Bjarney Ingibjörg Ólafsdóttir fæddist á Flateyri 20. október 1923. Hún lést á Landspítalanum 23. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Anna Filippía Bjarnadóttir, f. 9.7. 1899, d. 15.4. 1992, og Ólafur Guðbrandur Jakobsson, f. 27.10. 1892, d. 5.1. 1963. Bjarney var elst sjö systkina sem eru: Guðbjörg, Dagrún, Guðrún, Arndís, Jakob, Fjóla og Anna Ólafía, sem er látin. Auk þess ólu Anna og Ólafur upp dóttur Dagrúnar, Steinunni Kjartansdóttir.

Hinn 26.2. 1944 giftist Bjarney Guðmundi Sveinsyni netagerðarmeistara frá Góustöðum f. 9.4. 1913, d. 9.4. 1987. Börn þeirra eru: 1) Magni Örvar. f. 30.6. 1944, maki Svanhildur Þórðardóttur og eru dætur þeirra: a) Harpa, maki Baldur Trausti Hreinsson, börn þeirra, Tómas Helgi og Eva. b) Marta Hlín, sambýlismaður Ólafur Sigurðsson, sonur þeirra Rökkvi Sigurður. Úr fyrra hjónabandi á Marta dæturnar Mögnu Rún og Kötlu Rúnarsdætur. c) Guðbjörg Halla, maki Þröstur Jóhannesson, synir þeirra Andri Pétur, Steinn Daníel, Fróði Benjamín og Magni Jóhannes. 2) Anna Lóa f. 15.11.45, maki Gunnlaugur Einarsson, börn þeirra: a) Bjarney Ingibjörg, sambýlismaður Árni Ingason, börn þeirra Brynja Sólrún og Hlynur Ingi. Úr fyrra hjónabandi á Bjarney Ingibjörg soninn Daða Má Guðmundsson. b) Einar, maki Barbara Gunnlaugsson dóttir þeirra Kolfinna Brá. Úr fyrra hjónabandi á Barbara dótturina Patrycju, c) Magnús. 3) Þórdís, f. 5.7. 1947, maki Halldór Guðmundsson. Synir Þórdísar úr fyrri hjónaböndum eru: Ólafur Jónasson, dóttir hans er Elísabet Ósk, Ágúst Guðmundur Atlason, sambýliskona Hrefna Jónsdóttir, sonur hans er Sverrir Úlfur og Atli Geir Atlason, sonur hans er Aron Viðar. Dóttir Halldórs er Helena, sambýlismaður Haraldur Halldórsson. 4) Sveinn f. 20.3. 1949 maki Bergljót Ása Haraldsdóttir, dætur þeirra: a) Þórdís, sambýlismaður Jozeph Guy England, með fyrri sambýlismanni á Þórdís dótturina Ásu Guðmundsdóttur. b) Ásdís, sambýlismaður Þorvaldur Þór Þorvaldsson.

Bjarney var virkur þátttakandi í starfi kvenfélaga á Ísafirði og sat m.a. í stjórn Kvenfélagsins Hlífar í mörg ár og var þar heiðursfélagi, hún var einn af stofnendum Kvenfélags Ísafjarðarkirkju og var formaður þess í nokkur ár. Hún söng til fjölda ára í Sunnukórnum og Kirkjukórnum á Ísafirði. Hún var félagi í Oddfellowstúkunni Þórey á Ísafirði. Bjarney vann lengst af á Vefstofu Guðrúnar Vigfúsdóttur hf. og var einn af eigendum hennar.

Útför Bjarneyjar verður gerð frá Ísafjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Eyja. Þegar við töluðum saman síðast varstu svo vongóð og mér fannst þú vera svo viss um að þú ættir betri líðan fram undan. Ég trúi því að svo sé, þrátt fyrir allt.

Þó að ég muni ekki eftir því, þegar við Lóló heitin, systir okkar, vorum skírð, sama daginn og þú fermdist, þá eru minningar mínar um þig margar, góðar og fjölbreytilegar. Ég get varla greint á milli minninga um þig og Guðmund Sveinsson, eftir að þið tókuð saman. Þess vegna verður þessi grein til minningar um ykkur bæði, þó að ég ávarpi þig sérstaklega.

Ég minnist þess að þú eignaðist svo fallegt grænt reiðhjól, þegar þú varst að vinna á sjúkrahúsinu. Mig langaði til að læra á hjól og þú leyfðir systur okkar að fara með mér niður í Túngötu og þar lærði ég að hjóla. Ég kunni ekki að stoppa, en allt fór vel. Síðan fékk ég hjólið oft að láni hjá þér á þessum tíma, í þínum fríum, þegar þið mamma sátuð saman að spjalli og störfum heima á Urðarvegi 11.

Ég man vel eftir því þegar þið Guðmundur giftust. Það var gaman að koma að Góustöðum. Barnið skynjaði vel þá reisn sem ríkti á heimilinu hjá þeim Guðríði og Sveini, tengdaforeldrum þínum.

Ef ég ætti að nefna eitt orð um þig þá væri það orðið ,,alúð". Þú lagðir svo mikla alúð við allt sem þú tókst þér fyrir hendur og ég veit að Pollý konan mín hreifst af þér strax við fyrstu kynni vegna gæsku þinnar og góðvildar í okkar garð og barnanna og sameiginlegra áhugamála ykkar, sem reyndust vera mörg.

Mér þótti það ævintýri líkast að koma til ykkar Guðmundar inn í Rafstöðina að Fossum í Engidal, þar sem Guðmundur var vélgæslumaður, en þar bjugguð þið fyrstu árin ykkar. Þetta var nokkuð langur göngutúr í þá daga fyrir stutta fætur. Þar var margt að skoða og Guðmundur gerði sér far um að fræða mig og systur okkar um þennan ævintýraheim sem mér fannst vera þarna og þú sýndir okkur blómin, gróðurinn og aðra fegurð í umhverfinu og hvernig börnin ykkar döfnuðu, fyrst Magni og svo Anna Lóa, síðan kom Þórdís eftir að þið fluttuð í nýja húsið á Engjaveginum. Ég man líka eftir því þegar Guðmundur var að steypa hleðslusteinana í húsið ykkar á frívöktum inni í Rafstöð. Það var einnig stórkostlegt að kynnast stöðvarstjóranum Jóni Guðmundssyni, sem var fyrsti stöðvarstjóri Rafstöðvarinnar að Fossum, konu hans, og dætrum sem voru á mínum aldri. Ég veit að þetta fólk var þér alltaf hugstætt, enda komu þær systur, Harpa og Gulla, fyrir fáum árum hingað til að hitta þig og gistu í Engidal. Þú fékkst mig til að sýna ykkur stöðina og voru þær himinlifandi að koma aftur til æskustöðvanna. Stærsta breytingin var að þeirra áliti sú, að nú sáust ljósin skær á Ísafirði, frá Engidal, en svo var ekki fyrir nærri 60 árum síðan.

Þó að ég væri lítill bógur á þessum tíma, þá hafði ég vilja til og fékk leyfi til að taka þátt í því þegar Guðmundur fór að byggja húsið ykkar, Engjaveg 24. Helsta verkefni mitt var að rétta úr gömlum nöglum með hamri, á steðja, þeir voru misjafnlega bognir. Þetta þótti mér skemmtilegt verkefni. Á þessum tíma var næstum ekkert efni fáanlegt. Þetta var fyrsta húsið sem var byggt á "Þórutúni". Þó að húsið væri frá upphafi með götunafni og númeri, þá var engin gata komin, - enginn Engjavegur. Ég man vel eftir mörgum vinnusömum mönnum, bræðrum Guðmundar, frændum hans og vinum ykkar, sem þarna voru að verki. Þarna voru engar vinnuvélar, en járnkarlinn, hakinn og skóflan voru til staðar, en þá voru líka til vinnuaðferðir sem gerðu þetta auðveldara og menn kunnu að beita þeim við þessar aðstæður. Þá reyndi á útsjónarsemi og hún var í ríkum mæli hjá þessum mönnum. Eina tækið sem ég man eftir við gröftinn á grunninum er þrífættur timburgálgi með sveif og með kló á vírendanum, sem klemmd var á stórgrýtið sem þurfti að hífa upp.

Það var gott að vera í návist og undir leiðsögn Guðmundar. Þess naut ég bæði á Netagerðinni, en ekki síður þegar byrjað var á byggingu háspennulínanna vegna Mjólkárvirkjunar. Guðmundur Sveinsson stýrði fyrsta vinnuflokki Rarik á Vestfjörðum við reisingu staura í 33 kV línunum. Hann var línuverkstjóri fyrsta sumarið, en þá var lítið að gera í netunum.

Við byrjuðum á Patreksfirði vorið 1956. Helsta hjálparhella Guðmundar var Óli frá Árbæ, sem er mikill verksnillingur. Þeir höfðu reynslu sem slíkir við byggingu Súðavíkurlínu 1955, en þar var efnisflutningur úr Rauðkollshvilft, upp á Rauðkoll vandasamt verkefni, sem þeir leystu af hendi með slíkum myndarbrag, að frægt varð á meðal línumanna.

Elsku Eyja. Það var ómetanlegt fyrir mig að eiga þig að á bernsku- og unglingsárunum, eiga börnin ykkar að félögum, njóta alúðar þinnar og umburðarlyndis og hafa Guðmund, þennan sterka persónuleika í nálægð.

Þegar Magni fæddist, fannst mér eins og ég eignaðist bróður. Þetta var mikilvægt fyrir mig þá, eina strákinn í kvennaskaranum á Urðarvegi 11. Þetta entist mér lengi og vel. Mér varð tíðförult á Engjaveginn í mörg ár og mætti alltaf þinni hlýju og umhyggju.

Einu sinni sem oftar, bankaði ég upp á á Engjavegi 24 á miðjum degi. Þá kom Guðmundur til dyra. - Þetta hlaut að vera eitthvað merkilegt. Guðmundur tók mér vel eins og ævinlega, en sagði: "Farðu heim, Jakob minn, og segðu mömmu þinni að hún Eyja sé búin að eignast dreng." Þessu átti ég ekki von á og varð mjög hissa. Ég fór heim og sagði mömmu tíðindin, en hún skammaði mig fyrir að segja ósatt og bað guð að hjálpa mér, en hún fór strax inn á Engjaveg. Þarna var Svenni kominn í heiminn.

Ég minnist þess, þegar Guðmundur hafði mig 15 ára gamlan árið 1952, með sér til Siglufjarðar. Ég kunni auðvitað ekkert í faginu, en hafði hnýtt net hjá honum í Hæstakaupstaðarhúsinu. Hann kenndi mér að skera úr neti, sauma og bæta, telja möskva á fellilínu og hvað þetta allt heitir. Ég lærði praktísk atriði, eins og það að talan 20 héti ,,strik", það var alltaf verið að telja eitthvað út. Svo voru mikilvægar mælieiningar notaðar, svo sem faðmur, alin, fet og þumlungur.

Guðmundur hafði aðsetur í herbergi í bragganum hjá Skapta í Nöf og þar sváfum við. Þarna á Siglufirði var margt af merku fólki, að mér fannst, bæði Ísfirðingum og öðrum, sem við fórum í heimsóknir til.

Það sem gerir mér þessa stuttu Siglufjarðardvöl minnisstæða, auk þess hve veðrið var gott, fjörðurinn fallegur og iðandi mannlífið, var það, að það var svo frjálst að vera einn með Guðmundi Sveinssyni. Ég kynntist honum á minn hátt. Guðmundur gat verið svolítið utan við sig stundum, þá var hann þungt hugsi og talaði við sjálfan sig og oftast nær var hann þá að skrifa eitthvað á blað. Þá hafði ég mig hægan og gerði mér eitthvað til dundurs.

Þegar best lá á Guðmundi, þá söng hann eða raulaði lagstúf við vinnuna, eða þegar við vorum tveir einir. Þetta þótti mér skemmtilegt, því að sumt af þessu voru lög sem þið systurnar á Urðarvegi 11 sunguð oft í gamla daga. Mér er minnisstæðast lagið ,, Nú andar hinn blíði blær, la-lí-la". Og ennþá man ég hvernig hann söng það.

Þegar ég fluttist aftur til Ísafjarðar, árið 1974, tókuð þið Guðmundur fjölskyldu minni opnum örmum. Það var gaman að koma heim og við Pollý og börnin nutum þess vel. Þið Pollý voruð alltaf bestu vinkonur og höfðuð mörg sameiginleg áhugamál, þrátt fyrir aldursmuninn, svo sem félagsmál, hannyrðir, garðrækt, og á tímabili vefnað. Ég minnist sérstaklega umburðarlyndis Guðmundar gagnvart ykkur Pollý. Þið Guðmundur komuð oft í heimsókn í Túngötuna til okkar og þá komust þið konurnar jafnan á flug í samræðunum. - Allt í einu segir þá Guðmundur, sposkur á svip: ,, Jæja kona, ertu ekki að koma? Við ættum að fara að fara." - Þið tókuð þessu vel, en framkvæmdinni var skipt í áfanga. Þið mjökuðuð ykkur fram á gang til að byrja með og hélduð áfram að tala þar, svo í næsta áfanga út á tröppur, en áður en tókst að kveðja, hafði Guðmundur gengið Túngötuna á enda og til baka aftur margoft, í ljósri sumarnóttinni.

En nú er komið að kveðjustund. Kærar þakkir til þín og Guðmundar fyrir samfylgdina á lífsleiðinni. - Blessuð sé minning þín og Guðmundar Sveinssonar. Kæri Magni, Anna Lóa, Þórdís og Svenni. Við Pollý og fjölskylda okkar, vottum ykkur og ykkar fjölskyldum innilega samúð.

Nú andar hinn blíði blær, la-lí-la.

Hann ber mér þinn óð, er rökkvar.

Hann leikur sér, ljúfa mær, la-lí-la.

Við lokkanna flóðið dökkva.

Þín vör er rauðar'i en rósin,

og augun ljúfar'i en ljósin,

og blærinn hann hvíslar hljótt að þér,

la-lí-la.

Við hittumst í kvöld við ósinn.

(Freysteinn Gunnarsson.)

Jakob Ólafsson.

Nei, ertu komin, hvað má bjóða þér? Og áður en þú gast nokkuð sagt fylltist eldhúsborðið af allskyns góðgæti sem hún amma lumaði á. Það var alveg sama á hvaða tíma maður leit inn, ekki mátti senda mann svangan heim. Við systkinin á Engjaveginum bjuggum við þau forréttindi að alast upp við hliðina á ömmu og afa. Því var maður oft "fyrir handan". Þar var píanóið sem ég byrjaði að læra á 6 ára gömul, töluboxið, ísinn með sultunni, harðfiskurinn í kjallaranum og prjónavélin. Þar voru gerðar tilraunir með hárklippingar og rakstur með misgóðum árangri.

Í kringum húsið var stór garður með mikið af fallegum gróðri sem amma hafði yndi af að hirða um og rækta. Seinna kom gróðurhúsið þar sem amma ræktaði m.a. jarðarber og rósir. Garðurinn var endalaus uppspretta ýmissa leikja okkar krakkana og hvergi fann maður betri felustaði.

Hún amma var flink í höndunum. Hún vann hjá Guðrúnu Vigfúsar á vefstofunni og óf m.a. kjóla og værðarvoðir sem seldar voru í búðinni hennar Guðrúnar. Á leiðinni heim úr skólanum leit maður oft við á Vefstofunni og fékk mjólk og mjólkurkex. Þar var ég oft spurð hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Og ekki stóð á svari: söngkona eins og amma og syngja í kirkjunni. Amma var mikil félagsvera og söng í kirkjukórnum og Sunnukórnum ásamt því að vera ein af stofnendum kvenfélagsins við kirkjuna. Marga sunnudaga tók hún mig með sér þegar hún söng í kirkjunni. Ég fékk þar sæti við hliðina á henni og sálmabók í hönd eins og fullgildur kórfélagi.

Einn daginn þegar ég 15 ára kemur hún til mín og segist ætla að bjóða mér söngtíma. Hér sé stödd söngkona að æfa kórana og ég hafi alltaf haft svo gaman af að syngja, hvort ég hafi ekki áhuga? Og þar með var framtíð mín ráðin; söngkona eins og amma og syngja í kirkju.

Hún amma var yndisleg manneskja. Hún var heilsteypt og hafði þessa jákvæðu lífssýn sem gerði það að verkum að þér leið alltaf vel nálægt henni. Það hjálpaði henni einnig í þeim veikindum sem hún átti í mestan part ævi sinnar. Víðsýni hennar og umburðarlyndi gagnvart okkur unga fólkinu sem lifum í hraða samfélagsins var aðdáunarverð. Hún fylgdist vel með okkur og studdi á sinn hægláta hátt.

Við systkinin á Engjaveginum kveðjum Eyju ömmu með þakklæti fyrir allt sem hún var okkur. Hvíl í friði, elsku amma.

Bjarney Ingibjörg,

Einar, Magnús.

Daginn eftir að amma dó skartaði Ísafjörður sínu fegursta henni til heiðurs. Fánarnir sem héngu um allan bæ rétt blöktu í golunni og allt var svo kyrrt og fallegt. Samt var allt svo breytt. Engin amma sem var hægt að kíkja til, tylla sér í græna sófann og njóta kyrrðarinnar og rólegheitanna. Við vorum alltaf velkomin og hún kippti sér ekkert upp við það þó að það heyrðist oft hátt í strákunum. Amma var alltaf tilbúin til að rétta hjálparhönd og hún gerði sér oft ferð til okkar í ýmsum veðrum. Þá sat hún hjá strákunum svo að mamman gæti skroppið út í búð og vildi helst fá að taka í húsverkin á meðan. Get ég ekki hjálpað eitthvað til? Var ekki óalgeng spurning hjá Eyju ömmu.

Nú er amma farin að hitta afa og langömmu og langafa og alla hina sem hún hefur ekki séð svo lengi. Við vitum að hún fylgist með okkur og gætir okkar, og þó að söknuðurinn sé erfiður þá lifir hún áfram í minningum okkar.

Halla, Þröstur, Andri Pétur, Steinn Daníel, Fróði Benjamín og Magni Jóhannes.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Okkur systur langaði með þessu greinarkorni að minnast ömmu Eyju og um leið senda samúðarkveðju til skyldmenna okkar heima á Íslandi, þar sem við erum tímabundið báðar búsettar erlendis.

Það var alltaf gott að koma til ömmu Eyju, sérstaklega eftir bílferðirnar löngu sem lagt var í á hverju sumri til Ísafjarðar. Hún tók ávallt á móti okkur með góðum mat, hlýju faðmlagi og brosi á vör. Við systurnar minnumst með hlýju þess tíma sem við eyddum á Ísafirði. Bátsferðir, veiðimennska, grillveislur og ættarmót áttu stóran þátt í gleðinni sem við tengjum þessum ferðum en amma Eyja var þó miðpunkturinn í þessu öllu saman. Hún var alltaf í góðu skapi og sama hvað gekk á hjá krakkaskaranum þá varð hún aldrei reið. Við minnumst þess ekki að hún hafi nokkurn tíma hækkað róminn eða byrst sig við okkur og það gerði hana að einstakri manneskju sem við munum aldrei gleyma.

Það fór vel um okkur á Engjaveginum og ótal klukkustundum var varið í að lesa Heimilistímann sem afi hafði látið binda inn á sínum tíma. Heitir "bullar" voru ávallt í boði ásamt köldu mjólkurglasi og gott var að sitja inni í eldhúsi hjá ömmu og láta fara vel um sig ef ekki viðraði til útiveru. Eftir að amma fékk bíl var hún alltaf til í að fara í bíltúr og sýna okkur nánasta umhverfi Ísafjarðarbæjar. Hún fór margar ferðir upp á Seljalandsdal, í gegnum göngin og út í Hnífsdal og sagði okkur alltaf skemmtilegar sögur frá stöðunum og fólkinu sem bjó þar. Eftir að við fengum bílpróf vildi hún ólm lána okkur bílinn svo við gætum sjálfar valið leiðina og tekið þá með sem okkur lysti.

Elsku amma, við vonum að þér líði vel hjá afa og við munum ávallt hugsa til þín með hlýju og þökk í huga. Þú varst alltaf stolt af þínu fólki, sama hvað það tók sér fyrir hendur og trúðir á getu og hæfileika þess. Vegna þín mun Ísafjörður ávallt eiga sérstakan stað í minningum okkar.

Þórdís og Ásdís Sveinsdætur.

Nú þegar vegir okkar Eyju skiljast um sinn, langar mig til að minnast hennar með nokkrum orðum.

Eyja var elst okkar systkina, að eðlisfari fórnfús og óeigingjörn og hvíldi því mikil ábyrgð á hennar herðum.

Að alast upp á kærleiksríku heimili í stórum systkinahópi má kallast forréttindi þar sem samheldnin ríkti.

Ég minnist þess í upphafi síðari heimstyrjaldar þegar ég var að hefja mína skólagöngu 7 ára, að fjárhagur heimilisins leyfði ekki þann munað að keypt yrði skólataska fyrir mig. Á þeim árum var ekkert keypt umfram nauðsynjar og var því brugðið á það ráð að ég fengi heimatilbúna skólatösku. Í fyrstu lét ég þetta gott heita enda mikil alúð lögð við saumaskapinn. Fljótlega hvarf allur glansinn af töskunni hjá mér því ég heyrði einn skólafélaga minn hafa orð á því að mín taska væri ekki keypt út úr búð. Auðsjáanlegt var að einhver munur var þarna á sem sjö ára telpukjáninn hafði ekki komið auga á. Spéhræðslan og hégómagirnin náði yfirhöndinni hjá mér og ég varð óánægð með töskuna. Einhver unglingurinn hefði nú ekki hlustað á slíkt frekjuvæl í yngri systur sinni en Eyja var einstök manneskja, gat ekkert aumt séð. Næst þegar hún fékk útborgað kaupið sitt úr "vistinni" fór hún og keypti skólatösku handa mér. Hvað það gladdi mig.

Þegar ég rifjaði þetta upp með Eyju eitt sinn var hún ekkert nema hógværðin, brosti bara og sagði: Ég man bara ekkert eftir þessu Adda mín, en ánægjulegt var þetta samt. Að láta gott af sér leiða var eins og samofið henni sjálfri.

Eyja var ákaflega félagslynd, var virkur þáttakandi í ýmsum félagasamtökum hér í bæ meðan heilsa og kraftar leyfðu, svo sem Kvenfélaginu Hlíf, Oddfellow-stúkunni, Kvenfélagi kirkjunnar og Slysavarnafélaginu. Hún var söngelsk og söng í Sunnukórnum og Kirkjukórnum um áratuga skeið.

Nú er Eyja mín komin á annað tilverustig allof fljótt, þá leið sem við öll förum að þessari jarðvist lokinni.

Við Siddi þökkum Eyju fyrir samveruna og áratuga tryggð við okkar fjölskyldu.

Við biðjum guð að vaka yfir börnum hennar og fjölskyldum þeirra, þeim Magna, Önnu Lóu, Þórdísi og Svenna og sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Arndís Ólafsdóttir.

Við fráfall ástvinar er eins og eitthvað bresti innra með manni. Sá sem lifað hefur lífi sínu í vináttu og kærleika skilur eftir sig minnisvarða sem mölur og ryð fá ekki grandað. Það er ómetanlegt að hafa átt svo kærleiksríka og geðgóða systir eins og Eyja var, hún var elst af okkur systkinunum og viðmótið við okkur yngri voru slík að það var ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir henni.

Eyja var mikið fyrir tónlist og var mjög söngelsk.Hún hafði líka mjög fallega söngrödd og var lengi í Sunnukórnum á Ísafirði,einnig spilaði hún á píanó sér til ánægju.

Listrænir hæfileikar hennar nutu sín vel við blómarækt og hannyrðir. Það var gaman að ganga með henni um garðinn á Engjaveginum þegar blómin voru í fullum skrúða. Hún hafði komið öllu svo smekklega fyrir og naut þess að fræða mann um nöfnin á öllum blómunum.

Eyja var lánsöm, hún eignaðist elskulegan eiginmann, hann Guðmund Sveinsson frá Góustöðum, og fjögur yndisleg börn. En því miður lést hann 1987. Það voru allir velkomnir á heimili þeirra og þangað var gott að koma og þar leið öllum vel.

Í haust sem leið þegar ég kom í stutta heimsókn til Ísafjarðar sá ég að heilsan var ekki góð hjá Eyju, en hún var ekki að hvarta, hún bar sig alltaf svo vel, en þrátt fyrir það bauð hún mér í bíltúr um bæinn og heimsóknir á heimili Þórdísar og Dúdda og einnig á heimili Önnu Lóu og Gulla. Fyrir mig var þetta ómetanlegt.

Ég vil votta börnum tengdabörnum barnabörnu og öðrum ástvinum mína dýpstu samúð.

Ég vil þakka systur minni samfylgdina og allt það góða og jákvæða sem hún skildi eftir sig.

Blessuð sé minning hennar. Þín systir

Guðrún.

Daginn áður en sólin var vön að koma inn um gluggann á Engjaveginum í faðmi fjalla blárra eftir nær tveggja mánaða hvíld og daginn farinn að lengja á ný, kvaddi hún þennan heim, sennilega var hún undir það búin að vissu leyti, en við vonuðum að hún ætti eftir að vara með okkur lengur.

Á Engjaveginum bjó Eyja (eins og hún var oftast kölluð) ásamt sínum elskulega eiginmanni, föðurbróður mínum Guðmundi Sveinssyni, mest alla sína búskapartíð og það var oft glatt á hjalla í systkinahópnum með Magna, Önnu Lóu, Þórdísi og Sveini, síðar bættust við barnabörnin við og voru þau augasteinar þeirra.

Ég á margar góðar minningar frá skólaárum okkar Þórdísar, alltaf var gott að koma í eldhúsið og fá hressingu, þótt ég væri svolítið feimin að koma þar fyrst inn, en það rann fljótt af, því þau tóku mér opnum örmum og var þetta heimili næstum því mitt annað heimili. Eyja var mikil handverkskona, kom það glöggt fram þegar hún vann á vefstofu Guðrúnar Vigfúsdóttur hversu nákvæm og vandvirk hún var.

Hún lét félagsmál mikið til sín taka, hún var virkur félagi og stjórnarkona mörg ár í Kvenfélaginu Hlíf og einn af stofnendum Hlífarkórsins og söng með okkur þar í mörg ár. Hún var einnig virkur félagi í Kvenfélagi Ísafjarðarkirkju og lagði mikið starf þar að baki. Einnig var hún í Oddfellowstúkunni Þóreyju.

Fyrir öll þessi störf og mörg önnur í okkar litla bæjarfélagi ber að þakka af alhug, því við vitum að öll störf sem kvenfélagskona vinnur eru unnin í sjálfboðavinnu, en eru alltof oft lítils metin. Hún vann sín störf af heilindum og lagði oft fram útrétta sáttarhönd og eiga margir eftir að sakna hennar góðu hollráða.

Elsku Eyja, ég vil þakka þér þína miklu tryggð sem þú sýndir mér í gegnum árin, þakka þér samfylgdina á lífsins leið.

Yfir veg þinn, öðlingskona,

unaðsgeislar munu skína.

Vefjast þræðir yls og elsku

inn í bjarta minning þína.

Ég og fjölskylda mín sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Kristjana Sigurðar.