Þórdís Pálína Einarsdóttir fæddist á Höfða í Vopnafirði 17. maí 1908. Hún lést í Hulduhlíð, dvalarheimili aldraðra á Eskifirði, 25. janúar síðastliðinn. Þórdís Pálína var yngsta barn hjónanna Einars Pálssonar og Guðnýjar Benediktsdóttur. Einar og Guðný voru Skaftfellingar sem bjuggu tímabundið á Vopnafirði en fluttust árið 1910 til Eskifjarðar þar sem þau eignuðust sitt framtíðarheimili. Hálfsystkini Þórdísar Pálínu voru Auðbjörg Brynjólfsdóttir og Páll Einarsson, alsystkini hennar voru Ragnhildur Rannveig, Benedikt, Sigurlaug Stefanía, Jóhanna Borghildur, Þorsteinn, Sveinn Mikael og Brynjólfur.

Hinn 27. maí 1928 giftist Þórdís Pálína Páli Guðnasyni frá Vöðlum í Vöðlavík, d. 28. október 1977. Þau bjuggu í nokkur ár í Vöðlavík en fluttust árið 1934 til Eskifjarðar og keyptu bernskuheimili Þórdísar Pálínu en þar átti hún sitt heimili frá árinu 1914 til dánardags, að undanskildum árunum í Vöðlavík. Undanfarin ár dvaldist Þórdís Pálína í Hulduhlíð, dvalarheimili aldraðra á Eskifirði, og naut þar góðrar umönnunar. Þórdís Pálína og Páll eignuðust fimm börn. Þau eru Anna f. 28. september 1929, hún á tvö börn, sex barnabörn og fimm barnabarnabörn; Brynjólfur, f. 8. maí 1931; Guðný Ragnhildur, f. 21. júlí 1934, hún á fjögur börn og ellefu barnabörn; Þórunn, f. 7. mars 1939, hún á eina dóttur og fimm dótturdætur; og Rannveig, f. 23. febrúar 1947, hún á þrjú börn.

Útför Þórdísar Pálínu fer fram frá Eskifjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Amma mín var lágvaxin kona, félagslynd, glettin og spaugsöm en ör í skapi, hún hafði stórt og hlýtt hjarta, henni þótti mjög vænt um fjölskylduna sína og frændgarðinn allan, henni þótti líka vænt um tengdafólkið sitt, nágrannana, vinnufélagana og samferðafólkið yfirleitt.

Amma vann árum saman í "hraðinu" og gegndi þar trúnaðarstörfum, hún vann líka mikið að verkalýðsmálum og var lengi formaður Verkakvennafélagsins Framtíðar á Eskifirði, hún sat mörg Alþýðusambandsþing og var árið 1977 kjörin heiðursfélagi verkamannafélagsins Árvakurs.

Ömmu féll aldrei verk úr hendi, hún hafði gaman af að sauma föt, hún saumaði mikið á sjálfa sig og okkur barnabörnin og handbragðið var til fyrirmyndar. Hún heklaði líka mikið. Yrði hún vör við að sér hefðu orðið á smávægileg mistök hikaði hún ekki við að rekja upp margra daga vinnu og byrja upp á nýtt því óaðfinnanlegt skyldi stykkið verða.

Ég heyrði ömmu stundum segja að sér leiddist þetta eilífa matarstúss en ekki sveikst hún um og hafi einhvern tíma komið fyrir að ekki var heit máltíð á hennar borðum á slaginu kl. 12.00 og 19.00 hefur orsökin verið óviðráðanleg.

Ung að árum réð amma sig til sveitastarfa að Vöðlum í Vöðlavík. Það var mikið gæfuspor fyrir hana því hún krækti í einn bóndasoninn á bænum, hann Pál. Þau voru samhent hjón þótt ekki væru þau lík, hvorki í útliti né skapferli, hann með hærri mönnum, rólegur, yfirvegaður og heimakær, hún lágvaxin og nett, félagslynd og ör í skapi en vinnusemina, réttlætiskenndina og heiðarleikann áttu þau sameiginlega.

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu afi og amma í Vöðlavík en félagslynda kaupstaðarstúlkan fann sig ekki í sveitinni og heimakæri bónasonurinn taldi ekki eftir sér að flytja með henni á mölina.

Ömmu þótti mjög vænt um húsið sitt sem var hennar heimili nær samfellt í 89 ár, foreldrar hennar létu byggja húsið og fyrir þau var það mun meira en bara heimili, það var fastur samastaður fyrir fjölskyldu sem hafði á erfiðum tímum þurft að hrekjast landshluta á milli.

Ég kveð ömmu mína með miklum söknuði, ég veit hvað henni þótti vænt um mig og ég vona að hún hafi vitað hvað mér þótti vænt um hana.

Þórdís Pála.

Á borðinu fyrir framan mig stendur mynd af tveimur eskfirskum stúlkum tekin árið 1922. Sú yngri er vinstra megin og stendur. Hún er 14 ára, flatbrjósta, ósköp sakleysisleg á svip og hátíðleg alvara í öllu yfirbragði hennar eins og títt er á gömlum myndum af fólki sem var að "sitja fyrir" í fyrsta sinn og vissi ekki nema þetta kynni að verða í eina skiptið á ævinni; klædd ljósum kjól úr smárósóttu efni, skiptum í tvennt: pils og hálferma blússu með mjóu belti úr sama efni; hárið er ókrullað, skipting í vinstri vanga, sléttgreitt aftur. Þetta er smáfríð stúlka og ábyrgðarfull að sjá. Hin er 18 ára og til muna konulegri, komin með þrýstinn barm og öll umfangsmeiri en hin; hún situr með hægri hönd á hné og leggur vinstri höndina yfir úlnliðinn á þeirri hægri; klædd stutterma dökkum kjól með ljósum doppum; brjóstnál en ekki aðrir skartgripir sýnilegir. Hún horfist djarfmannleg í augu við myndavélina. Hún skiptir vinstra megin eins og hin og hefur brugðið bylgjujárni í vangalokkana báðum megin. Lagleg stúlka og einarðleg. Ég fékk þessa mynd að gjöf fyrir nokkrum árum og fylgdi með að móðir mín hefði saumað kjólana báða og gefið stúlkunum.

Þetta eru konurnar sem næst móður minni höfðu af mér mestan vanda árið sem ég ekki svaf og raunar lengi eftir það. Hin eldri er Jóhanna Magnúsdóttir systkinabarn við föður minn, sú yngri Þórdís Einarsdóttir móðursystir mín.

Þessi barngæsla hefur í sögunni verið talin með erfiðustu verkum sem mætt hafa á austfirskum konum fyrr og síðar. En ekki varð þeim frænkum mínum varanlega meint af, því Jóhanna varð tæplega 92 ára og núna á dögunum féll Dísa frá komin hátt á nítugasta og fimmta ár.

Ég man að vonum ekkert eftir þessu ónæðissama vökuári sem var fyrsta ár ævi minnar. Elsta atvik sem ég man úr skiptum okkar Dísu frænku er frá vorinu 1927. Við áttum þá heima á Mjóeyri rétt utan við þorpið, Dísa orðin 19 ára og í einhvers konar lausavist hjá systur sinni. Ég var ákaflega útsækinn á þessum aldri, en það hét á máli fullorðinna "að stelast að heiman". Eitt sinn sem oftar gerði ég tilraun til að komast óséður inn í bæ en sást til mín úr eldhúsglugganum og Dísa send af stað að stöðva fangann á flóttanum.

Þegar ég er kominn inn í miðja Mjóeyrarvík verður mér litið um öxl, sé óvin nálgast á hlaupum og tek til fótanna en geld þess hve klofstuttur ég var, svo óðfluga dregur saman með okkur Dísu. Nú voru góð ráð dýr. En mér vill það til happs að ég er á hnéháum gúmmístígvélum sem ég hafði nýlega eignast. Þegar sýnt var að ég yrði bráðlega gripinn óð ég út í sjó eins djúpt og stígvélin leyfðu. Dísa var á lágskóm, gott ef ekki sauðskinnsskóm, svo ég þóttist heldur en ekki vel settur og horfðist ögrandi í augu við hana. Hún skipaði mér að koma í land, en mér datt vitanlega ekki í hug að veikja vígstöðu mína með því. Þannig stóðum við um stund, ég vígreifur, Dísa vandræðaleg eins og hún væri að hugsa hvað væri nú til ráða. En allt í einu gerir hún það sem mér hafði síst dottið í hug að byndi enda á draum minn um bæjarferðina: stökk út í sjóinn, þreif í öxlina á mér og dró mig í land.

Segir ekki Steinarr skáld að í draumi sérhvers manns sé fall hans falið? Ég varð svo hissa og skömmustulegur að ég fór ekki einu sinni að grenja, heldur leyfði Dísu að leiða mig heim í hlað að 15 krökkum Mjóeyrar ásjáandi.

Skömmu eftir að þessi atburður gerðist réðst Dísa kaupakona að Vöðlum í Vöðlavík og varð henni örlagarík heimanför, því að þar kynntist hún mannsefni sínu, Páli Guðnasyni, stórmyndarlegum öðlingi. Þau hófu búskap að Vöðlum en fluttust 1934 til Eskifjarðar og þar stóð heimili þeirra upp frá því til æviloka. Foreldrar hennar Guðný Benediktsdóttir og Einar Pálsson höfðu árið 1914 reist sér lítið hús útá Hlíðarenda og búið þar síðan, seinustu árin ásamt Brynjólfi syni sínum. En nú var Brynjólfur og fjölskylda hans nýflutt búferlum til Vestmannaeyja, svo að íbúð þeirra stóð auð og í henni settust Dísa og Páll að. Einar afi var þá orðinn 75 ára og amma Guðný að nálgast sjötugt. Þeim var ómetanleg ellistoð að fá ungu hjónin í húsið til sín. Megum við niðjar þeirra vera Dísu og Páli eilíflega þakklát fyrir hve vel þau reyndust gömlu hjónunum til hinstu stundar.

Það var fyrir tveimur árum að ég fór í heimsókn til Dísu sem þá var orðin vistmaður í Hulduhlíð. "Hvernig líður þér, Dísa mín?" spurði ég.

"Bærilega," sagði hún, "ég er ekkert farin að stirðna, og það á ég því að þakka hve mikið ég þurfti að hlaupa á eftir þér þegar þú varst lítill. Nú er ég ákveðin í að verða hundrað ára." Þetta var ekkert fráleit bjartsýni, því Steinunn móðursystir hennar fyllti öldina og aðeins betur. En svona fór nú þetta, að þrátt fyrir góða þjálfun hjá mér tókst þeim gamla þrjóti sem aldrei þreytist að ná henni fyrr en hún hugði. Og sú kemur tíð að hann veður út í til að þrífa í öxlina á mér og þá dugir ekkert minna en vöðlur.

Dísa hefur nú kvatt síðust af tíu systkinum að réttu hæfi því hún var þeirra yngst. Hún skilaði ævistarfi sínu með sæmd. Blessuð sé minning hennar.

Einar Bragi.

Fallin er frá í hárri elli móðursystir mín Þórdís Einarsdóttir, síðust af tíu börnum Einars Pálssonar og Guðnýjar Benediktsdótttur. Þórdís fluttist til Eskifjarðar frá Vopnafirði tveggja ára gömul með foreldrum sínum og tveim systkinum, Borghildi móður minni, sem þá var tólf ára, og Brynjólfi, sjö ára. Hin börnin þurftu foreldrar hennar að láta frá sér eftir að þau voru hrakin úr Suðursveit.

Dísa ólst svo upp á Eskifirði hjá foreldrum sínum. Eftir að Borghildur systir hennar gifti sig og stofnaði heimili var hún mikið hjá henni og passaði okkur systkinin þangað til hún sjálf gifti sig. Hún réð sig, ung stúlka, í kaupavinnu út í Vöðlavík. Þar kynntist hún manninum sínum Páli Guðnasyni, miklum sæmdarmanni. Þau hófu búskap á Vöðlum þar sem Páll var uppalinn og bjó ásamt systkinum sínum og gömlum föður. Líka voru á heimilinu tvö systkinabörn hans. Dísa settist inn í þetta heimili og þar fæddust tvö elstu börnin hennar við erfiðar aðstæður. Dísa undi sér aldrei í Vöðlavík og þegar Brynjólfur bróðir hennar flutti til Vestmannaeyja 1933 keyptu þau af honum húsið sem hún hafði alist upp í og fluttu á Eskifjörð. Á loftinu bjuggu foreldrar hennar og var það mikið lán fyrir þau að fá ungu hjónin í húsið og þau voru þeim hjálpleg í ellinni. Þarna átti Dísa heima þar til hún gat ekki lengur, heilsunnar vegna, séð um heimili og flutti þá í Hulduhlíð, dvalarheimili aldraðra á Eskifirði.

Framan af vann Dísa heima á heimilinu eins og flestar húsmæður hér á Eskifirði á þeim tíma, enda nóg að starfa að koma upp fimm börnum, sauma og prjóna allan fatnað á fjölskylduna og heyja handa kúnni og hirða hana. Svo bættist lítill sólargeisli við á heimilinu, dótturdóttir hennar og nafna, Þórdís Pála, sem hefur verið ömmu sinni mikill gleðigjafi og hjálparhella.

Dísa fór að vinna í Hraðfrystihúsi Eskifjarðar 1953 og vann þar í 20 ár, lengi í eftirlitinu. Þá lét hún sig ekki muna um að ganga tvisvar á dag utan af Hlíðarenda og inn í frystihús og til baka en seinni árin var farið að keyra fólkið. Dísa var stéttvís kona og vann með þeim sem börðust fyrir bættum kjörum launafólks. Hún var í Verkakvennafélaginu Framtíð og formaður þess frá 1962 þar til það var lagt niður og og sameinaðist Verkamannafélaginu Árvakri 1971. Í sameinaða félaginu var Dísa gerð að heiðursfélaga. Hún sat mög Alþýðusambandsþing. Líka starfaði hún í Kvenréttindafélagi Eskifjarðar meðan það var til. Hún var mjög virk í báðum þessum félögum.

Þótt það kæmi mér ekki á óvart að frænka mín færi að kveðja þennan heim þá stakk það mig sárt í hjarta þegar mér var sagt að hún væri dáin.

Við Hilmar minnumst hennar með þakklæti sem okkar tryggasta heimilisvinar. Örlát var hún og hafði unun af að gefa. Nutum við þess sem og börn okkar og barnabörn og allt hennar skyldulið.

Börnum hennar, barnabörnum og öðrum ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Sigrún Sigurðardóttir.