Óskar Andrésson fæddist á Ferjubakka í Borgarhreppi 26. apríl árið 1928. Hann lést 21. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Lilja Finnsdóttir, f. 17. september 1905, d. 19. mars 1998, og Andrés Guðmundsson, f. 26. júní 1900, d. 16. apríl 1985. Systkini Óskars eru Guðmundur, f. 1926, d. 1984, kvæntur Huldu Brynjúlfsdóttur, Hervald, f. 1927, d. 2002, Unnur, f. 1929, gift Jóhanni Ó. Sigurðssyni, Guðrún, f. 1930, d. 1983, gift Árna Guðmundssyni, Þorsteinn Arnar, f. 1933, kvæntur Friðbjörgu Óskarsdóttur, Guðbjörg Stefanía, f. 1941, gift Jóni H. Einarssyni, Ragnhildur, f. 1947, gift Ölver Benjamínssyni og Bragi, f. 1949, kvæntur Maríu Nielsen.

Óskar var ókvæntur og barnlaus og var alla tíð til heimilis í foreldrahúsum, lengst af á Saurum í Hraunhreppi en síðustu þrjá áratugina í Borgarnesi. Hann starfaði við búskap foreldra sinna og sinnti jafnframt árstíðabundnum störfum utan heimilis. Hann vann í vegavinnu frá unga aldri og síðar í brúarvinnuflokkum og í sláturhúsi Kaupfélagsins þar sem hann gegndi lykilhlutverki þegar teknar voru upp nýjar vinnuaðferðir í fláningu. Eftir að búskapur lagðist niður á Saurum og heimilisfólk flutti í Borgarnes starfaði Óskar fyrst hjá Kaupfélagi Borgfirðinga við afgreiðslu- og þjónustustörf, þá hjá Jóni Kr. Guðmundssyni og síðar Guðjóni Árnasyni við pípulagningar og loks hjá Vírneti þar sem hann vann uns eftirlaunaaldri var náð.

Útför Óskars verður gerð frá Borgarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Óskar frændi minn, nú ert þú farinn til himna til ömmu og allra hinna sem mér þótti svo vænt um en eru líka farin. Þú fórst svo snöggt án þess að nokkuð bæri á að það stæði til. Ég á sem betur fer fullt af minningum um þig sem munu ylja mér um ókomin ár.

Ég minnist þín sem eins míns uppáhaldsfrænda sem alltaf varst svo kátur og þegar ég var lítil stelpa gafstu þér líka alltaf tíma til að tala við mig sem jafningja og þá fannst mér ég vera rosastór stelpa. Fyrsta minning mín um þig er einhvern tímann þegar ég er ekki mjög gömul. Þá vorum við upp á túni á gulum Skoda sem þú áttir þá og þú leyfðir mér að sitja í fanginu á þér og stýra, ég man ég var svo lítil að ég horfði í gegnum stýrið en þú taldir mér trú um að ég væri að keyra alveg sjálf, vá hvað maður var stór stelpa þá. Ég minnist þín líka sitjandi við endann á eldhúsborðinu hjá ömmu, þar sem þú settist alltaf til að borða og eftir matinn gafstu mér í nefið svo ég hnerraði og svo hlógum við heil ósköp.

Þegar ég varð eldri og fór að búa varstu boðinn og búin að hjálpa mér við pípulagnir og fleira smálegt eins og þér var einum lagið og þegar annað okkar keypti sér nýjan bíl varð siður að við prufuðum bílana hjá hvort öðru.

Eftir að amma dó varst þú áfram á efri hæðinni í ömmuhúsi og það var svo vinalegt að geta áfram komið við á efri hæðinni þegar maður stoppaði og sá að það var ljós þar. En nú er ekki lengur ljós á efri hæðinni í ömmuhúsi og þig kveð ég nú með sorg í hjarta elsku Óskar frændi minn, en ég veit að Guð tekur vel á móti þér og geymir þig vel því þú varst alltaf svo góður, takk fyrir allt. Þín

Björk Ölversdóttir.

Þegar fregnin barst um lát Óskars móðurbróður okkar vorum við óþægilega minnt á það hversu skammt er á milli lífs og dauða. Óskar, sem var hluti af lífi okkar í bráð og lengd, er í einni svipan horfinn okkur og farinn til verka á öðrum vettvangi. Síðasta daginn sem hann lifði var hann að reka saman hross og rétta vinum hjálparhönd. Því má segja að hann hafi fallið í fullu fjöri þó að þeir sem næst standa hafi gert sér grein fyrir því að heilsan var tekin að bila.

Það var aðalsmerki Óskars að vera sívinnandi og þá helst fyrir aðra. Hann var ósínkur á tíma sinn og þegar hann var ekki við launastörf var hann ævinlega upptekinn við að hjálpa vinum og vandamönnum. Hann lagði pípur og lagfærði krana, tók þátt í að reisa hús og afla heyja og síðast en ekki síst járnaði hann fjölda hesta. Á síðustu árum fór hann á hverju sumri að Sólheimum í Grímsnesi til þess að aðstoða í sumardvöl sjúklinga Bergmáls. Honum var minna lagið að hugsa um sinn eigin hag en bílunum sínum hélt hann alltaf í toppstandi.

Hestar skipuðu stóran sess í huga frænda okkar. Fyrstu minningar okkar eldri systkinanna um hann tengjast einmitt hrossum og útreiðartúrum vestur á Saurum eða þá að hann kom ríðandi í heimsókn með þrjá til reiðar þar sem eftirminnilegir eru þeir Hrafn og Svipur. Oft var hann þátttakandi í hestaferðum Beigaldafólksins og lagði sitt á vogarskálarnar svo allir gætu verið með. Þeir yngstu voru kannski á hnakkkúlunni fyrir framan öruggustu reiðmenn leiðangursins, undir sumum þurfti að teyma og þeir sem lengst voru komnir í reiðlistinni riðu einir og þurftu þá að fá þægasta hrossið til afnota. Þegar ungir knapar höfðu öðlast öryggi þá lagði hann áherslu á að þeir spreyttu sig á því að sitja góðgenga og fjöruga hesta. Eftir að Saurafólkið flutti í Borgarnes kom hann æ oftar að Beigalda þar sem hann hafði hrossin sín allt árið um kring. Samskipti hans við heimilisfólk á bænum voru mikil og náin allt til hinsta dags.

Óskar var fíngerður vexti með skarpan svip og hýrt yfirbragð. Hann var laginn til allra verka og ósérhlífinn. Léttur var hann og frár á fæti og hljóp gjarnan við fót. Hann var snyrtimenni og vildi að hlutirnir ættu sinn ákveðna stað. Hann var minnugur í besta lagi, afar glöggur á fólk og skepnur, einkum hross og jaðraði sá hæfileiki hans við að vera yfirnáttúrlegur. Hann bjó yfir góðri frásagnargáfu og átti til að gefa hnyttin og meitluð tilsvör sem vöktu kátínu.

Með glettni sinni og gamansemi laðaði Óskar sérstaklega að sér börn og ungmenni. Hann kom sér upp hefðum eins og t.d. þeirri að bjóða ungum frænda í dagstúr á hestum til fjalla með nesti og nýja skó í kliftöskum. Slíkt fyrirtæki var ekki fyrirhafnarlaust og nú eru allar slíkar stundir dýrmætar minningar.

Óskar skipar stóran sess í huga okkar og þegar við sjálf eignuðumst börn þá nutu þau sömu góðvildar og gjafmildi og við og þau fengu líka frá honum þúsundkalla sem hann var hættur að nota. Litlum frænda varð á orði þegar hann heyrði um fráfall Óskars frænda ,,oh, hann sem var svo skemmtilegur". Þessi setning lýsir í hnotskurn hvernig okkur finnst Óskar hafa verið. Við, Beigaldasystkin, makar okkar og börn þökkum honum samfylgdina, hjálpsemi og skemmtan og biðjum honum allrar blessunar.

Lilja, Guðmundur, Sesselja, Alda og Steinunn Þórdís.

Aðeins nokkur kveðjuorð til góðs vinar, þakkir fyrir dýrmæta vináttu sem aldrei brást. Óskar var kannski ekki allra, en hann var einstaklega tryggur vinur vina sinna. Ávallt með útrétta hjálparhönd og ætlaðist aldrei til neins í staðinn, eins og göfugmenna er háttur. Slíkur hefur hann reynst mér og börnum mínum, ekki síst á erfiðum stundum. Slíka vini er gott að eiga, slíka vini er sárt að missa og slíkra vina verður sárt saknað. Fyrir langa löngu setti ég saman þessa vísu og gaf móðurbróður mínum sem mér þótti afar vænt um. Á hún ekki síður við um Óskar:

Hinn góði vinur af gullinu ber,

er gimsteinn sem ljómar skært.

Því sannur vinur jafn sjaldgæfur er

og sakleysið hreint og tært.

Með þakklæti og trega og samúðarkveðjum til systkina hans og annarra ástvina.

Sveinbjörg Guðmundsdóttir.

Sú tíð mun koma að sonur minn mun spyrjast fyrir hvers vegna að hann heiti Óskar, og það mun verða með stolti sem ég útskýri fyrir honum að hann hafi verið skírður í höfuðið á manni sem vissi hvað vinátta var.

Þegar ég frétti af andláti Óskars, eins besta vinar míns, skutust á loft minningar, ein allsherjar flugeldasýning. Ég var að reyna að muna hvenær leiðir okkar láu saman, en komst að því að hann hafi alltaf verið til staðar svo lengi sem ég man og mun örugglega vera það áfram um ókomna tíð þó hann hafi nú yfirgefið þennan heim.

Ég hef ferðast mikið, bæði vegna míns náms og einnig mér til skemmtunar, upplifað ýmis ævintýri í þeim rúmlega tuttugu löndum sem ég hef heimsót, en ekkert kemst í námunda við þau ævintýri sem ég og Óskar áttum saman. Við brölluðum margt skemmtilegt saman allt frá pípulögnum til útreiðar og allt þar á milli.

Óskar minn, mér þykir leitt að ég á ekki kost á að vera viðstaddur í dag, er þú ert borinn til grafar en ég er þar í anda. Þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér, þó aðallega þína skilyrðislausa vináttu. Ég vil votta ættingjum og vinum Óskars mína dýpstu samúð.

Hjörtur Scheving,

Vilnius, Litháen.

Nú þegar Óskar frændi okkar og vinur er horfinn á braut sitja minningarnar eftir, sem eru fjölmargar því margar góðar stundir áttum við saman.

Óskar var búsettur framan af ævi á Saurum í Hraunhreppi en eftir það flutti hann í Borgarnes og bjó þar til æviloka. Hann stundaði margvísleg störf um ævina, m.a. vegavinnu, brúarsmíð, byggingarvinnu og pípulagnir. Sveitin átti þó huga hans löngum, einkanlega hestarnir og munum við hann gjarnan eitthvað að fást við hesta. Oft kom hann ríðandi vestur að Kálfalæk. Þá stundum með marga til reiðar og þótti okkur mikið til koma því hann var ævinlega vel ríðandi, gjarnan með brúna og bleika. Stundum fórum við saman í reiðtúra og voru það ógleymanlegar ferðir. Minnisstæð er mér ferð þegar við riðum saman í Dali fjórir strákar á ýmsum aldri. Gistum við í leitarmannahúsi Álfthreppinga við mikla gleði, glímutök og söng. Enda var Óskar glaðvær maður og söngvinn þó að stundum hvessti.

Svo þegar árin liðu urðu ferðirnar fleiri á bíl sem hann kom til okkar, því alltaf var hann boðinn og búinn til hjálpar, sama hvort það voru pípulagnir, smíðar, járningar eða hvað sem til féll. Svo þegar dagsverki lauk var setið við eldhúsborðið og Óskar sagði okkur sögur frá liðinni tíð. Hann hafði þann eiginleika að geta hermt eftir flestum og fært sögurnar í þann búning, að allir sem til heyrðu veltust um af hlátri. Eru þetta okkur alveg ógleymanlegar stundir. Hann var orðheppinn með eindæmum og fljótur til svars enda lifa mörg orðatiltæki hans.

Óskar var einstaklega barngóður og nutum við systurnar á Kálfalæk þess í ríkum mæli. Oft er hann kom gaf hann okkur pening sem hann sagðist vera hættur að nota og sagði okkur að kaupa eitthvað. Þegar ég (Unnur) stækkaði og fékk bílpróf fórum við Óskar oft saman í bíltúr. Leyfði hann mér alltaf að keyra einkum þegar hann kom á nýjan bíl og er mér sérstaklega minnisstæður bíllinn með töffaraljósin. Svo fékk ég líka alltaf að prófa reiðhestana hans þegar hann var með okkur í hestaferðunum um Snæfellsnes. Hann var einstaklega laginn að spjalla við útlendingana þó að hann kynni ekki stakt orð í erlendum málum.

Sem dæmi um barngæsku Óskars langar mig að segja smásögu sem gerðist í hestaferð vestur á Lýsuhóli. Þá var Alexandra tveggja ára og mamma hennar var búin að banna henni að fara út. En þá laumaði sú stutta sér til Óskars, tók í höndina á honum og saman leiddust þau út á hlað að leika.

Kæri frændi, við fjölskyldan þökkum þér samfylgdina og finnst við hæfi að ljúka þessu með ljóðlínum Einars Benediktssonar úr kvæðinu Fákar:

Í morgunljómann er lagt af stað.

Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.

Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,

þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.

- Menn og hestar á hásumardegi

í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi

með nesti við bogann og bikar með.

Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

Guð blessi minningu þína.

Sigurður og fjölskylda Kálfalæk.

Mig setti hljóða er Ragna dóttir mín hringdi til mín og tilkynnti mér lát vinar og velgjörðarmanns, Óskars Andréssonar. Óskar var mín trygga stoð er ég bjó í Borgarnesi. Alltaf gat ég leitað til hans ef á bjátaði.

Börn hændust að honum og var heimili hans og hans ágætu móður sem annað heimili yngri sonar míns Hjartar. Með þeim Óskari tókst órjúfanleg vinátta sem aldrei bar á neinn skugga.

Einnig sýndi hann föður mínum hlýju og aðstoðaði hann er hann var gestur hjá Bergmáli. En þar sem og annars staðar veitti hann hjálp og ástúð.

Fyrir þetta vil ég nú þakka að leiðarlokum.

Elsku Óskar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Þórveig Hjartardóttir.

Ég man vel brosið hans þegar ég hitti hann fyrst. Hann sagðist vera mættur til starfa, ef hægt væri að "nota gamlan karl eins og sig". Brosið náði alveg til augnanna og hann var kankvís á svip. Jú, hann var mikill aufúsugestur okkur Bergmálsfélögum sem vorum komnir austur að Hlíðardalsskóla í Ölfusi, sem þá hýsti orlofsvikur okkar fyrir krabbameinssjúka og aðra langveika. Sjálfboðaliðar unnu öll störf og þau voru æði mörg. Þarna var hann kominn að undirlagi eins stjórnarmanns okkar sem hafði þekkt hann frá fornu fari. Og hvílíkur happafengur hann var, alltaf boðinn og búinn, alltaf glaður og góður og alltaf vinur í raun. Hann var svo sannarlega ekki sporlatur maður. Það var sama hvort gestir okkar, veikt fólk í sumardvöl, eða við Bergmálsfélagar áttum í hlut, hann var öllum jafn. Í honum eignuðumst við kæran vin og Óskar var vinur vina sinna, hann var tryggðartröll.

Síðustu fjögur sumur tók hann að sér í orlofsvikum gest í hjólastól, sem hann aðstoðaði á allan hátt. Hann hafði lag á að vekja slíka kátínu hjá þessum unga manni að þrátt fyrir sín grimmu örlög hló hann stundum svo innilega með fylgdarmanni sínum að oft reyndist Óskari erfitt að koma matnum rétta boðleið ofan í hann á matmálstímum. Og þegar orlofsvikum lauk hélt Óskar áfram að treysta vináttuböndin við okkur, bæði gesti og Bergmálsfélaga. Ófáar ferðir kom hann frá Borgarnesi til þess að aðstoða þá sem honum þótti þurfa þess við. Og alltaf var hjálpin svo sjálfsögð af hans hálfu. Við munum sakna hans sárt er orlofsvikurnar okkar á Sólheimum hefjast án hans í vor og veit ég að mörgum verður þungt um hjartarætur. En við vitum að hann hefði hvorki viljað sorg né sút í okkar röðum, né uppgjöf af neinu tagi. Hann var sannur Bergmálsfélagi, vildi öllum vel og að starfinu væri fjárhagslega borgið og það héldi áfram. Þess vegna var hann líka svo ötull við jólakortasöluna fyrir félagið. Hann þekkti þörfina og vissi til hvers andvirði kortanna yrði varið.

Að leiðarlokum kveðjum við kæran vin og þökkum ómetanleg störf hans og trygga vináttu. Öllum sem hann syrgja biðjum við Guðs blessunar. Góður drengur er genginn. Blessuð sé minning hans.

F.h. Bergmáls,

Kolbrún Karlsdóttir formaður.

Það er í júnílok, degi er tekið að halla þó ekki sjái þess stað á björtu vorkvöldinu og allt er á ferð og flugi á Stóra-Kálfalæk á Mýrum. Síðasta hönd er lögð á undirbúning fyrir komu hestafólks af mörgum þjóðernum sem ætlar að leggja upp daginn eftir í hestaferð undir traustri forystu Sigurðar bónda. Aðstoðarfólk Sigurðar er flest komið og sumir hafa tekið vel til hendinni við undirbúninginn. Þeir síðustu gera lítið til gagns en fylgjast með verkum væntanlegra samverkamanna, sumpart af forvitni því ekki þekkjast allir fyrir. Athyglin beinist að grannvöxnum manni við aldur sem heldur fótum fyrir járningamann. Hann er kvikur í hreyfingum, vel á sig kominn, kann vel til verka. Trippið á að fá að hlaupa með til að æfa sig og hefur ekki verið járnað nema einu sinni áður. Það er aðeins tortryggið og tilbúið í átök ef upp á það er boðið. Við þessar aðstæður eru kraftarnir ekki mikilvægastir heldur lagnin við að ná sambandi við dýrið sem ekkert kann nema að flýja þegar ógn birtist því. Og nánast á augabragði er þetta samband komið á. Ungviðið slakar á, skynjar reynslu og samstarfsvilja og lætur sér vel líka, járningin er afstaðin áður en varir. Sá sem svo vel kann til verka er Óskar Andrésson frá Saurum, móðurbróðir Sigurðar, sem þá stendur á sjötugu. Í þessari ferð takast góð kynni og áður en langt um líður er Óskar orðinn sannkallaður fjölskylduvinur. Hestar og hestamennska voru sameiginlegt áhugamál og þar var hann vel heima. Sannkallaður hestamaður og reiðmaður af Guðs náð. Hafði næman skilning og skoðun á því hvað prýða ætti hest til að kalla mætti gæðing og ef einhverjir slíkir eiginleikar blunduðu í hrossi sem hann settist á mátti ganga að því vísu að hann gat laðað þá fram. Samskipti manns og hests byggðust á gagnkvæmri virðingu og átakalausri samvinnu. Óskari var einkar lagið að ríða til skeiðs og á sínum yngri árum átti hann flugvakra hesta og átti það til að skjóta þekktum knöpum að sunnan aftur fyrir sig þegar þeir gerðu sér ferð á Faxaborg til að reyna sig við heimamenn.

Óskar var fremur hlédrægur án þess að vera feiminn. Hann var ræðinn og góður sögumaður, stálminnugur á fólk og atburði og hrókur alls fagnaðar á gleðistund í góðra vina hópi. Hann var afar skjótur til svars ef á reyndi og orðheppinn með afbrigðum eins og þetta dæmi sýnir. Hann var þá í vegavinnu í blíðuveðri og lá flokkurinn og sólaði sig í hádegishléi þegar að kom maður sem ekki var þekktur fyrir dugnað. Sá heilsaði með þessum orðum: "Það er heitt á letingjum í dag." Óskar svaraði að bragði: "Já, og okkur líka."

Skólaganga Óskars var ekki löng fremur en margra jafnaldra hans og hann minntist þess stundum að áhuginn hefði legið annars staðar. Námshæfileika hafði hann þó nóga og kom það best í ljós þegar hann taldi að jafnaldra sín og skólasystir hefði ef til vill ekki gott af því að verða efst á fullnaðarprófinu og lagði það á sig að keppa við hana um það og hafa betur.

Óskar var mikill verkmaður en um leið kattþrifinn og honum lá oft mikið á við vinnu sína svo hann hljóp við fót. Honum léku flestar iðnir í hendi, best þó pípulagnir. Þar var hann fullgildur meistari. Hann var bóngóður og stór er sá hópur orðinn sem notið hefur viðvika hans stórra og smárra. Óskar lét sér annt um lítilmagna og var virkur félagi í stuðningsamtökum heimilismanna á Sólheimum í Grímsnesi. Hann er sannur fulltrúi alþýðufólks sem ólst upp við kröpp kjör á fyrri hluta síðustu aldar og lagði sitt af mörkum til að skapa nýjum kynslóðum velferðarsamfélag allsnægta. Við þökkum vináttu við góðan dreng og vottum systkinum og fjölskyldum þeirra samúð okkar. Sé hann kært kvaddur.

Bryndís Guðlaugsdóttir, Guðm. Birkir Þorkelsson.