Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson
RÚNAR Kristinsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við belgíska 1. deildarfélagið Lokeren um helgina.

RÚNAR Kristinsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við belgíska 1. deildarfélagið Lokeren um helgina. Hann leikur því með félaginu til vorsins 2005 en hann hefur verið í herbúðum Lokeren frá því í nóvember árið 2000. Rúnar hefur átt mjög gott tímabil í vetur, í stöðu afturliggjandi sóknarmanns en á dögunum sagði hann í viðtali í Morgunblaðinu að það væri sannkölluð draumastaða fyrir sig.

"Ég er mjög bjartsýnn á gengi liðsins næstu ár og það er gaman að vera í góðu liði. Ég er mjög ánægður með að þetta skuli vera komið á hreint og vona að samkomulag náist sem fyrst við Arnar Þór Viðarsson fyrirliða, þannig að við verðum áfram fjórir, Íslendingarnir hjá félaginu," sagði Rúnar við Morgunblaðið eftir undirskriftina. Hann hefur skorað 6 mörk í 16 deildaleikjum með Lokeren í vetur.

Arnar Grétarsson samdi í síðustu viku við Lokeren til ársins 2006 og Marel Baldvinsson er nýkominn til félagsins.