Þórhildur Björg Kristjánsdóttir húsmóðir fæddist að Miðgörðum í Grímsey 31. maí 1927. Hún lést á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 21. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Þórný Jóhannesdóttir húsmóðir, f. 20. ágúst 1896, d. 15. febrúar1935, og Kristján Guðmundur Eggertsson kennari og starfsmaður KEA, f. 1. febrúar 1893 d. 8. júní 1963. Systkini Þórhildar voru: Eggert Örn, f. 4. febrúar 1923, d. 4. september 1929; Sigurður Jóhannes, f. 5. júní 1924, d. 31. júlí 1924; Sigríður Jóhanna, f. 20. júlí 1925, d. 29. ágúst 1993; Eggert Örn, f. 27. október 1928, d. 11. júní 1965; Willard Matthías, f. 1. ágúst 1930, d. 27. júlí 1947, og Guðrún Anna, f. 2. september 1931. Frá nokkurra vikna aldri ólst Þórhildur Björg upp hjá Sigríði Stefánsdóttur, f. 10. nóvember 1888, d. 25. maí 1978, og Jóhannesi Þórarinssyni, f. 29. ágúst 1876, d. 3. júní 1964, bændum í Garði í Kelduhverfi í N-Þingeyjarsýslu, við mikið ástríki.

Þórhildur Björg stundaði nám á Héraðsskólanum á Laugum og í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Hinn 9. janúar 1950 eignaðist hún dótturina Margréti Sigríði, hjúkrunarfræðing, með Árna Þór Þórarinssyni Víkingi, f. 19. apríl 1925. Hinn 30. desember 1954 giftist Þórhildur Björg Jóhanni Kristni Jónssyni bókhaldara á Húsavík, f. 6. október 1924, d. 15. júní 1994. Hann gekk Margréti í föðurstað. Í byrjun búskapar þeirra tók Jóhann að sér kaupfélagsstjórastöðu, fyrst á Þingeyri við Dýrafjörð, síðan á Þórshöfn á Langanesi og þá á Raufarhöfn og héldu þau heimili á þessum stöðum. Árið 1964 varð Jóhann framkvæmdastjóri fyrir Fiskiðjusamlag Húsavíkur og Síldarverksmiðju ríkisins á Húsavík og flytja þau þangað en höfðu þá þegar byggt húsið á Ketilsbraut 5, þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Hinn 23. október 1977 eignaðist Margrét Sigríður dótturina Hönnu Björgu með Guðmundi Karli Karlssyni, f. 6. nóvember 1941. Þórhildur Björg og Jóhann tóku mikinn þátt í uppeldi hennar. Hanna Björg er í sambúð með Hallgrími Guðmundssyni frá Vopnafirði, f. 11. október 1968.

Þórhildur Björg var að atvinnu fyrst og fremst húsmóðir á heimili sem alla tíð var erilsamt og gestkvæmt en um nokkurra ára skeið vann hún einnig við næturvaktir á elliheimilinu á Húsavík og síðan við ræstingastörf á skrifstofuhúsnæði sjúkrahússins á sama stað.

Útför Þórhildar Bjargar verður gerð frá Húsavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Kem ég nú að kistu þinni,

kæra amma mín,

mér í huga innst er inni

ástarþökk til þín.

Allt frá fyrstu æskustundum

átti ég skjól með þér

í þínu húsi þar við undum,

þá var afi líka hér.

Kem ég nú að kveðja ömmu

klökkvi í huga býr.

Hjartans þökk frá mér og mömmu

minning lifir skýr.

Vertu sæl í huldum heimi

horfnir vinir fagna hljótt

laus við þrautir, Guð þig geymi

góða amma sofðu rótt.

(Helga Guðmundsdóttir.)

Ég er svo lánsöm að hafa átt yndislegar ömmur, sem skilja allt. Þess vegna gat föðuramma mín Helga Guðmundsdóttir gert þetta fallega ljóð í minn stað, til móðurömmu minnar Dúllu, sem er eins og talað út úr mínu hjarta.

Nú er elskuleg amma mín lögð af stað í ferðina miklu. Við hin bíðum okkar lestar, því þetta er jú aðeins spurning um komu- og brottfarartíma.

Samband mitt við ömmu hefur frá fyrstu tíð verið náið. Stundum svolítið erfitt, en engu að síður afskaplega lærdómsríkt og gefandi.

Undanfarið hafa allar mínar hugsanir verið á einn veg. Það eru ekki allir sem geta horft til baka og hugsað að þeir hafi átt bestu ömmu í heimi. Hún gaf mér mikilvægustu gjöf lífsins: Skilyrðislausa ást og vissu um að fá fölskvalausan styrk og svör. Amma var aldrei pirruð þegar mér fannst heimurinn vera að hrynja. Sagði bara með hlýju í röddinni: "Gráttu bara, það léttir...", lofaði mér að gráta, strauk vanga og hjálpaði mér að sjá björtu hliðarnar á tilverunni.

Þegar ég hugsa til ömmu get ég með sanni sagt að ég vil verða eins og hún; geta alltaf fundið eitthvað með kaffinu og spjallað! Fyrir utan alla hina mannkostina. Amma bar virðingu fyrir lítilmagnanum og var mikill dýravinur, hún elskaði náttúruna og var mikill ljóðaunnandi. Hún reyndi að brýna fyrir mér að dæma ekki fyrirfram og muna að það væri hjartalagið sem skipti máli. Mikið óskaplega var ég líka stolt af ömmu í veikindum hennar. Baráttuandinn og lífsviljinn vona ég að erfist.

Ég kveð ömmu með orðunum hennar: "Allt hið góða í heimi haldi í hönd á þér og með þér sé."

Þín "hjartakolla ömmu sín",

Hanna Björg Guðmundsdóttir.

Elsku Dúlla frænka. Margar hugsanir fara í gegnum huga minn þegar ég hugsa til þín á þessari stundu. Í öllum regnbogans litum koma til mín samverustundir sem við áttum. Þú varst svo margbrotin þannig að ég skil vel alla þessa liti. Efst í huga mér er þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa fengið að þekkja þig.

Þegar ég var barn setti ég samasemmerki milli þín og nammihlaupbangsa. Þú hafðir nefnilega einstakt lag á því að lauma gotti í lófa manns, hvar og hvenær sem var, hvað sem hinir fullorðnu sögðu. Alltaf var gott að koma til þín, hlýjan sem fylgdi þér fyllti mann eitthvað svo mikilli gleði. Og gerir enn.

Þegar amma dó fyrir tíu árum tókst þú svolítið í mínum huga við hennar hlutverki. Þá tengdumst við sterkum böndum. Eitt sumarið eftir það fékk ég far með þér frá Húsavík til afa á Kópaskeri. Þessi ökuferð er algerlega ógleymanleg. Við töluðum alla leiðina og þurftum oft að stoppa til að komast að kjarna málsins. Við vorum líka fjóra klukkutíma á leiðinni og var fólk farið að undrast um okkur, því þetta er jú bara klukkustundar leið.

Við vorum ekkert að flýta okkur, það er líka ekkert hægt að flýta sér að kryfja margbreytileika lífsins. Þarna gafst þú mínum unga huga svolitla innsýn í raunveruleika lífsins. Náðir til mín, unglingsins, eins og enginn hafði áður gert. Þú hafðir eitthvað svo einstakt lag á því að fá mann til að hlusta.

Þegar árin liðu hittumst við kannski ekki svo oft, en böndin á milli okkar breyttust ekki. Speki þín varð hluti af mér, og við gátum talað saman endalaust þegar við hittumst. Við vorum vinkonur og alveg óhræddar við að vera hreinskilnar hvor við aðra. Þegar að því kom að ég taldi mig hafa eitthvað annað að segja en þú, hafa meira vit og jafnvel hafa réttari skoðanir en þú, þá brostir þú bara og sagðir mér að bíða róleg, þú hefðir nú lifað lengur en ég. Og það var rétt hjá þér. Svo hlógum við saman, síðast ekki alls fyrir löngu.

Í huga mínum og hjarta átt þú sérstakan stað og þar muntu alltaf vera. Nú ertu komin til Jóhanns þíns, kannski örlítið fyrr en þú ætlaðir þér. En vegir lífsins eru oft öðruvísi en maður ætlar að hafa þá, það sagðir þú mér.

Það þýðir samt ekki að maður eigi ekki að leggja sig fram um að lifa sáttur. Það gerðir þú og það mun ég líka reyna. Þú gafst og munt alltaf gefa lífinu lit. Og gleðin sem þú gafst mér, með speki þinni og gamansemi, mun alltaf fylgja mér og veita mér styrk. Ég mun samt alltaf sakna þess að sjá glettnina í augum þínum og heyra hlátur þinn.

Ég og mamma þökkum þér allt.

Elsku Margrét og Hanna Björg, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð, megi minningarnar um einstaka mömmu og ömmu veita ykkur styrk í sorginni.

Arnrún Halla Arnórsdóttir.

Dúlla frænka fæddist í Grímsey á ystu mörkum Íslandsbyggðar. Kornungri var henni komið í fóstur í Garði í Kelduhverfi. Þar ólst hún upp við gott atlæti góðra fósturforeldra. Að alast upp í þessari blómstrandi menningarsveit á fyrri hluta og um miðbik síðustu aldar var veganesti sem mótaði og einkenndi allt hennar líf til hinstu stundar. Á uppvaxtarárum hennar var ríkur félagsandi í sveitinni. Byggðin var þétt og blómleg, ungmennahreyfingin í vexti, íþróttaiðkun, leiklistarstarfsemi og tónlist mikil. Andi samvinnuhreyfingarinnar ásamt mörgum bráðgáfuðum fjölhæfum mönnum og konum sköpuðu í heild einstakt menningarsamfélag sem átti sér fáa líka hér á landi. Fjallahringurinn fagur, vetur oft harðir, en vor og sumur með ilmandi engjum, tærri bergvatnsá og ríkum fuglasöng. Litskrúðug heiðin í haustlitum og berjamórinn. Þetta færði hugann á flug og mótaði sveitastelpuna.

Í þessari kynngimögnuðu lífssinfóníu þroskaðist persóna hennar og gerði hana að hreinum heimsborgara. Þessarar sinfóníu fengu síðan allir að njóta sem hana þekktu.

Hún eignaðist dóttur og giftist síðar ágætum heiðursmanni frá Húsavík. Þau bjuggu um tíma á Þórshöfn og Raufarhöfn, en reistu sér síðar veglegt hús í hjarta Húsavíkur. Þar komu þau upp einstöku menningarheimili. Þar slógu hjörtu þeirra í takt. Þar var lögð sérstök rækt við gömul og merk menningargildi og þau tvinnuð saman við nútímann og nýjungarnar. Þar var á skömmum tíma hægt að fá yfirsýn yfir lífshlaup heillar aldar. Á heimilinu ríkti mesta gestrisni og höfðingsskapur sem ég hef kynnst um mína daga. Dyrnar opnar öllum, fullt hús af gestum, útbreiddur faðmur þeirra beggja og hlaðborð með kjarngóðum íslenskum mat. Snarpar pólitískar umræður og landsmálin krufin. Rifjaðar upp minningar frá æskuárunum. Af þeirra fundi gengu allir ríkari. Hann féll frá fyrir nokkrum árum. Hún bar harm sinn í hljóði en veitti af sömu rausn sem fyrr. Nú er jarðneskri sinfóníu þessara heiðurshjóna lokið en ómur góðra minninga mun hljóma áfram.

Guð blessi minningu þeirra.

Benedikt Ó. Sveinsson.

Í dag kveð ég Dúllu móðursystur mína, eða Frænku eins og ég kallaði hana oftast.

Margs er að minnast og margt ber að þakka frá öllum þeim stundum sem við áttum saman. Þegar hún og Jóhann komu á æskuheimili mitt og ekki síst þeim góðu stundum sem ég átti hjá þeim á Ketilsbrautinni.

Þau voru líka mörg sumrin sem ég fékk að fara alein til Frænku og þó ég muni ekki hve dagarnir voru margir hverju sinni þá voru þeir yndislegir, hver öðrum skemmtilegri og alltaf hlakkaði ég jafnmikið til að fara aftur austur á Húsavík.

Á Ketilsbrautinni var alltaf líf og fjör. Gestir að koma og fara, það þurfti að heyra hvernig þessi hefði það í dag og hvort hinn kæmi á morgun.

Frænka var mikil félagsvera, hafði gaman af að fara á mannamót og var hrókur alls fagnaðar. Sagði sögur, sló á létta strengi og tilsvörin hafði hún á reiðum höndum.

Oft þurfti hún að kynna mig fyrir fólki og þar sem hún kallaði mig nöfnu sína kynnti hún mig þannig. Fólk hváði og horfði á mig: "Heitir þú líka Þórhildur?" Þá svaraði hún að bragði: "Nei, hún þykir bara svo lík mér eins og ég var sem barn, svo það er upplagt að kalla hana nöfnu."

Frændrækin var hún, næm á mannleg samskipti og ótrúlega lagin við að laða fram jákvæðar hliðar annarra og létt andrúmsloft.

Margar ferðirnar átti ég með henni og Jóhanni austur í Kelduhverfi til að heimsækja vini og vandamenn. Þá kemur upp í huga mér mynd þar sem við svífum á einhverjum amerískum kagga upp og niður hvert gilið af öðru út Tjörnesið á leið austur í Hverfi, Frænka akandi og syngjandi fyrir munni sér, Jóhann, afslappaður, í hvítri skyrtu með axlabönd og tottandi pípuna sína. Þessa mynd geymi ég og þakka þér, elsku Frænka mín, fyrir allt og allt.

Margréti, Hönnu Björgu og öllum ástvinum sendi ég samúðarkveðjur.

Stefanía Gerður

Sigmundsdóttir.

Eitt af skærustu ljósunum á mínum lífshimni, Þórhildur Björg eða Dúlla, eins og hún var oftast kölluð, hefur kvatt þennan heim. Ljósið hennar mun þó ekki hverfa því minningarnar frá öllum okkar samverustundum munu halda áfram að ylja mér um hjartarætur svo lengi sem ég lifi.

Fræið sem gaf af sér okkar kynni var að forlögin höguðu því þannig að móðir mín sáluga, Anna Bjarnason, og bróðir hennar, Jón Páll Bjarnason, voru sem börn send í sveit í mörg sumur í Garð í Kelduhverfi. Þar á bæ réðu sæmdarhjónin Sigríður Stefánsdóttir og Jóhannes Þórarinsson. Þar var einnig heimasætan Dúlla, sex árum eldri en móðir mín. Þær urðu góðar lífstíðarvinkonur og rifjuðu oft upp þessa gömlu góðu daga sem liðu við áhyggjuleysi æskunnar í fallegri sveit. Sem ung kona dvaldi Dúlla í Reykjavík við nám í Húsmæðraskólanum og réð sig síðan til starfa á Kleppsspítala en hugur hennar stóð til hjúkrunarnáms. Á þeim tíma varð heimili afa míns og ömmu, á Víðimel 65, hennar fasti punktur í höfuðborginni. En örlögin gripu í taumana og Dúlla eignast dótturina Margréti Sigríði með Árna Þór Víkingi, en hann flutti til Bandaríkjanna. Um sama leyti fluttust foreldrar hennar til Húsavíkur og þar bjó Dúlla með Margréti sína litla þegar hún kynntist lífsförunautinum Jóhanni Kr. Jónssyni. Hann gekk Margréti í föðurstað og reyndist henni afar vel. Sem kaupfélagsstjórahjón bjuggu Dúlla og Jóhann á þremur stöðum og var þá ærið erilsamt hjá Dúllu því heimili kaupfélagsstjóra á þessum árum gegndu stóru hlutverki því samgöngur og allar aðstæður voru með öðrum hætti þá en nú er. Þá voru hvorki veitingahús né hótel á smærri stöðum og kom þá í hlut eiginkonu kaupfélagsstjórans að bjóða kaffi og mat, gistingu og aðstoð fyrir þá sem voru á ferð. Dúlla var snillingur í matargerð og gat ævinlega töfrað fram dýrindis veitingar af mikilli hugkvæmni. Mikill gestagangur átti eftir að fylgja Dúllu hvar sem hún var, alla hennar ævi, því hún var einstök heim að sækja. Dúlla tók ung bílpróf, sem var fremur óvanalegt fyrir konur á þessum árum og hafði ávallt áhuga á bílum og átti eftir að eiga marga fallega og góða bíla. Hún hafði það hlutverk alla tíð að vera bílstjóri á sínu heimili því Jóhann hafði ekki bílpróf.

Það var á Þórshafnarárunum sem ég, þá þriggja ára gömul, kynntist Dúllu fyrst. Þá kom ég ásamt móður minni og systur í heimsókn og kom strax í ljós að það var einhver ósýnilegur þráður á milli okkar. Hún sá aumur á mér hrakfallabálkinum og taldi víst að óeðlilegur flumbrugangurinn stafaði af sjóndepru. Það kom seinna í ljós að þetta var rétt hjá henni, ég þurfti sterk gleraugu. Fimm ára var ég fyrst skilin eftir hjá henni þegar fjölskylda mín heimsótti þau hjónin á Raufarhöfn, en átti eftir að vera hjá þeim í mörg sumur og bindast ævarandi tryggðaböndum. Það varð einnig upphafið að því að ég fór að kalla hana fóstru, Jóhann fóstra og hún kallaði mig fósturdóttur fóstru. Dóttir þeirra, Margrét, hefur ávallt verið mér sem systir og besti vinur. Dúlla var ákaflega blíð og góð við mig allt frá fyrstu tíð. Ég fékk að vera aðstoðarmaður í eldhúsinu þar sem oft var mikið að gera, vaska upp, skera út kleinuhringi, rulla fyrir hana þvottinn og sækja mjólk í brúsa út í Kaupfélag. Hún var alla tíð mjög hagsýn og fór vel með hráefni og hluti og drýgði með því heimilistekjurnar. Ísskápurinn hennar, glæsilegur Westinghouse, er t.d. að verða 50 ára en er enn í fullkomnu lagi og rispulaus að utanverðu, þrátt fyrir að hafa flutt með henni á milli byggðarlaga. Meira að segja klakabakkarnir í frystinum eru upprunalegir. Ég fékk einnig að fylgja henni í mörgum ferðum yfir holt og heiðar og kynnast þannig í gegnum hana fólkinu í Kelduhverfi, á Hvoli við Kópasker, á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, í Sandfellshaga og víðar. Dúlla var einstakt náttúrubarn og naut þess að vera úti í náttúrunni. Hún elskaði bjartar sumarnætur og að komast í berjamó á haustin. Það sló henni enginn við í berjamó, hún var afar fundvís á ber og eljusöm við að tína og svo nýtti hún berin á margvíslegan máta. Það var sannarlega ekki út í bláinn að hún var kölluð berjadrottningin á NA-landi í Dagblaðinu þegar verið var að kanna berjasprettu. Hún kenndi mér að skynja náttúruna og sagði mér sögur af liðinni tíð. Hún var hafsjór af fróðleik og sagði skemmtilega frá. Bróðir minn, Gunnar Þór, naut þess eins og ég að vera "í sveit" hjá Dúllu og bundust þau einnig tryggðaböndum sem varað hafa alla tíð síðan. Hann og Atli Steinarr, bróðir okkar, áttu báðir athvarf hjá henni þegar þeir voru í sveit í Skógarhlíð í nágrenni Húsavíkur.

Tryggð og samviskusemi voru ríkir eðlisþættir hjá Dúllu. Hún reyndist foreldrum sínum afar góð dóttir og bjó þeim öruggt skjól á ævikvöldinu. Jóu, sem var kaupakona í Garði, bjó hún einnig skjól og sinnti henni þar til yfir lauk og margir fleiri, ættingjar hennar og aðrir, nutu góðs af þegar hún sendi þeim heimagert rúgbrauð og kæfu, aðalbláber eða annað góðgæti. Þessir eðlisþættir Dúllu hafa erfst í ríkum mæli til Margrétar dóttur hennar sem ævinlega hefur verið til staðar fyrir mömmu sína, er ákaflega gestrisin og höfðingi heim að sækja.

Árið sem Dúlla varð fimmtug, eignaðist Margrét dótturina Hönnu Björgu, sem ber nöfn afa síns og ömmu. Hún varð augasteinn þeirra, stolt og eftirlæti og tóku þau hjónin mikinn þátt í uppeldi hennar. Í dag eru þær mæðgur mér ákaflega kærar og okkar vinskapur þess eðlis að ekkert getur rofið hann.

Sá eiginleiki Dúllu sem ég hreifst sérstaklega af var næmi hennar fyrir fallegum ljóðum. Eftir að ég komst á fullorðinsár voru ljóð og lausavísur okkar sameiginlega áhugamál og var hún þar minn lærimeistari. Hún kunni mörg ljóð utanbókar og hafði ævinlega fallegar hendingar úr ljóðum á hraðbergi við öll tækifæri. Uppáhaldsskáldin hennar voru Davíð Stefánsson, Einar Benediktsson og Matthías Jochumsson en ýmsir fleiri, s.s. Ólöf frá Hlöðum, Kristján fjallaskáld og fleiri, voru líka hátt skrifaðir hjá henni. Eitt af okkar uppáhaldserindum er úr kvæði eftir Þorstein Erlingsson en ég tel það táknrænt fyrir kynni okkar:

Hver vinur annan örmum vefur

og unga blómið krónu fær.

Þá dansar allt sem hjarta hefur

er hörpu sína vorið slær.

Að leiðarlokum hugsa ég til þess hve lánsöm ég var að hafa fengið að þekkja og njóta Dúllu og allra þeirra sem ég tengdist í gegnum hana. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Ég óska þess að góður Guð haldi verndarhendi sinni yfir Margréti, Hönnu Björgu og Halla og muni um alla framtíð blessa minningu fóstru minnar, Dúllu.

Ása Steinunn Atladóttir.

Er dimmum skuggum yfir byggðir brá,

sló bjarma út um alla hennar glugga.

Þá bar hún hæst, er byljir skullu á,

og braust gegn þeim, sem væri

hríðarmugga.

Með fórn og elsku vann hún vegsemd þá,

er veitist þeim, sem gefa líf og hugga.

Hún fann hvað þegn og þjóðir mestu

varðar

var þerna guðs, en dóttir sinnar jarðar.

(D. Stefánsson.)

"Hafi ég einhvern tímann haldið að ég væri við dauðans dyr, þá var það um daginn, en nú er ég öll að hressast og hjarna við." Þessi orð voru með þeim fyrstu sem hún Dúlla mín sagði við mig í síðasta símtali okkar í byrjun ársins.

Hvorugu okkar mun þó hafa komið til hugar að þetta væri síðasta samtalið. Þegar við vorum að kveðjast voru kveðjuorð hennar þessi: "Við fáum okkur kaffi og sherry þegar við hittumst næst. Vertu svo kært kvaddur nú og ævinlega."

Síðustu orð kveðjunnar voru þau sem hún notaði alltaf í hverju símtali okkar, en segja má að nokkurn veginn í hverri viku hafi annað hvort okkar hringt í hitt, alltaf seint á kvöldin og oft dróst símtalið fram á nótt, enda við bæði nátthrafnar í eðli okkar.

Í þau rúmu þrjátíu ár sem kynni okkar hafa staðið minnist ég ekki að hafa heyrt hana leggja illt til nokkurrar manneskju, hvorki á bak né brjóst. Enda var hún einhver heilsteyptasti persónuleiki sem ég hef kynnst.

Hennar stærsta áfall mun hafa verið er hún missti Jóhann snögglega eftir fjörutíu ára búskap, og henni fannst hún því aldrei vera nema hálf þennan síðasta áratug, enda voru þau samhent um allt.

Heilsa hennar sjálfrar var líka léleg, hjartað mátti ekki við miklu erfiði en hún bar sig alltaf vel og gerði miklu meira en hún var manneskja til. Það var ekki hennar stíll að leita aðstoðar annarra þó alltaf væri hún sjálf boðin og búin til að snúast með fólk og fyrir fólk, fram og aftur.

Kæra Margrét, Hanna og Hallgrímur, megi æðri máttarvöld veita ykkur styrk nú á sorgartímum.

Það verður tómlegt að koma til Húsavíkur á næstunni, þar sem enga Dúllu verður framar að finna. Megi hún vera ævinlega kært kvödd og hvíla í friði.

Sveinn V. Jónasson.

Góður vinur okkar Kristrúnar, Þórhildur Björg Kristjánsdóttir, alltaf kölluð Dúlla, er til moldar borin í dag. Hún hafði fengið krabbamein og síðasta lotan verið erfið en nú hefur hún fengið hvíldina. Svipmikil kona og sviphrein, drengur góður. Í móðurætt var hún úr Kelduhverfi, af Víkingavatnsætt og Gottskálksætt, en föðurafi hennar, Eggert Jochumsson í Grímsey, var bróðir séra Matthíasar. Ég kynntist þeim hjónum, Dúllu og Jóhanni Kr. Jónssyni, fljótt eftir að ég fór að hafa afskipti af pólitík. Þau tóku mér ávallt vel, enda átti ég oft erindi til þeirra bæði til þess að kynna mér menn og málefni og einnig til að fá stuðning og uppörvun sem öllum stjórnmálamönnum er svo mikils virði. Samræðurnar á Ketilsbraut voru alltaf hreinskilnar. Ég man eftir stundum þegar við Jóhann vorum ekki sammála og hvessti á milli okkar. Þá kom Dúlla og bar klæði á vopnin með hlýju sinni og léttri gamansemi. En þessir eðlisþættir voru mjög ríkir í hennar skapgerð. Hún var margfróð um mannlíf í Kelduhverfi frá uppvaxtarárum sínum og sagðist vel frá. Frásögnin var lifandi og glögg, einatt gamansöm og ávallt hlý.

Dúlla átti fallegt heimili og þar var gestkvæmt enda þótti vinum hennar og frændum sjálfsagt að líta inn þegar þeir áttu leið til Húsavíkur. Frá heimili hennar eru mér sérstaklega minnisstæð málverk eftir Svein Þórarinsson, frænda hennar og vin, máluð á árum hans í Ásbyrgi. Þau eru meðal bestu verka Sveins. Eitt þeirra er af Herðubreið, annað frá Núpskötlu og af Vatnsbæjunum og svo átti hún frægt málverk af hesti úr Kelduhverfi sem miklar sögur fara af.

Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti fyrir góða vináttu og stuðning á liðnum áratugum. Ég á margar kærar minningar frá Ketilsbraut. Þar kynntist ég Sigríði Stefánsdóttur frá Garði, fóstru Dúllu, sem hafði verið góður vinur afa míns, Benedikts Sveinssonar, á þeim árum sem hann var þingmaður Norður-Þingeyinga. Hún gaf mér rauðvínsglas sem langamma mín, Kristjana Sigurðardóttir, hafði átt og þykir mér það mikil gersemi.

Þessar línur bera ykkur, Margrét Sigríður og Hanna Björg, samúðarkveðjur okkar Kristrúnar. Guð blessi minningu Dúllu.

Halldór Blöndal.