkur. Áður en við fórum, fór ég yfir það með ömmu hvar hún hafði búið í Danmörku. Við fórum svo til Maribo, Bramminge og eyjunnar Endelave. Það er gaman að segja frá því að við hittum gamlan mann hvers faðir hafði verið vinnumaður hjá Einarson í Louisenlund og bar hann honum vel söguna. Eyjan er afskaplega falleg og friðsæl og þaðan átti amma góðar bernskuminningar.

Við sáum ömmu síðast fína og vel tilhafða í 90 ára afmæli föðurafa míns hinn 3. janúar s.l. Þannig munum við hana og við kvöddumst vel þann dag, því ég og fjölskylda mín vorum að flytjast tímabundið til Genfar þá strax daginn eftir.

Við getum því miður ekki verið heima og fylgt henni til grafar, en svo sannarlega verður hugur okkar í Fljótshlíðinni á útfarardaginn.

Elsku mamma, þér og systkinum þínum sendi ég samúðarkveðjur svo og öllum öðrum ættingjum. Amma mín, ég kveð þig og þakka þér samfylgdina í lífinu.

Blessuð sé minning þín.

Hildur Jóna Gunnarsdóttir.