Benedikt Bragason
Benedikt Bragason
EIGINMAÐUR Andrínu Guðrúnar Erlingsdóttur, Benedikt Bragason, segir að miklu fargi sé af sér létt, en hann beið í gær á milli vonar og ótta eftir að konu hans yrði bjargað, en hún sat föst í þrjá tíma úti í miðjum krapaelg norðan við Landmannalaugar.

EIGINMAÐUR Andrínu Guðrúnar Erlingsdóttur, Benedikt Bragason, segir að miklu fargi sé af sér létt, en hann beið í gær á milli vonar og ótta eftir að konu hans yrði bjargað, en hún sat föst í þrjá tíma úti í miðjum krapaelg norðan við Landmannalaugar.

Fyrst eftir að Andrína datt af sleðanum reyndi Benedikt að vaða út í til hennar en vatnið náði honum upp að höndum um leið og hann steig út í vatnið. Eftir að Andrína hafði gefið honum merki um að það væri allt í lagi með hana, fór hann á sleðanum inn í Landmannalaugar, þar sem hann vissi af hópi jeppamanna. Hann sá að þeir voru fastir í krapa skammt frá Landmannalaugum, leist ekki á blikuna og sá að eina leiðin til að bjarga konu hans úr prísundinni væri að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Þar sem mjög hvasst var óttaðist Benedikt að þyrlan gæti ekki flogið. "Þeir voru í sambandi við mig allan tímann og ég vissi af því þegar þeir voru að meta það hvort þeir gætu farið. Svo frétti ég af því um leið og þyrlan fór í loftið. En hún var ansi lengi á leiðinni eftir að hún fór í loftið," segir Benedikt.

Nú væri þungu fargi af honum létt. "Við þekkjum þetta landsvæði eins og lófann á okkur. Við áttum ekki von á svo miklum hlýindum og þessari gríðarlegu hláku," segir Benedikt. Hann segir þau hafa verið á venjubundinni leið. "Þetta er gönguleiðin inn í Landmannalaugar úr Sigöldu. Við vorum komin frá Landmannahelli og gátum þrætt okkur meðfram Eskihlíðarvatni og þannig niður á gönguleiðina og ákváðum að fara og athuga hvernig jeppunum gengi," segir Benedikt.

Eins og hafsjór yfir að líta

Hann segir mjög slæmar aðstæður fyrir ferðalög vera á þessu svæði. "Hálendið hér að Fjallabaki er allt á floti. Það hefur hlánað svo mikið að þetta er bara eins og hafsjór yfir að líta. Við vorum ekki á neinu vatni, það var allt á floti og svo enduðum við úti í stærðarinnar stöðuvatni, bara leysingavatni og hún komst ekki yfir. Það var ekki nokkur leið fyrir mig að komast að henni eða fyrir hana að komast í land. Hún fór bara á kaf ef hún steig af sleðanum," segir Benedikt.

Þó alltaf sé auðvelt að vera skynsamur eftir á, segir Benedikt þegar hann er spurður hvort eitthvað hefði verið hægt að gera öðruvísi, að enginn lendi í svona háska nema hann taki einhverjar óskynsamlegar ákvarðanir. "Við vorum búin að þrælast yfir mjög langt krapabelti sem við vorum að reyna að komast út úr. Það endaði bara í þessu stöðuvatni, við vissum ekkert fyrr en við vorum komin út í það. Ég hafði það yfir en hún ekki. Það var bara þannig. Hún lenti í ölduganginum á eftir mér og stakkst á kaf."

Benedikt segist vita um annan vélsleðamann sem missti sleðann ofan í krapa um helgina, en hann var við Vondugil sunnan við Landmannalaugar. Hann segir að á næstu dögum verði skoðað hvernig verði hægt að ná sleðanum upp úr krapaelgnum.