HAGNAÐUR Kauphallar Íslands hf. á árinu 2002 nam 24 milljónum króna eftir skatta. Árið áður var hagnaðurinn 19 milljónir.

HAGNAÐUR Kauphallar Íslands hf. á árinu 2002 nam 24 milljónum króna eftir skatta. Árið áður var hagnaðurinn 19 milljónir. Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að afkoma síðasta árs sé nokkuð betri en gert hafi verið ráð fyrir í endurskoðaðri rekstraráætlun frá því í ágúst síðastliðnum. Það stafi fyrst og fremst af meiri veltu skráðra verðbréfa en gert hafi verið ráð fyrir.

Rekstrartekjur Kauphallarinnar að frádregnum söluhagnaði jukust úr 252 milljónum í 302 milljónir milli áranna 2001 og 2002. Segir í tilkynningunni að aukninguna megi öðru fremur rekja til aukinna veltugjalda og árgjalda kauphallaraðila og upplýsingaveitna. Tekjur af veltugjöldum voru 113 milljónir árið 2002 en 90 milljónir 2001 en velta skráðra bréfa jókst um 51% milli ára. Segir í tilkynningunni að hlutfallslega minni aukning veltutekna en veltu skýrist af afnámi lágmarksveltugjalda og lítilsháttar fækkun viðskipta þrátt fyrir aukna veltu. Jafnframt því að lágmarksveltugjöld og notendagjöld voru afnumin hafi verið tekin upp föst árgjöld kauphallaraðila. Árgjöld kauphallaraðila og upplýsingaveitna jukust af þessum sökum úr 17 milljónum í 34 milljónir.

Rekstrargjöld á árinu 2002 voru 282 milljónir samanborið við 246 milljónir árið 2001.

Eignir í árslok 2002 námu 209 milljónum en 176 milljónum árið áður. Eigið fé jókst úr 145 milljónum í 160 milljónir og eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 82,1% í 76,5%.

Arðsemi eigin fjár var 16,9% í fyrra en 15,5% á árinu 2001.

Fram kemur í tilkynningu Kauphallarinnar að velta skráðra verðbréfa sé sá þáttur sem hvað mest áhrif hafi á afkomu félagsins og jafnframt hvað erfiðast sé að spá fyrir um. Metvelta hafi verið á síðastliðnu ári, 1.133 milljarðar króna, sem sé meira en 50% aukning frá fyrra ári. Mat Kauphallarinnar er að horfur fyrir árið 2003 séu ágætar og gera áætlanir hennar ráð fyrir 7% veltuaukningu milli ára. Reiknað er með að hagnaður verði 18 milljónir, sem svarar til 11,5% arðsemi eigin fjár.