Róbert Birkir Viggósson fæddist í Reykjavík 9. maí 1976. Hann lést 23. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans eru Viggó Rúnar Einarsson og Elísa Berglind Adólfsdóttir. Foreldrar Viggós eru Einar Klemensson og Hrefna Finnbogadóttir í Prestshúsum í Mýrdal. Foreldrar Elísu eru Adólf Sigurgeirsson, búsettur í Grindavík, og Stefanía Guðmundsdóttir. Fósturfaðir Elísu er Eiríkur Einarsson, en þau búa í Hallskoti í Fljótshlíð.

Systkini Róberts eru: a) Jón Ingi, f. 30.3. 1971, sonur hans er Daníel Ingi, f. 26.7. 1998, b) Lovísa Dögg, f. 7.3. 1979, gift Sigurði Rúnari Kristbjörnssyni, sonur þeirra er Viggó Rúnar, f. 10.7. 2000, og c) Hlynur Freyr, f. 5.1. 1986.

Útför Róberts verður gerð frá Reyniskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Kæri Róbert.

Ég skrifa þessa minningu sem bréf til þín. Því miður fórstu allt of fljótt og ekki gafst tími til að kveðjast. Þín er sárlega saknað. Þessa síðustu daga hef ég rifjað upp bæði ein og með ástvinum þínum ýmsar góðar stundir með þér. Það sem stendur upp úr þegar þín er minnst er glaðværðin, brandararnir og uppátækin. Það var alltaf stutt í spaugið hjá þér og hugdetturnar sem þú fékkst voru ótrúlegar. Mér detta til dæmis í hug ýmsar matreiðslutilraunir sem voru mislystilegar og alls konar sprell. Til dæmis hefði eftirfarandi verið dæmigerð hugdetta hjá þér: ,,Hvernig væri nú að prófa að renna sér niður þessa bröttu brekku á snjóþotu og snúa öfugt?" Einnig hafðirðu endalaust gaman af því að stríða og það vissu ég og Lovísa Dögg systir þín mætavel þar sem við vorum nú stundum fórnarlömb þeirrar stríðni en þó kom fyrir að við værum samsekar. Uppátækin voru af ýmsum toga. Hjá mömmu og pabba er til gömul mynd af þér, Lovísu og mér þar sem við erum í sundfötum og búin að troða okkur í þvottabala fullan af vatni úti í garði. Þetta var ,,sundlaugin" okkar og skemmtum við okkur konunglega. Það var frekar fyndið að sjá þennan ,,stóra" bala mörgum árum síðar og var hann töluvert öðruvísi en í minningunni - svona 20 númerum minni eða svo.

Þú varst mikill dýravinur og naust þín vel í sveitinni hjá ömmu og afa. Mér varð hugsað til samræðna okkar þegar þú fékkst far með mér á Selfoss síðast og við rifjuðum upp skemmtilega tíma frá því að þú og Jón Þór frændi voruð í sveitinni. Þá var nú ýmislegt brallað. Einnig ræddum við um fjölskylduna, sameiginlega vini og kunningja og fleira og ferðin leið eins og örskot. Það var alltaf gaman að spjalla við þig og eins og fyrr segir þá var oft stutt í grínið. Þú varst ávallt hress og léttur í lundu þegar þú komst í heimsókn í Víkina og ég man eftir þér spjallandi, hlæjandi, kurteisum, spilandi á píanóið og gítarinn eða lesandi. Þú varst hinn besti drengur sem því miður villtist af leið og er það synd að þú skulir ekki hafa fengið að blómstra því þú varst svo sannarlega mörgum góðum kostum gæddur. Því miður er umhverfið ekki öllum hliðhollt og getur reynst sumum erfiðara en öðrum. Líf manns byggir að mestu á því sjálfstrausti og sjálfsáliti sem maður hefur og einelti getur haft afdrifaríkar afleiðingar og tel ég að í þínu tilfelli megi rekja mikið af ógæfu þinni þangað. En þrátt fyrir erfiðleika í lífi þínu þá varstu ávallt glaðlegur og ræðinn en depurð þína faldirðu eflaust á bak við gleðina. Ég kýs að minnast þín eins og þú varst í raun skapaður - glaðlyndur, góðhjartaður og elskulegur frændi sem alltaf var gaman að spjalla við.

Ég vona að þú munir nú finna frið og gleði í sálu þinni. Ég og Þorgeir biðjum kærlega að heilsa þér, elsku frændi, og vottum fjölskyldu þinni okkar dýpstu samúð.

"Dáinn, horfinn" - harmafregn!

hvílíkt orð mig dynur yfir!

En eg veit að látinn lifir;

það er huggun harmi gegn.

Hvað væri annars guðleg gjöf,

geimur heims og lífið þjóða,

hvað væri sigur sonarins góða?

Illur draumur, opin gröf.

(Jónas Hallgrímsson.)

Þín frænka,

Hrefna Sigurjónsdóttir.

Elsku frændi.

Það er sárt að þurfa að kveðja þig svona allt of fljótt. Mér finnst ég alltaf hafa átt svolítið í þér síðan þú varst lítið barn. Þú komst oft til mín ásamt Lovísu systur þinni. Stundum til að leika við Hrefnu frænku ykkar, sem er á svipuðu reki, og stundum var ég að passa þig. Svo liðu árin og þú fluttist til Selfoss ásamt fjölskyldu þinni. Samt áttir þú alltaf heima í Mýrdalnum og varst mikið hjá afa þínum og ömmu í Presthúsum. Það lýsir sér vel í ljóðinu sem þú ortir um Mýrdalinn hvar þér leið best. Ég var að skoða fleiri ljóð sem þú samdir og segja þau manni margt. Þú virtist eiga svo gott með að tjá þig í rituðu máli.

Líf þitt var ekki alltaf dans á rósum, elsku Róbert minn. Þú hafðir fengið að kynnast hinum harða heimi en þú áttir líka þínar góðu stundir. Þú varst duglegur í vinnu og vel liðinn starfskraftur. Fyrir nokkrum árum varstu að vinna í Víkurskála og síðan í verslun K.Á. hér í Vík. Margir viðskiptavinir söknuðu þín úr búðinni. Þú þóttir sérstaklega lipur og skemmtilegur í þínu starfi. Þú varst músíkalskur og hafðir til dæmis gaman af að spila á gítar. Þegar þú komst til okkar fórstu oftast að píanóinu og spilaðir á það eða gítarinn minn.

Já, Róbert minn, við eigum eftir að sakna þín sárt. Þú varst svo góður, einkum við litlu frændur þína. Þeim fannst þú svo skemmtilegur og kunnu vel að meta þína góðlátlegu stríðni en það var alltaf stutt í glettnina hjá þér.

Elsku Róbert minn. Ég veit það verður tekið vel á móti þér þar sem þú varst einstakt ljúfmenni og vildir öllum vel. Þá bið ég góðan Guð að styrkja foreldra þína, systkini og fjölskyldu í þeirra miklu sorg.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi Morthens.)

Þín frænka,

Kristín Einarsdóttir.

Undir háu hamrabelti

höfði drúpir lítil rós

þráir lífsins vængja víddir

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan

hjartasláttinn rósin mín

er kristaltærir daggardropar

drúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað

krjúpa niður kyssa blómið

hversu dýrlegt fannst mér það.

Finna frá þér ást og unað

yndislega rósin mín

eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín

(Guðmundur G. Halldórsson.)

Takk fyrir allt, elsku frændi,

Guðrún Hildur og Freyja Huld.

Að vera sterkur inni í sér er ekki öllum gefið og það þurfa ekki allir að vera það. Í heiminum munu alltaf verða til þessar andstæður; sterkt-veikt. Ég trúi því, að það sé þannig svo bætt geti hvort annað. En það tekst ekki alltaf og einhvern tilgang hlýtur það að hafa.

Elsku Róbert, ég þakka þér samfylgdina. Inni í þér varstu góður og af lífshlaupi þínu er hægt að læra.

Góða nótt og Guð geymi þig.

Ég votta öllum mína dýpstu samúð.

Signý.

Elsku frændi, vinur og vinnufélagi.

Það er með mikilli sorg og söknuði sem ég kveð þig með þessum fátæklegu orðum. Þvílíkur gullmoli sem þú varst, enda af Presthúsaættinni eins og þú sagðir alltaf. Það var mikið happ fyrir okkur í Stjörnublikk að fá þig í vinnu, þar sem betri og ljúfari mann var vart hægt að finna. Dugnaðurinn og glettnin var þitt aðalsmerki, glettnina sem þú erfðir í svo ríkum mæli frá afa og ömmu í Presthúsum, sem var sveitin, sem átti hug þinn allan.

Alltaf var gaman að fá þitt glaðlega bros í heimsókn og er mér minnisstætt þitt síðasta innlit, en þá varstu að kenna Bjarka á gítarinn. Þeirri mögnuðu stund gleymum við feðgarnir aldrei og varðveitum þá dýrmætu minningu í huga okkar.

Ekkert er svo sterkt að það bogni ekki eða brotni. Strax frá barnsaldri þurftir þú að líða fyrir stærð þína og gerðir alla ævi. Það mótlæti var án efa ein af ástæðum þess að þú villtist af leið sem þú rataðir ekki inn á aftur, kæri vinur.

Í mínum huga varstu stór maður með stórt hjarta.

Axel Geirsson.

Kæri vinur, enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Nú ert þú horfinn héðan og skilur eftir tómarúm meðal okkar. Því þó þú ættir við ýmsa erfiðleika að stríða, áttir þú þá góðu eiginleika að geta glatt vinnufélaga þína með þínum skemmtilega húmor og hnyttilegum tilsvörum. Ungur maður, góðum gáfum gæddur, heiðarlegur og trúr sínum vinum. En þú gast líka svarað fyrir þig, ef þér fannst þú óréttlæti beittur en þú varst líka dulur og talaðir ekki mikið um þína erfiðleika. Við sem kynntumst þér þetta ár sem við vorum vinnufélagar, söknum þinna samvista, en vonum að þér líði betur núna og gleðjir einhverja aðra með skemmtilegu bröndurunum þínum.

Hvar sem lítið kærleikskorn

nær að festa rætur

þar fer enginn út í horn

einmana og grætur.

Fyrir hönd starfsmanna Stjörnublikks,

Einar Bjarni Bjarnason.