HAMAR í Hveragerði vann langþráðan og jafnframt mikilvægan sigur á ÍR, 76:74, í gærkvöldi. Eftir sigurinn hefur Hamar 10 stig í 10 sæti. Það var Lárus Jónsson sem tryggði heimamönnum stigin tvö með þriggja stiga körfu, mínútu fyrir leikslok og breytti stöðunni í 76:73. Gestirnir náðu ekki að nýta sér tímann sem var eftir, en þeir settu niður eitt vítaskot áður en leiktíminn rann út.

Þetta var sigur, en það er ansi langt síðan það gerðist og þetta er fyrsti sigur okkar á þessu ári. Við spiluðum loksins almennilega vörn, nokkuð sem við höfum ekki gert mikið af. Við vorum búnir að fara vel yfir þeirra leik, þannig það kom okkur ekkert á óvart," sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars.

Pétur taldi jafnframt að liðið þyrfti tvo sigra í viðbót til að tryggja stöðu sína í deildinni, en þó er hann heldur ekki búinn að gefa úrslitasæti upp á bátinn. "Við stöndum hins vegar ekki vel að vígi gagnvart Breiðabliki, en það hefur betur í innbyrðisviðureignum við okkur. Við verðum bara að bíta á jaxlinn."

Keith Vassell var án efa maðurinn á bak við sigur Hamarsmanna í gærkvöldi, en hann skoraði 31 stig. Þá er varnarleikur liðsins orðinn mjög öflugur og munar þar um Vassell. Það má kannski segja að það hafi verið varnarleikurinn sem skildi á milli liðanna. Bæði lið léku góða vörn, heimamenn þó aðeins betur.

ÍR-ingar byrjuðu af miklum krafti og komust í 11:2, en heimamenn tóku þá leikhlé og komu eftir það skipulagi á leik sinn og jöfnuðu. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 20:17. Í öðrum leikhluta héldu heimamenn áfram að auka muninn og í leikhléi var staðan 42:31.

Munurinn varð mestur 11 stig í leiknum í þriðja leikhluta en um hann miðjan tóku ÍR-ingar til við að lagafæra vörnina og minnka muninn, sem varð minnstur eitt stig, 55:55. Í lok þriðja leikhluta var staðan 59:56. Í fjórða leikhluta komust gestirnir þremur stigum yfir, 63:66, og upphófust þá æsilegar lokamínútur. Leikur gestanna var skipulegur og leikið af festu, en Hamarsmenn sem börðust vel náðu að minnka muninn rétt fyrir leikslok og komast yfir, 76:73. ÍR náði ekki að nýta sér þann tíma sem var eftir og Hamar vann langþráðan heimasigur.

Hjá heimamönnum var það Keith Vassel sem dró vagninn, en einnig spilaði Marvin Valdimarsson vel, sem og Lárus Jónsson sem stjórnaði spili sinna manna og tók oft á tíðum af skarið þegar þess þurfti. Eugene Christopher fór fyrir ÍR-ingum og Hreggviður Magnússon og Sigurður Á. Þorvaldsson léku einnig vel.

Helgi Valberg skrifar