Steinunn Sveinsdóttir fæddist á Ísafirði 1. febrúar 1911. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 3. desember 2002 og var útför hennar gerð frá Dómkirkjunni 13. desember.

Ég sagði stundum "mamma þín" eða "amma ykkar" en oftast gat ég ekki á mér setið og sagði bara "amma". Það var nefnilega stund ákveðins hátíðleika að láta eins og fallegasta kona heimsins, amma sambýliskonu minnar, væri líka amma mín. Ég var stundum hálf feimin í návist hennar, hún bar það svo með sér að vera drottning, og hvernig hegðar maður sér í návist drottningar sem maður laumast til að kalla ömmu? Hún tók mér alltaf fagnandi, alltaf brosandi, alltaf blíðlega, lagði kinn við kinn, hönd í hönd, dró augað í pung og sagði mér í guðanna bænum að laga á mér hárið, það væri ekki sjón að sjá mig. Ég var farin að standa sjálfa mig að því að punta mig upp áður en ég gekk inn til hennar. Hárið smurt til hliðanna, færeyska kápan aðhneppt, varalitur á réttum stað: Ég var tilbúin að fara á fund drottningar.

Þær eru margar sögurnar sem Steina hefur sagt mér af ömmu sinni, af öllu því sem hún kenndi henni í gegnum árin og því sem hún hefur staðið fyrir í lífi hennar. Amma og Steina að fægja silfrið saman og verðlauna sig með því að spila Marías, þeirra spil. Listakokkurinn amma að kenna Steinu að búa til pönnukökur, orðlaus yfir klaufsku sjö ára barns að geta ekki umsvifalaust sveiflað upp pönnsum sem séu svo þunnar að sjáist í gegn. Amma sem smyr brauð með gráðosti eða kæfu (bestu kæfu bæjarins) og lætur litlu barni líða eins og það sé einmitt þetta að vera lukkunnar pamfíll. Amma sem unnir engum að hangsa og lætur barnabörnin vita hversu notalegt það væri ef mamma manns kæmi heim og það væri búið að strauja, ryksuga og fægja silfrið. Amma sem er upp með sér af því hvað hún fer vel í rúmi og hvílir fallega, krumpar ekki sængurfötin í svefni og vaknar að morgni rétt eins og enginn hefði verið. Ömmustúlka sem keppist við að vera eins en mistekst hrapallega. Amma sem veitir óskoraðan styrk og hlýju þegar lesbismi er uppgötvaður og segir Guð gera okkur öll eins og hann vilji hafa okkur. Amma sem kvartar ekki hvað sem á dynur, amma sem varalitar sig hvað sem á dynur. Amma sem hvetur stúlkuna sína manna mest til ævintýra í Afríku þegar aðrir eru efins og ömmustúlka sem á umsókn um hjálparstarf svarar spurningunni "hvert er þitt helsta áhugamál" með svarinu "amma mín". Amma sem kann ekki að skrökva og nafna sem er alveg eins.

Ég hlaut það lán að fá að vera áhorfandi í stutta stund; áhorfandi að einstökum kærleika og nánd ólíkra kynslóða á Vesturgötunni. Ég óskaði mér þá sem nú að ég mætti í framtíðinni hugsa svona vel um mömmu mína á efri árum eins og Svenný um mömmu sína, en það mátti aldrei á milli sjá hvor var þakklátari fyrir nærveru hinnar. Í huga þeirra afkomenda Steinunnar sem ég hef fengið að eiga svolítið í var það að hugsa um ömmu órjúfanlegur hluti daglegs lífs, andardráttur lausra stunda. Að njóta samvista við ömmu, að finna fyrir hjartslætti hennar og gefa henni að borða var jafngildi þess að fá sér sjálfur að borða og vita af eigin tilveru. Það var ekki kvöð - slíkt hugtak var fjarstæða þegar amma átti í hlut - það var gleði og þörf. Í þeirri þörf fólst ekki bara sjálfsrækt heldur tilfinning um ákveðin forréttindi, heiður. Það var enginn í vafa um það hver var fremur að gefa og hver fremur að þiggja í návist Steinunnar, ekki einu sinni þegar þreyta sagði til sín á báða bóga og það að kyngja var litað sársauka.

Í dag er dagur gleðinnar: gömul kona og þreytt sem þráði að fá að fara hefur fengið leyfi til að láta sinn síðasta draum rætast. Þegar á reynir er kannski enginn eftirlifandi tilbúinn til að kveðja, en ef ekki nú hvenær þá? Söknuður er ekki talinn í feginleik þess sem fer, hann situr eftir í auðum stól og situr sem fastast. En við fáum öll að hlæja að óborganlegum sögum og getum fyllst dirfsku brynjuð nýjasta varalitnum, hneppt að okkur kápunni og sett kragann upp. Hneppt að okkur kápunni að hætti Steinunnar, hennar sem alltaf hneppti að sér með reisn. Ég votta aðstandendum samúð mína og samgleðst þeim um leið. Nú er Steinunn drottning komin til hallar og býður án efa til veislu.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.