Villti folinn stekkur af krafti í annað sæti mynddiskalistans.
Villti folinn stekkur af krafti í annað sæti mynddiskalistans.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TEIKNIMYNDIN Villti folinn ( Spirit: Stallion of Cimarron ) kom út á mynddiski fyrir skömmu og kemur nú á stökki inn á listann yfir þá sem seldust best í síðustu viku.

TEIKNIMYNDIN Villti folinn (Spirit: Stallion of Cimarron) kom út á mynddiski fyrir skömmu og kemur nú á stökki inn á listann yfir þá sem seldust best í síðustu viku. Þessi hugljúfa teiknimynd, gerð af hinum sömu og færðu okkur Shrek, sem vel að merkja er í 11. sæti listans, situr nú í 2. sæti og velgir toppmyndinni, viðhafnarútgáfunni á Föruneyti hringsins, rækilega undir uggum.

Villti folinn segir sögu hests og baráttu hans fyrir frelsinu á tímum landnámsins í Norður-Ameríku. Teikningar þykja með afbrigðum vel lánaðar og myndin er líka býsna óvenjuleg fyrir þær sakir að þótt folinn sé sögumaður þá tala engin dýr í myndinni. Það má því segja að myndirnar sjái um að tala, sem hentar einkar vel yngstu áhorfendunum.

Þrjár myndir koma beint inn á sölulistann, tvær spánnýjar og ein endurkoma. Sjónvarpsþættirnir Futurama, gerðir af Matt Groening, höfundi Simpson-fjölskyldunnar, eru greinilega vinsælir því önnur þáttaröðin, sem var að koma út á mynddiski, fer beint í 5. sæti. Mynddiskurinn með safni myndbanda U2 frá árunum 1990-2000 hefur notið töluverðra vinsælda síðan hann kom út skömmu fyrir jólin síðustu og kemur nú aftur inn á lista í 16. sæti. Í 17. sæti kemur svo nýr inn mynddiskurinn með Monty Python-myndinni The Holy Grail, eða Rugluðu riddararnir, eins og myndin var kölluð þegar hún var sýnd hér á sínum tíma. Athyglisverður diskur og uppfullur af aukaefni.