Björn Sigurbjörnsson
Björn Sigurbjörnsson
eftir Björn Sigurbjörnsson. Vaka - Helgafell 2003 - 62 bls.

LJÓÐIÐ er góður sálufélagi. Skáldinu er það trúnaðarvinur og náð, lesendum upplifun og jafnvel huggun. Án ljóðsins væri lífið fátækara.

Björn Sigurbjörnsson, prestur í Danmörku og skáld, sem nú er látinn, hefur sent frá sér ljóðabók sem hann nefnir Út og heim. Þetta er hinsta kveðja hans á ritvellinum, hugljúf bók, full af trega og söknuði en jafnframt gædd elsku og hlýleika og ást á lífinu.

Meginefni bókarinnar er orðræða um líf manns andspænis sársauka sjúkdóms og fallvaltleika tilverunnar. En hún er jafnframt lofgjörð um lífið og kannski einkum hið smáa og hversdagslega í lífinu. Blær hennar er ljúfsár og tregafullur sem birtist ekki síst í mikilli heimþrá til átthaganna heima á Íslandi. En í gegnum hana skín samt líka einhver þakkargjörð og sátt þess manns sem veit hvað bíður hans.

Ljóð Björns eru einföld að gerð og einlæg, líkust vangaveltum. Málfar þeirra er látlaust og eðlilegt, stíllinn gegnsær. Í sumum ljóðanna er textinn heimspekilegur. Í kvæðinu Hismi virðist maðurinn vera óttalegt hismi í fyrstu. Ljóðmælandi lítur til himins og sér stjörnurnar, þessi sólkerfi, sem virðast eins og smákorn á himni og í því ljósi líkir hann sjálfum sér við rykkorn ,,sem vindur tilviljana / feykir hingað og þangað". En þessi líking nægir skáldinu ekki:

En nú stækkar bjartasta stjarnan

jafnt og þétt

Hún er flugvél á leið til lendingar

og ég er aftur maður

Heimþráin í ljóðum Björns er áberandi. Í kvæðinu Ég man segist skáldið muna hvað það var gott ,,að hitta Íslendinga / eða kaupa Moggann / á Hovedbanegården / og fá fréttir. // Ég man / hvað mig langaði heim". En glíman við forgengileikann setur þó sterkasta mark sitt á kvæðin. Í kvæðinu Líf sjáum við í senn dæmi um trega og æðruleysi gagnvart því sem framundan er þó að lífið hafi tekið á sig aðra mynd en óskir hans stóðu til: ,,og blasir nú við / hinum // eins og bjartur sumarmorgunn. // Í þokunni greini ég / bátinn við árbakkann."

Stundum bregður fyrir kímni í bland við hina alvarlegu umræðu um fallvaltleika tilverunnar. Í kvæðinu Nöfn gantast Björn með þær undarlegu afbakanir á nafni hans sem ýmsir Danir hafa fest við hann svo að honum finnst hann hafa glatað samsemd sinni og nafnsins en hann bætir við:

En þið sem þekktuð hann Bjössa:

Staldrið við á staðnum

þar sem ég kann að vera geymdur og grafinn

og nefnið mig með nafni

svo samsemd mín geti læðst hljóðlega

heim.

Við hérna heima getum ekki annað en þakkað ást þessa ágæta skálds á heimahögunum og kveðjum Björn með þakklæti fyrir að hafa átt með kvæðum hans ljúfar stundir.

Skafti Þ. Halldórsson