Arndís Þorvaldsdóttir fæddist í Hafnarfirði 23. mars 1924. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni fimmtudaginn 23. janúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Bústaðakirkju 31. janúar.

Um miðja síðustu öld komu nokkrar ungar konur sér saman um að stofna með sér félagsskap. Þær voru æskuvinkonur og áttu það sameiginlegt að hafa átt sín æskuár í Hafnarfirði auk þess sem sumar þeirra voru skólafélagar úr Flensborg.

Kaflaskipti voru nú orðin í lífi þeirra, þær búnar að eignast sín heimili maka og börn. Tilgangurinn með því að halda hópinn í sínum saumaklúbbi var ekki aðeins sá að iðka hannyrðir sem þær allar stunduðu af kappi heldur líka og ekki síður að hittast reglulega og skiptast á hollráðum um uppeldi barna sinna og allt það sem að gagni mátti koma við húshald og velferð fjölskyldunnar.

Óhætt er að fullyrða að árangurinn af samstarfinu var góður og skilaði sér vel til fólksins þeirra.

Á klúbbfundunum var líka iðkaður margskonar listiðnaður sem ber vott um smekkvísi og dugnað. Þessi listaverk skarta enn og prýða mörg heimili.

Þar var líka margt sér til gamans gert einsog geta má nærri í svo glaðværum hópi enda voru alltaf næg tilefni til að vekja hlátur og fjörlega umræðu.

En tíminn líður hratt og með tímanum hefur félögunum í klúbbnum góða fækkað.

Enn er höggvið skarð í hópinn, Arndís hefur kvatt okkur öll.

Minningin um hana hressa og glaða, einsog henni var svo eiginlegt er sú mynd af Arndísi sem ekki gleymist okkur.

Eiginmanni Arndísar og fjölskyldu hennar vottum við okkar dýpstu samúð.

Klúbbfélagarnir.