Ivica Kostelic og systir hans Janica með gullpeningana.
Ivica Kostelic og systir hans Janica með gullpeningana.
KRÓATÍSKU systkinin, Ivica og Janica Kostelic, urðu um helgina heimsmeistarar í svigi og höfðu bæði nokkra yfirburði. Janica reið á vaðið á laugardag, en hún hafði áður hreppt gull í alpatvíkeppninni. Hún mætti til leiks í St.

KRÓATÍSKU systkinin, Ivica og Janica Kostelic, urðu um helgina heimsmeistarar í svigi og höfðu bæði nokkra yfirburði. Janica reið á vaðið á laugardag, en hún hafði áður hreppt gull í alpatvíkeppninni. Hún mætti til leiks í St. Moritz í Sviss meidd á hné og slæm í öxl. Fyrir mótið sagðist hún ekki ætla að leggja mikla áherslu á HM, en læknar hennar fengu engu ráðið og hún sagði þeim að eina leiðin fyrir þá til að koma í veg fyrir að hún keppti væri að binda hana við rúmið. Það gerðu þeir ekki og hún sigraði nokkuð örugglega.

Ég veit ég sagðist ekki ætla að leggja mikið upp úr þessu móti, en þetta er samt mjög gaman," sagði Janica eftir sigurinn. "Ég fann meira til í öxlinni en hnénu og það var verra í byrjun en lagaðist þegar neðar kom í brautina," sagði þessi 21 árs gamla stúlka. Hún á ekki góðar minningar frá St. Moritz því ferill hennar var nærri á enda þar fyrir þremur árum þegar hún slasaðist illa á brunæfingu.

Búist var við að keppnin stæði á milli Kostelic og sænsku stúlkunnar Anju Pärson, sem átti titil að verja, en þær tvær eru þær einu sem hafa sigraði í svigi á heimsbikarmótunum í vetur, Kostelic fjórum sinnum en sú sænska þrívegis.

Pärson, sem sigraði í risasviginu, gerði tvenn afdrifarík mistök í fyrri ferðinni og þrátt fyrir besta tímann í þeirri síðari náði hún ekki að vinna upp 1,60 sekúndna mun og var allt annað en sátt við að komast ekki á verðlaunapall. Þangað fóru hins vegar austurrísku stúlkurnar Marlies Schild, sem varð önnur og Nicole Hosp. "Ég átti alls ekki von á verðlaunum á mótinu og er því mjög hamingjusöm með bronsið og silfrið í tvíkeppninni," sagði Hosp eftir mótið.

Loksins tókst það hjá bróðurnum

Ivica Kostelic grét af gleði þegar ljóst var að hann hafði sigrað í svigi karla á sunnudaginn. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem systkini sigra í sömu greininni á HM og fyrsti sigur Ivica á stórmóti. "Þetta er einn stærsti dagur lífs míns," sagði pilturinn eftir að ljóst var að hann hafði skotið öllum öðrum aftur fyrir sig. Silvan Zurbriggen frá Sviss varð annar og þriðji Ítalinn Giorgio Rocca. Bandaríkjamaðurinn Bode Miller, sem ætlaði að krækja sér í þriðju gullverðlaun sín á leikunum, varð að sætta sig við sjötta sætið.

Kostelic virtist ekki hafa mikla trú á að hann gæti unnið. "Áður en við lögðum af stað ræddum við Zurbriggen aðeins saman og ég sagði honum að ég teldi hann sigurstranglegan. Hann sagði að þetta yrði erfitt og þá sagði ég að ef mér tækist að vinna þá yrði hann annar. Það reyndist rétt," sagði Kostelic eftir keppnina.