ÍSLANDSBANKI hf. hefur gert hluthöfum í Fjárfestingarfélaginu Straumi hf. tilboð um kaup á hlutabréfum í félaginu á genginu 3,15. Frestur til að taka tilboðinu er til 6. mars næstkomandi.

ÍSLANDSBANKI hf. hefur gert hluthöfum í Fjárfestingarfélaginu Straumi hf. tilboð um kaup á hlutabréfum í félaginu á genginu 3,15. Frestur til að taka tilboðinu er til 6. mars næstkomandi. Tilboðið miðast við eignarhlut hluthafa í hlutaskrá félagsins við lok dags 13. febrúar 2003. Tilboðið er gert með vitund og í samráði við stjórnendur Straums. Eignarhlutur Íslandsbanka í Fjárfestingarfélaginu Straumi hf. er 25,34%. Frá þessu var greint í tilkynningu til Kauphallar Íslands síðastliðinn föstudag.

Margir nýta skattaafslátt

Í bréfi sem Íslandsbanki mun senda hluthöfum, og fylgdi með tilkynningunni til Kauphallarinnar, kemur fram að fjölmargir viðskiptavinir bankans hafi keypt hlutabréf í Hlutabréfasjóðnum hf., m.a. til að nýta tækifæri til skattaafsláttar.

Þar sem árið 2002 hafi verið síðasta árið sem einstaklingar hafi getað nýtt sér hlutabréfakaup til skattalækkunar hafi forsendur fyrir sérstökum hlutabréfasjóðum í formi hlutafélaga breyst. Hlutverki Hlutabréfasjóðsins hafi verið breytt og hann gerður að fjárfestingarfélagi og nafni sjóðsins hafi jafnframt verið breytt í Fjárfestingarfélagið Straum. Segir í bréfinu að í ljósi breytinga á starfsemi félagsins kunni upphaflegar forsendur hlutabréfaeignar einstaklinga í Straumi að hafa breyst. Því geri Íslandsbanki hluthöfum tilboð um kaup á hlutabréfum þeirra í Straumi.

Einnig var greint frá því í tilkynningu til Kauphallar Íslands að Fjárfestingarfélagið Straumur hefði keypt eigin bréf, 135 milljónir króna að nafnverði, á verðinu 3,15. Eftir kaupin er eignarhlutur Straums 9,45%, eða 265 milljónir að nafnverði.