[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAMKVÆMT skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið ætlar tæpur helmingur kjósenda Framsóknarflokksins árið 1999 að kjósa flokkinn nú, eða 45,9%.

SAMKVÆMT skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið ætlar tæpur helmingur kjósenda Framsóknarflokksins árið 1999 að kjósa flokkinn nú, eða 45,9%. Tæp 80% þeirra sem kusu Samfylkinguna í síðustu kosningum ætla að kjósa hana nú, tæp 70% ætla áfram að styðja Sjálfstæðisflokkinn, 43,2% Vinstri hreyfinguna - grænt framboð og 43,8% Frjálslynda flokkinn.

Könnunin var gerð dagana 6. til 10. febrúar sl. í síma þar sem stuðst var við 1.200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá. Úrtakið náði til fólks af öllu landinu á aldrinum 18-80 ára. Alls svöruðu 813 manns, eða 67,8%, 20% neituðu að svara og 12% náðist ekki í. Nettósvarhlutfall var 71%.

Spurt var: Ef Alþingiskosningar yrðu haldnar á morgun, hvaða flokk eða lista heldurðu að þú myndir kjósa? Ef fólk sagðist ekki vita það var áfram spurt hvaða flokk eða lista líklegast væri að það kysi og ef svar fékkst ekki við því var spurt hvort líklegra væri að það kysi Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk.

Fylgi flokkanna skiptist þannig að 40,1% sögðust styðja Samfylkinguna, 35,8% Sjálfstæðisflokkinn, 13,5% Framsóknarflokkinn, 7,4% Vinstri græna og 2,9% Frjálslynda flokkinn.

Könnunin sýnir ennfremur að 22,5% kjósenda Framsóknarflokksins árið 1999 ætla að kjósa Samfylkinguna núna, 5,4% ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 6,3% Vinstri græna og 0,9% Frjálslynda flokkinn.

Sem fyrr segir ætla tæp 70% kjósenda Sjálfstæðisflokksins fyrir fjórum árum að kjósa flokkinn áfram, 12,3% ætla að kjósa Samfylkinguna, 4,3% Framsóknarflokkinn, 2,2% Vinstri græna og 1,8% Frjálslynda flokkinn. Rúmur þriðjungur kjósenda Vinstri grænna í síðustu kosningum, eða 34,1%, ætlar að kjósa Samfylkinguna núna, 4,5% Framsóknarflokkinn, 2,3% Frjálslynda flokkinn en enginn stuðningsmanna VG ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn nú.

Kjósendur Samfylkingarinnar eru flokkshollir, samkvæmt könnuninni, eða 79,1% sem kusu flokkinn 1999 ætla að kjósa flokkinn áfram, 4,3% ætla að kjósa Vinstri græna, 3,6% Framsóknarflokkinn, 1,4% Sjálfstæðisflokkinn og 1,4% flokk þjóðernissinna.

Kjósendur Frjálslynda flokksins fyrir fjórum árum eru frekar óákveðnir í afstöðu sinni nú, 43,8% ætla að kjósa flokkinn aftur, 25% ætla að styðja Samfylkinguna, 25% eru óákveðnir eða neita að svara og 6,3% ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Félagsvísindastofnun vekur athygli á því að þó svo að lægra hlutfall kjósenda Sjálfstæðisflokksins árið 1999 segist ætla að kjósa Samfylkinguna heldur en hlutfall Framsóknarflokksins, eða 12,3% á móti 22,5%, eru fjöldatölurnar á bakvið þessi hlutföll hærri fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Framsókn. Fjöldinn á bakvið hlutfall kjósenda Sjálfstæðisflokksins sem ætlar að kjósa Samfylkinguna er 34 einstaklingar en hjá Framsóknarflokknum er hann 25. Þetta þýðir, að mati stofnunarinnar, að ef skoðaðir eru sérstaklega þeir kjósendur sem gefa upp hvaða flokk þeir kusu 1999 og ætla að kjósa Samfylkinguna núna, þá kemur í ljós að um 58% þeirra kusu Samfylkinguna síðast, 18% þeirra kusu Sjálfstæðisflokkinn, 13% kusu Framsóknarflokkinn, 8% Vinstri græna og 3% annað.

Félagsvísindastofnun hefur einnig greint svör kjósenda í könnuninni eftir aldri, kyni og starfi. Kemur þá í ljós að flestir karlar, eða 40,8%, styðja Sjálfstæðisflokkinn, 33,1% karla styðja Samfylkinguna, 15,1% Framsóknarflokkinn og 6,5% Vinstri græna. Meðal kvenna nýtur Samfylkingin mest stuðnings, eða 46,9%, 31,7% þeirra styðja Sjálfstæðisflokkinn, 11,4% Framsóknarflokkinn og 8,4% Vinstri græna. Þetta eru svipaðar niðurstöður og í könnun Félagsvísindastofnunar í ágúst 2002.

Samfylking vinsælust í öllum aldurshópum nema þeim yngsta

Skipt eftir aldri nýtur Sjálfstæðisflokkurinn mest stuðnings meðal yngstu kjósendanna, eða 41,5%. Samfylkingin nýtur mest stuðnings í öðrum aldurshópum, frá 35,8% stuðnings í elsta aldurshópnum, 60-80 ára, til 43,9% á aldrinum 35-44 ára. Séu fleiri stjórnmálaflokkar skoðaðir er Framsóknarflokkurinn með mesta fylgið meðal 45-49 ára kjósenda, 19,3%, og Vinstri grænir hafa flesta stuðningsmenn meðal 60-80 ára kjósenda, eða 11,7%. Frjálslyndi flokkurinn höfðar sömuleiðis mest til elstu kjósendanna.

Miðað við starfsvettvang fólks í könnuninni eru flestir stjórnendur og æðstu embættismenn í hópi kjósenda Sjálfstæðisflokksins, flestir sérfræðingar og kennarar styðja Samfylkinguna og flokkurinn er sömuleiðis með mesta fylgið meðal iðnaðarmanna og sérhæfðra, vélafólks og ófaglærðra, námsmanna og þeirra sem ekki eru útivinnandi. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mest stuðnings meðal tækna og skrifstofufólks, þjónustu- og afgreiðslufólks, sjómanna og bænda. Hjá öðrum flokkum skiptist þetta þannig að Framsóknarflokkurinn er oftast nefndur meðal sjómanna og bænda, eða 24,1%, en til samanburðar mældist flokkurinn með 13,5% fylgi í könnuninni. Frjálslyndi flokkurinn sækir mesta stuðninginn í sömu stéttir, þ.e. sjómenn og bændur, 12,1%, til samanburðar við 2,9% heildarfylgi í könnun Félagsvísindastofnunar. Vinstri grænir eru oftast nefndir meðal þeirra sem ekki eru útivinnandi, 14,7%.