Eins og svo oft áður  var það Pakistaninn Zia Mahmood sem stal senunni.
Eins og svo oft áður var það Pakistaninn Zia Mahmood sem stal senunni.
PAKISTANINN Zia Mahmood skráði nafn sitt í gestabókina á Hótel Loftleiðum sl. laugardag með eftirminnilegum hætti eins og svo oft áður. Hann og ungur félagi hans, Boye Borgeland, hreinlega stálu fyrsta sætinu í rúmlega 130 para tvímenningi sem lauk um...

PAKISTANINN Zia Mahmood skráði nafn sitt í gestabókina á Hótel Loftleiðum sl. laugardag með eftirminnilegum hætti eins og svo oft áður. Hann og ungur félagi hans, Boye Borgeland, hreinlega stálu fyrsta sætinu í rúmlega 130 para tvímenningi sem lauk um kl. 19. Allt mótið eða þar til í síðustu umferð höfðu Svíarnir Björn Fallenius og Roy Welland leitt mótið og lengi vel með miklum mun.

Fyrir síðustu umferðina gat fátt komið í veg fyrir sigur þeirra nema undramaðurinn Zia Mahmood. Björn og Roy höfðu þá 927 stig en Zia og Boye 845. Björn og Roy höfðu spilað mótið af miklu öryggi og úrslitin komu ekki á óvart í fyrstu. Björn Fallenius og Roy Welland fengu 1.033 stig og Zia og Boye urðu aðrir með 916. En þessi úrslit stóðu aðeins skamma stund þar sem í ljós kom að skor úr einu spili hafði verið ranglega skráð á fyrsta borði þar sem Björn og Roy spiluðu nær allt mótið. Þeir höfðu ranglega skráð sér toppskor í stað andstæðinganna sem gerði það að verkum að þeir enduðu í öðru sæti en Zia og Boye sigruðu með minnsta mun.

Lokastaða efstu para í mótinu varð annars þessi:

Zia Mahmood - Boye Brogeland 918

Björn Fallenius - Roy Welland 906

Hrannar Erlingsson - Júlíus Sigurjónss.775

Hermann Friðrikss. - Guðm. Þ. Gunnarss./

Magnús Torfason/Garðar Hilmarsson763

Peter Bertheau - Fredrik Nystrom 613

Aðalst. Jörgensen - Sverrir Ármannss.592

Lars Blakset - Sören Christiansen578

Ásmundur Pálss. - Guðm. Páll Arnarson558

Janet De Botton - Geir Helgemo550

Guðm. Hermannss. - Helgi Jóhannss.549

Íslensku pörin geta vel við unað. Júlíus og Hrannar eru miklir tvímenningsspilarar. Þeir voru í toppbaráttunni nær allt mótið og áttu þriðja sætið fyllilega skilið. Hermann Friðriksson á einnig hrós skilið. Hann var í vandræðum með að finna sér meðspilara og spilaði 10 fyrstu umferðirnar við Magnús Torfason, næstu fimm við Garðar Hilmarsson og í lokaumferðunum við Guðmund Þ. Gunnarsson og vantaði þá aðeins herzlumuninn til að ná þriðja sætinu.

Í gær hófst svo sveitakeppni með þátttöku tæplega 70 sveita. Spilaðar verða 10 umferðir með Monrad-fyrirkomulagi og er sýningartafla fyrir áhorfendur. Erlendu sveitirnar eru firnasterkar en það verður enginn krýndur sigurvegari fyrr en í mótslok og margar íslenzkar sveitir sem eiga eftir að velgja atvinnumönnunum undir uggum.