Geislaplatan með Steindóri Andersen hefur verið tekin upp og er væntanleg í sumar, með hörpuslætti Moniku Abendroth.
Geislaplatan með Steindóri Andersen hefur verið tekin upp og er væntanleg í sumar, með hörpuslætti Moniku Abendroth.
Steindór Andersen rímnamaður er að grúska í gömlum kveðskap, Naxos er að gefa út söng hans og Hrafnagaldur Óðins er á faraldsfæti. Þórunn Þórsdóttir fékk að heyra af þessum verkefnum Steindórs.

STEINDÓR Andersen rímnamaður fékk fyrir fáum dögum handrit og upptökur sem nýttar verða á væntanlegum geisladiskum Smekkleysu með rímum, líkast til á markaði í haust. Þetta varpar að hans sögn nýju ljósi á sumt af þessum gamla íslenska kveðskap. Bandaríska útgáfufyrirtækið Naxos hefur þá tekið upp söng Steindórs fyrir nýja útgáfuröð þjóðlagatónlistar. Í Hrafnagaldri Óðins kvað hann við nýjan og gamlan tón á Listahátíð í fyrra og endurtekur það, eins og fram kom í blaðinu á föstudaginn, að öllum líkindum í Noregi næsta sumar og í Frakklandi ári síðar. Á miðvikudag verða í Borgarleikhúsinu tónleikar þar sem Steindór kveður með Lúðrasveit Reykjavíkur. Þeir eru þáttur í Myrkum músíkdögum.

Hann fylgdi hljómsveitinni Sigur Rós með rímur á tónleika í Evrópu og Bandaríkjunum í hitteðfyrra. Kvað með rapparanum Erpi Eyvindarsyni og hefur vakið athygli á þessu söngformi svo tala má um tísku. Naxos-útgáfan hafði samband við Árnastofnun til að inna eftir lifandi rímnasöng í nýja röð heimstónlistar, sem seld verður í um 80 löndum undir merkjum þessa fyrirtækis sígildrar tónlistar. Geislaplatan með Steindóri hefur verið tekin upp og er væntanleg í sumar, með hörpuslætti Moniku Abendroth og leik Buzby Birchal á ástralska frumbyggjahljóðfærið didgeridoo.

Þetta gerist að virðist vegna þess að maður tekur sig til og nennir að sinna því af alvöru sem hann hefur áhuga á. Í kvæðamannafélaginu Iðunni og víðar og til hans kemur fólk með gersemar. Nýlega fékk Steindór lánað handritasafn Björns Friðrikssonar frá afkomendum hans, um þrjátíu handskrifuð kver af vísum og 45 plötur, þar af 36 silfurplötur með rímnasöng. Þetta hefur hann afhent Ríkisútvarpinu til að athuga, en fjórir væntanlegir diskar Smekkleysu verða með upptökum af silfurplötunum.

Dæmalaus söguljóð

Steindór segir að rímur séu sagnakveðskapur í ströngu og afmörkuðu formi, frásagnir um persónur úr fornsögum, riddarasögum og ævintýrum og síðar kveðskapur skálda sem ortu vísnaflokka af ýmsu tagi. Síðastur þeirra þekktustu var Sigurður Breiðfjörð. Rímnaflokkum er oft skipt í kafla og breytt um bragarhátt við hver kaflaskipti. Þetta samsvarar að sögn Steindórs köflum í skáldsögu og sá sem kveður hefur leyfi til að yrkja með frá eigin brjósti í upphafi hvers þáttar. Annaðhvort til að lasta sjálfan sig eða stæra, lofa skáldagyðjuna eða deila á yfirvöld. Rímurnar má kalla séríslenskt fyrirbæri, sérstaklega í blóma frá 17. til 19. aldar, lífseigar á Norðvesturlandi ekki síst og smám saman ortar undir dýrari háttum.

Elsta ríman er talin vera Ólafsríma Haraldssonar Noregskonungs, eftir Einar Gilsson lögmann, varðveitt í Flateyjarbók frá 14. öld. Rímurnar voru oft ortar upp úr sögum í lausu máli án mikilla efnisbreytinga eða túlkunar og þær gátu orðið býsna langar. Olgeirsrímur danska, sem Guðmundur Bergþórsson orti seint á 17. öld er líklega viðamest, um 60 rímur. Þótt þessi kvæði hafi átt hliðstæður í evrópskri ljóðagerð miðalda má kalla þau dæmalausa mansöngva, heimildir, skopstælingar og skáldverk.

Dýrust drósa

Sem dæmi um vísu er Steindór skildi á nýjan hátt með handritum Björns Friðrikssonar nefnir hann þessar línur eftir Jónas Jónasson frá Torfmýri: "Jurtir þíðar fara á fót (áður skilið: Upp til tíðar fara á fót)/ fagrar hlíðir gróa/ árdags blíðum bjarma mót/ blómin fríðu glóa." Þetta segir hann ekki uppgötvun í sjálfu sér heldur athyglisvert dæmi um hvað greina kann milli þess sem heyrt er og skrifað. Fleira fólk muni athuga þessi skrif og upptökur og auka þannig vonandi við menningararf sem við eigum. Hægt er að skoða talsvert af rímunum á vef Kvæðamannafélagsins Iðunnar.

Tónleikarnir í Borgarleikhúsinu á miðvikudaginn, þar sem Steindór kveður með Lúðrasveit Reykjavíkur, hefjast með verki eftir Pál P. Pálsson. Þá kemur Elías Davíðsson, Ronald Binge og annað verk Páls. Því næst Robert W. Smith, Manfred Schneider og loks Lárus Halldór Grímsson hljómsveitarstjóri með Ann ég dýrust drósa, fyrir kvæðamann og lúðra, samið á síðasta ári.