Guðmundur Kristján Moritz Sigurðsson fæddist í Reykjavík 17. október 1947. Hann lést af slysförum á Seyðisfirði 21. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Karl Sigurður Sigfússon, f. 13. ágúst 1923, d. 16. maí 1987, og Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 9. ágúst 1927, d. 27. janúar 1985. Systkini Guðmundar eru: Guðbjörg Aðalheiður Moritz, f. 28. desember 1950, Olga Viktoría Moritz, f. 6. júní 1953, Svanhvít Moritz, f. 21. janúar 1955, María Moritz, f. 5. maí 1959, og Sigfús Óli Moritz, f. 30. nóvember 1962.

Guðmundur kvæntist 25. desember 1971 Sigríði Jóhannesdóttur ættaðri frá Ísafirði. Þau bjuggu í Keflavík til 1975, fluttu þá til Hafnar og bjuggu þar síðan. Börn Guðmundar og Sigríðar eru: 1) Jóhannes Hjalti Danner, f. 28. september 1970, kvæntur Vigdísi Ragnarsdóttur, f. 13. júlí 1971, og eru börn þeirra Ragnar Ingi, Kristján Már og Sigríður. 2) Karl Sigurður, f. 21. febrúar 1972, kvæntur Önnu Maríu Kristjánsdóttur, f. 3. apríl 1972, og eru börn þeirra Guðmundur Kristján og Katrín María. 3) Margeir Aðalsteinn, f. 24. júlí 1975, sambýliskona hans er Sigrún Bessý Guðmundsdóttir, f. 28. febrúar 1980, og er dóttir þeirra Margrét Lív. 4) Ingibjörg, f. 9. ágúst 1979, sambýlismaður hennar er Sævar Gunnarsson, f. 22. apríl 1981. 5) Guðmundur Kristján, f. 22. janúar 1988.

Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum að Skálafelli í Suðursveit og flutti með þeim til Hafnar 1965.

Hugur Guðmundar hneigðist fljótlega að sjómennsku og var það hans aðalstarf frá því skyldunámi hans lauk og um tíma rak hann eigin útgerð ásamt sonum sínum. Hann var skipverji á Jónu Eðvalds SF 20 þegar hann lést.

Útför Guðmundar fer fram frá Hafnarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Þegar Mummi og Sigga komu til okkar hjónanna stuttu eftir áramótin til að eiga notalegt spjall yfir kaffibolla, grunaði mig ekki að það yrði í síðasta skipti sem ég hitti Mumma mág minn í þessu lífi.

Í mínum huga voru Mummi og sjórinn óaðskiljanlegir. Sjórinn var hans líf og yndi og á sjónum eyddi hann öllum sínum starfsaldri. Að lokum tók sjórinn hann svo til sín. Kannski var það honum að skapi, svo nátengdur sem hann var sjónum, en þetta gerðist bara allt of snemma.

Báðir ólumst við Mummi upp í sveit, sinn í hvorri sveitinni þó, hann í Suðursveit en ég á Mýrum. Við kynntumst sem unglingar, eins og gerist og gengur, þegar við hittumst á böllum eða við önnur tækifæri og urðum fljótt ágætis kunningjar. Við brölluðum margt á þessum árum og lentum í ýmsum eftirminnilegum ævintýrum sem gaman var að rifja upp seinna. Eins og ósjálfrátt þróaðist þessi kunningsskapur okkar Mumma upp í vináttu sem aldrei hefur fallið skuggi á.

Mummi var elstur í hópi sex systkina. Þegar ég kynntist Guggu systur hans og við fórum að búa saman, sá ég fljótt að hann var góður "stóri bróðir". Þau, elstu systkinin, voru ákaflega samrýnd og hann tók mér vel sem verðandi mági.

Mesta happ í lífi Mumma var þegar hann fór til Keflavíkur og kynntist henni Siggu sinni, þessari elskulegu konu, sem hann svo giftist árið 1971. Fyrstu árin bjuggu þau í Keflavík en fluttu til Hornafjarðar 1980 og byggðu sér einbýlishús. Fjölskyldan stækkaði fljótt svo það var marga munna að metta. Þá kom sér vel að húsbóndinn var duglegur að stunda sjóinn og dugnað hefur Mumma aldrei skort. Þrátt fyrir að börnin yrðu fimm, öll fjörug og fyrirferðarmikil, sást aldrei fis á heimilinu, það sá húsmóðirin um, því þrifnari kona en hún Sigga finnst varla á jarðríki. Mummi var góður heimilisfaðir og þau hjónin samhent í að skapa gott og fallegt heimili fyrir sig og börn sín.

Eftir að við Mummi gerðumst virðulegir heimilisfeður var öllu meiri ró yfir kunningsskap okkar heldur en á unglingsárunum. Síðustu árin löbbuðum við hjónin stundum til Mumma og Siggu, eða þau til okkar, til að spjalla yfir kaffibolla. Það var alltaf gaman að spjalla við þau og alltaf um nóg að tala. Þó að starfsvettvangur okkar Mumma væri gjörólíkur og áhugamálin líka, höfðum við alltaf nóg að tala um. Mummi hafði ákveðnar skoðanir á flestum hlutum, lét þær ópart í ljós og hafði gaman af að rökræða. Þá hló hann annað slagið sínum stutta lága hlátri og brosti þess á milli. Reyndar var Mummi oftast brosandi og ég minnist þess ekki að ég sæi hann skipta skapi. Þegar ég hugsa til baka finnst mér að þessar notalegu heimsóknir okkar hefðu mátt vera þéttari. Ég sakna þeirra stunda virkilega.

Ég og fjölskylda mín sendum Siggu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur og vonum að sá sem öllu ræður styðji þau og styrki í sorginni.

Sigurður Örn Hannesson.

Með nokkrum fátæklegum orðum vil ég minnast frænda míns og vinar, Guðmundar Sigurðssonar, eða Mumma eins og hann var alltaf kallaður. Við Mummi kynntumst þegar móðir mín, föðursystir Mumma, fór með mig í heimsókn frá Eskifirði á sínar gömlu heimaslóðir að Skálafelli í Suðursveit, þar sem Mummi ólst upp ásamt systkinum sínum. Í sveitinni var sumar og sól og í nógu að snúast og það er mér enn í fersku minni hvað þessi frændi minn var stór og sterkur og hvað hann kunni vel til allra verka. Hann var greinilega mikill fjörkálfur, hvers manns hugljúfi og í miklu uppáhaldi hjá ömmu, sem nánast sló eign sinni á strákinn. Krakkarnir á bænum litu upp til Mumma og kunnu því vel að láta hann ráða ferðinni í leik og starfi.

Nokkrum árum síðar, þegar Mummi og fjölskylda hans voru flutt úr sveitinni og til Hafnar í Hornafirði bjó ég á heimili foreldra hans og systkina vetrarlangt og gekki í unglingaskóla á Höfn. Mummi var þá orðinn háseti á aflaskipinu Gissuri hvíta, en á línuvertíðinni var hann í landi og beitti og á þeim tíma vorum við herbergisfélagar á Skólabrú. Haft var á orði að Mummi væri fljótastur allra sjómanna á Hornafirði að beita línu og ljóst að hann var mjög eftirsóttur í skiprúm af útgerðarmönnum á Höfn, sem vel kunnu að meta ungan og duglegan sjómann. Þennan vetur höfðum við frændurnir mikið saman að sælda og ég fékk að kynnast því hversu ljúfur og góður drengur hann var. Ég leit upp til Mumma og var montinn af því að eiga hann að vini, en verst þótti mér að vera fjórum árum yngri og geta ekki verið með honum á sjó.

Minning mín um Mumma er fyrst og fremst bernskuminning, en þrátt fyrir það er myndin af honum í huganum afar skýr. Hár og grannur, dökkhærður strákur með stríðnisglampa í augum og hvers manns hugljúfi, það var Mummi og þannig mun ég alltaf minnast hans.

Ég sendi Siggu og börnunum, barnabörnum, systkinum og öðrum ættingjum mínar innilegustu samúðarkveðjur og vona að fögur minningin um góðan dreng lini sorgina og veiti ykkur öllum styrk.

Benedikt Sveinsson.