Berti Vogts
Berti Vogts
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ er nokkuð ljóst að vináttulandsleikir sem fara fram þegar keppni stendur sem hæst í Evrópu er tímaskekkja, eins og kom fram í síðustu viku. Þá fóru fram fjölmargir landsleikir og sumir þeirra sköpuðu ekkert nema leiðindi.

ÞAÐ er nokkuð ljóst að vináttulandsleikir sem fara fram þegar keppni stendur sem hæst í Evrópu er tímaskekkja, eins og kom fram í síðustu viku. Þá fóru fram fjölmargir landsleikir og sumir þeirra sköpuðu ekkert nema leiðindi. Leikur Englands og Ástralíu í sl. viku var vægast sagt skrípaleikur og kom í ljós að margir leikmenn í byrjunarliði Englands höfðu engan áhuga. Stemmningin var einkennileg á leiknum, sem sást best á því að þegar þulurinn á leiknum tilkynnir að öllu byrjunarliðinu hafi verið skipt útaf í hálfleik, stóðu áhorfendur upp og fögnuðu!

Stór hópur leikmanna liðanna voru með hugann á öðrum stað - bikarleikjunum, sem fóru fram um helgina, aðeins tveimur og hálfum sólarhring eftir landsleikinn.

Síðastliðið sumar urðu þó nokkar umræður um vináttuleiki íslenska landsliðsins, en það kom fram að áhuginn var ekki mikill hjá landsliðsmönnum Íslands í leikjum gegn Andorra og Ungverjalandi. Vináttuleikir eru oft notaðir til tilrauna og allir leikmenn fá að spreyta sig - sumir þó ekki nema tvær síðustu mín. leiksins, eins og gerðist gegn Ungverjum. Ótímabærar skiptingar í vináttuleik gegn Eistlandi í Tallinn varð til þess að Ísland tapaði. Leikið var við aðstæður sem voru ekki bjóðandi - í snjókomu á hálum velli.

Það hafa margir gagnrýnt stöðugar skiptingar á leikmönnum í vináttuleikjum og er Berti Vogts, landsliðsþjálfari Skotlands, einn af þeim. Hann var ekki hrifinn af þeirri taktík sem Sven Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englands, beitti gegn Ástralíu - að skipta út öllu byrjunarliðinu sínu í hálfleik og leyfa yngri leikmönnum að spreyta sig. "Ég hef aldrei og mun aldrei gera slíkt og tel að stuðningsmenn liðsins eigi ekki annað skilið en að sjá þá bestu frá upphafi til enda. Það er ekki sanngjarnt fyrir áhorfendur að fá aðeins að sjá þá bestu í fyrri hálfleik. Þeir ættu í raun aðeins að greiða hálft verð fyrir aðgöngumiðann í slíkum tilvikum," segir Vogts. Baulað var á leikmenn Englands þegar þeir gengu af leikvelli eftir fyrri hálfleikinn og það var einnig baulað á leikmenn Frakka í leik þeirra gegn Tékkum í París, sem þeir töpuðu. Hér á landi hefur þetta einnig gerst og sendi þáverandi landsliðsþjálfari, Guðjón Þórðarson, þá áhorfendum tóninn.

Jacques Santini, landsliðsþjálfari Frakka, dró ekki í efa rétt áhorfenda til þess að láta óánægju sína í ljós. "Menn verða að sætta sig við að það er baulað á þá þegar þeir standa sig illa. Fólk kom til þess að sjá Frakka vinna. Frakkar töpuðu og þjóðin er óánægð, ég hef fullan skilning á því," sagði Santini.

Já, það er misjafn metnaðurinn hjá knattspyrnumönnum, þegar þeir leika fyrir land sitt og þjóð.

Landslið er ekki einkamál nokkurra manna. Það er öllum frjálst að hafa skoðun á landsliði - á því hverjir eru valdir til að leika og hvernig liðið leikur.

Það kom mörgum á óvart sem hlustuðu á setningarræðu Eggerts Magnússonar, formanns Knattspyrnusambands Íslands, á ársþingi sambandsins á dögunum, er hann sagði að landsliðsmenn hefðu ekki ánægju af að leika fyrir hönd Íslands. Eggert sagði í ræðu sinni:

"Það er alvarlegt mál fyrir íslenska knattspyrnu þegar sumir af okkar bestu landsliðsmönnum eru hættir að hafa ánægju af því að koma í landsleiki vegna þeirrar sífelldu neikvæðu umræðu sem ákveðinn hluti íþróttapressunnar heldur gangandi um þessar mundir."

Já, það er orðið alvarlegt mál, þegar menn þora ekki að leika fyrir hönd Íslands vegna þess að menn leyfa sér að hafa skoðanir á landsliðinu.

Svo er það spurningin hvort þeir sem þola ekki pressuna eigi yfir höfuð að leika með landsliðinu? Ég er þeirrar skoðunar að þeir íþróttamenn sem eru byrjaðir að ræða um það að þeir hafi ekki ánægju af því sem þeir eru að gera, eigi ekki að leika fyrir hönd Íslands.

Sigmundur Ó. Steinarsson