"ÞETTA var gríðarlega góður og mikilvægur sigur. Við höfum verið að misstíga okkur illa á útivelli þannig að við urðum að rísa upp og taka þennan leik því takmark okkar er að vinna deildina.

"ÞETTA var gríðarlega góður og mikilvægur sigur. Við höfum verið að misstíga okkur illa á útivelli þannig að við urðum að rísa upp og taka þennan leik því takmark okkar er að vinna deildina. Við tökum á móti Keflavík í næstu umferð og það er ekki síður mikilvægur leikur og því megum við ekki hugsa of mikið um þennan sigur," sagði Herbert Arnarsson, fyrirliði KR, eftir að lið hans hafði unnið góðan stórsigur á toppliði Grindavíkur. Með Darrell Flake í fararbroddi völtuðu KR-ingar yfir gesti sína án þess að líta um öxl og niðurstaðan varð 26 stiga stórsigur, 98:72.

KR-ingar tóku völdin strax í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar áttu í mestu vandræðum með vörn heimamanna og hittu þeir illa úr skotum utan af velli. Hins vegar nýttu KR-ingar skot sín mun betur. Herbert Arnarson og Darrell Flake fóru fyrir sínum mönnum og röðuðu niður stigunum. Grindvíkingar voru í stökustu vandræðum og skoruðu aðeins 13 stig í fyrsta leikhluta. KR lék sóknarleikinn af sama krafti í öðrum leikhluta og Grindvíkingum gekk betur að skora. Darrel Lewis hélt gestunum á floti en Darrell Flake var gestunum erfiður auk þess sem Óðinn Ásgeirsson setti nokkrar góðar körfur. Þegar leikurinn var hálfnaður voru heimamenn komnir með 12 stiga forystu, 47:35.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Herbert setti niður tvær þriggja stiga körfur og í kjölfarið kom góður leikkafli heimamanna. Þeir juku muninn jafnt og þétt án þess að Grindvíkingar fengju neitt við ráðið. Skotnýting gestanna var slök og fráköstin enduðu oftar en ekki í höndum KR-inga. Heimamenn skoruðu 26 stig á móti 15 stigum gestanna í þriðja leikhluta og staðan var því orðin 73:50 þegar fjórði leikhluti hófst. Grindvíkingum tókst að laga leik sinn í fjórða leikhluta en þá vöknuðu þeir Helgi Jónas Guðfinnsson og Páll Axel Vilbergsson til lífsins. Það breytti þó ekki miklu því að KR-ingar héldu áfram á sömu keyrslu og þeir höfðu verið á allan leikinn. Baldur Ólafsson kom sterkur inn hjá heimamönnum undir lokin og skoraði körfur af öllum gerðum. Niðurstaðan var sanngjarn sigur KR, 98:72.

KR-ingar spiluðu glimrandi vel í gærkvöldi. Darrell Flake átti afar góðan leik, skoraði 35 stig og tók auk þess 25 fráköst, sem eru jafnmörg fráköst og allt lið Grindavíkur tók til samans. Herbert Arnarsson átti einnig fínan leik auk þess sem Baldur Ólafsson kom sterkur inn undir lok leiksins. Grindvíkingar áttu slæman dag. Þeirra atkvæðamestur var Darrel Lewis, en aðrir leikmenn spiluðu langt undir getu.

"Okkur skorti kraft og vilja í þessum leik. Við tókum ekkilausu boltana, sem voru oft á tíðum nær okkur en þeim, þeir höfðu bara miklu meiri vilja til að sigra í þessum leik á meðan við vorum á hælunum," sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga. Hann var samt ekki á því að þessi úrslit hefðu áhrif á það hverjir verða deildarmeistarar: "Þeir litu rosalega vel út í dag og ég óska þeim til hamingju með þennan sigur. Það er hins vegar enginn beygur í okkur. Við ætlum okkur að verða deildarmeistarar og þessi leikur kemur ekki til með breyta því neitt."

Benedikt Rafn Rafnsson skrifar