Lögreglan áætlar að um eitt þúsund manns hafi sótt friðarfundinn á Ingólfstorgi sem fram fór á laugardaginn.
Lögreglan áætlar að um eitt þúsund manns hafi sótt friðarfundinn á Ingólfstorgi sem fram fór á laugardaginn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÁÆTLAÐ er að um 1.600 manns hafi sótt friðarfundi sem fram fóru í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði á laugardag til að mótmæla hugsanlegri innrás í Írak. Samkvæmt mati lögreglu tóku um eitt þúsund manns þátt í fundinum í Reykjavík á Ingólfstorgi.

ÁÆTLAÐ er að um 1.600 manns hafi sótt friðarfundi sem fram fóru í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði á laugardag til að mótmæla hugsanlegri innrás í Írak.

Samkvæmt mati lögreglu tóku um eitt þúsund manns þátt í fundinum í Reykjavík á Ingólfstorgi. Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sagði mótmælin hafa farið fram í mjög góðum anda og var hann ánægður með framkvæmd þeirra.

Eftir fundinn gengu fundarmenn Austurstrætið og afhentu síðan ályktun við Stjórnarráðið. Þá var gengið að breska sendiráðinu og því bandaríska og látin í ljós andúð á hugsanlegri innrás. Enn fremur fordæmdi fundurinn stuðning íslenskra stjórnvalda við árásaraðilana og krafðist þess að þau breyti um stefnu.

Í ályktun fundarins segir meðal annars: "Íslenska þjóðin getur ekki sætt sig við að forsvarsmenn hennar taki þátt í glæpastarfsemi af þessu tagi. Árásaraðilarnir beita fyrir sig tylliástæðum sem eru út í hött. Raunverulegt markmið þeirra er að sölsa undir sig olíuauðæfi Íraks og auka völd sín og áhrif í Mið-Austurlöndum."

Það voru samtökin Átak gegn stríði sem stóðu að útifundinum á Ingólfstorgi.

Um 500 hundruð manns tóku þátt í mótmælunum sem fram fóru á Ráðhústorginu á Akureyri. Eru þetta ein fjölmennustu mótmæli á Akureyri hin síðari ár. Fundurinn lýsti yfir eindreginni andstöðu við árás gegn Írak ásamt aðild Íslands að hugsanlegrum stríðsrekstri. "Skorað er á ríkisstjórn Íslands að fylkja sér undir fána friðar fjölmargra ríkja og hvetja þannig til friðsamlegrar lausnar á deilunni um meinta gjöreyðingavopnaeign Íraka. Við viljum frið en ekki stríð," segir í ályktun fundarins.

Á Ísafirði tóku hátt í 90 manns þátt í friðarfundinum sem fram fór í Edinborgarhúsinu. Sigurður Pétursson sagnfræðingur flutti þar ávarp. Í ályktun sem fundurinn sendi frá sér segir meðal annars: "Fundur friðarsinna á Ísafirði hvetur ríkisstjórn Íslands til að hlusta á raddir almennings í landinu og skipa sér í hóp með þeim ríkjum í Evrópu sem hafa lýst því yfir að þau muni ekki styðja stríð Bandaríkjamanna gegn Írak, stríð þar sem efnahagshagsmunir stórveldanna ráða ríkjum." Fundurinn hvatti ríkisstjórnina einnig til að beita sér gegn hernaði í öllum heimshlutum.

Mótmæli sem þessi voru haldin í hundruðum bæja og borga víðs vegar um heim á laugardag.